miðvikudagur, febrúar 25, 2009

Flutt tilbaka.

Hér er ég og komin aftur á mitt gamla blogg. Ástæðan er sú að ég var búin að fá nóg af umhverfinu á Moggablogginu og soranum sem svamlar þar um inn á milli.  Maður komst ekki hjá því að sjá misgáfulegar færslur hjá misillkvittnum kjaftakerlingum af báðum kynjum.  Og svo er ekki hægt að lesa mbl.is án þess að sjá tengingar við færslur og maður fær óþverrann í augun, hvort sem maður vill eða ekki.  Mín skoðun er sú að það sé ekki hollt fyrir mann að vera neyddur til að horfa á þetta bjakk, ekki síst þegar maður þarf á öllum sínum jákvæðu kröftum að halda til að halda haus.   Þannig að ég mun leitast við að lesa sem minnst af þessu þrasi á netinu og að auki að færa mín skrif hingað í bili.  Þetta endurspeglar svo sem ágætlega það sem við gerum hér heima sem er að Fréttablaðið fær oftast snögga og fría ferð í endurvinnslugáminn og mér persónulega finnst skemmtilegra að lesa ruslpóstinn heldur en dagblöðin.

Héðan ofan af heiðum er allt ágætt að frétta og menn og dýr í ágætu formi.  Við höfum innipúkast talsvert eftir langdreginn pestarhátt í janúar en Strympa er að hressast og meira segja kötturinn er að kíkja dálítið út þessa dagana.  En stutt þó, svakalega stutt, því hann stendur í þeirri meiningu að umheimurinn sé almennt varhugaverður og þá sérstaklega utan dyra.

Hulda heldur áfram að taka framförum í tali og nú er búið að ákveða að hún fari í hverfisskólann hérna með sínum félögum.  Svo var buffinu loksins lagt í síðustu viku og ákveðið að það verði ekki brúkað aftur.  Hittist þá ekki svona vel á að það kemur upp lús í leikskólanum og langflestir mæta með buff í leikskólann, nema Hulda.  En við stöndum fast á okkar og barnið fer ekki að nota þetta aftur og verður frekar kembd daglega á meðan á þessu stendur.  Enda grunar mig að þetta sé falskt öryggi því maður sér blessuð börnin kippa þessu af sér og ég veit það að ef ég væri 5-6 ára væri ég alveg til í að prófa buff næstu manneskju.  En hún er lúsarlaus og við bara vonum hið besta.

Ég er, eins og fyrr sagði, að gera mitt besta að halda bjartsýninni en ekki er andinn í þjóðfélaginu góður.  "Vanhæf ríkisstjórn" farin frá og Aulabandalagið tekið við og virðist ekki vera að taka á þeim raunverulegu málum sem þarf að taka á.  Ég get ekki heldur sagt að ég sé bjartsýn á komandi kosningar og ekki get ég sagt að hjartað taki nein hamingjustökk við að sjá kandidatana sem eru þessa dagana að kynna sig til sögunnar fyrir komandi prófkjör og kosningar.  Og af hverju eru fréttatilkynningar þessara aðilar birtar á fréttasíðum eins og þetta séu fréttir?  Þarf allur landslýður vita að Jón Jónsson á Innra-Klofi sækist eftir sjöunda sæti framsóknarmanna í Borubyggð?  Nei.  Nú er ég farin að gera það sem ég var að kvarta undan í byrjun.  Best að fara og borða pillurnar sínar og gera smá hugleiðslu! 

Hafið það gott!
Þórdís Jákvæða. (a.k.a. Nýja-Þórdís)

föstudagur, maí 12, 2006

Hvernig væri að kíkja....


Bloggið mitt á Mogganum

þriðjudagur, maí 02, 2006

Sögur af landi

Héðan er helst að frétta að til okkar er fluttur Meistari Guðbrandur Erlingur og hefur átt náttstað hérna frá því á föstudag. Hann er einn stærsti köttur sem ég persónulega og prívat hef séð og líkist einna helst smávaxinni gaupu með lítið hjarta. Hann er ósköp góður en er ennþá að venjast okkur og saknar örugglega fyrri eiganda síns. Kisi er ekki mikið fyrir að vera í grennd við Huldu Ólafíu enda er hún óþreytandi að skipta sér af honum þegar þau eru á sömu hæð. Og málbeinið losnar aldeilis á yngri dóttur minni þegar hún kemst í tæri við kisa: "Komdu, komdu, leika, leika. Komdu, sitja, komdu, leika."
Og núna, á meðan ég skrifa þetta sitja heil 7,6 kg. af ketti í kjöltunni á mér, malandi fyrir framan tölvuna. Þetta er í fyrsta sinn sem honum þóknast að sitja hjá mér og ekki hefur hann malað mikið fram að þessu nema bara rétt svona í hómópatískum skömmtum.
Svo leyfði hann sér loksins að sofa huggulega í dag, framkvæmt með því að skríða alveg undir sængina hennar Valgerðar og sofa þar í hlýjunni. Ég hef grun um að hann hafi nefnilega ekki verið að sofa allan þann svefn sem hann gæti hafa sofið af því hann var dálítið hvekktur til að byrja með. Það er náttúrlega ekki allt dottið í dúnalogn með hann en við vonum bara að þetta gangi vel.

Og það hefur verið nóg að gera um helgina. Skruppum í mat á sunnudaginn upp á Víðivelli til að heilsa upp á Borneo farann sem kom heim aðfaranótt sunnudags. Og um kvöldið var skroppið í leikhús til að sjá Fullkomið brúðkaup, frumsýningu hér fyrir sunnan á verki Leikfélags Akureyrar. Það var ágætis skemmtun en fölnaði aðeins í samanburði við Himnaríki eftir Árna Ibsen sem við erum nýbúin að sjá.
1. maí var svo skroppið á Stokkseyri í bíltúr og til að borða humarsúpu
Í Fjöruborðinu. Ég var svo ólánsöm að verða skuggalega illt í maganum um leið og ég borðaði súpuna, eitthvað í henni sem ég hef ekki þolað. Skoðuðum Þorlákshöfn og ég fór út við höfnina að fá mér ferskt loft. Óneitanlega sérstök tilfinning að mæta á stað og velta fyrir sér "Hér er höfnin í Þorlákshöfn! Hvort ætti ég nú að skoða hana eða æla í hana?" En ekkert slíkt gerðist og heimferðin var ekkert viðburðarrík að þessu leyti nema mér var skelfilega illt í maganum og nokkuð óglatt. Þegar heim var komið reddaði Siggi mér lyfjakolum í fljótandi formi (hef átt hylki hingað til) þar sem ég var farin að óttast að þetta væri matareitrun. Ég tók inn eina matskeið af biksvörtu, þykkfljótandi ógeði, það liðu 10 sekúndur og svo var ég komin í kapphlaup við sjálfa mig inn á bað þar sem ég skilaði humarsúpunni og tilheyrandi með miklum þjáningum. Gaman að svona gubbusögum, ekki satt? En, þegar ósköpun voru gengin yfir var mér ekki vitund illt í maganum. Ekkert, og gat borðað það sem mér sýndist (svo lengi sem það var ekki humarsúpa).

Annars eru síðustu fréttir af Huldu þær að í morgun tjáði hún okkur að kisa væri "líka góð og sæt". Ég sé að ég hefði átt að fá kött fyrr því það kjaftar hver tuska á frökeninni þegar kisi er nálægt. Sé hvort ég geti ekki komið upp fleiri myndum af litla tígrisdýrinu sem býr hjá okkur.

fimmtudagur, apríl 20, 2006

Gleðilegt sumar


Sendum sumarkveðjur nær og fjær.

Hafði það af að verða lasin í fyrrakvöld og er ekki orðin alveg góð enn. Heimur þó batnandi fer. Við skreppum á eftir í búðir að versla kvöldmat og sumargjafir handa stúlkunum og að sporta okkur pons um í Smáralindinni.

Að öllum líkindum er meðfylgjandi kisa að flytja til okkar, innikisa sem er að missa heimili sitt og hefði að öðrum kosti flutt "í sveitina til góðs bónda", með öðrum orðum, svæfð. Ég er þó ekki alls kostar viss um málið, þá kannski helst hvernig honum gengur að aðlagast okkur og nýju heimili þar sem hann er orðinn tveggja ára.
Við sjáum hvað setur.

mánudagur, apríl 17, 2006

Fögur fyrirheit

Ótrúlegt en satt þá hefur lítið gengið að koma öllu súkkulaði fjölskyldunnar rétta leið. Við ætlum að gera úrslitatilraun í kvöld, síðasta páskakvöldið.

En eftir frábæra páskahelgi, dýrindispáskamáltíð í Njarðvík (takk fyrir mig) og brauð, paté, ost og rauðvín í gær að hætti Jesú, þá er kominn tími til að snyrta aðeins til í lífi sínu.

Ég er nefnilega búin að ákveða með þó nokkrum fyrirvara að taka upp ögn hollara líferni og skrifa það hér með svo það séu fjöldamörg vitni að heitstrengingunum.
Frá og með morgundeginum er ekkert gotterí á dagskrá nema við hátíðleg tækifæri.
Sama með áfengi, bara svona eins og Ólí Grís, í hófi og afar sjaldan.
Svo er meiningin að vera duglegri að hreyfa sig og ég treysti á það að Valgerður taki mig í Boot Camp og kenni mér allar killer frjálsíþróttaæfingarnar sínar.

Markmiðið með þessu er þríþætt:

Augljóslega að koma kroppnum í betra form og þar með að hafa jákvæð áhrif á blóðþrýsting, blóðsykur og allt þetta sem telst til frístundasjúkdóma móðurfjölskyldunnar.

Sjá hvort þetta hafi ekki jákvæð áhrif á hormónajafnvægið sem alltaf er verið að slást við.

Og síðast en ekki síst, hjálpa til við að halda geðheilsunni góðri.

En markmiðið er ekki að vera eins og lærisveinn hjá skrítna fólkinu á Skjá Einum eða að vera eins og frelsaður alki. Heldur bara að laga svolítið til hér og svolítið til þar og athuga hvort það gerir ekki gagn.

En fyrst þarf ég að sjálfsögðu að redda þessu súkkulaði og restinni af rauðvíninu mínu. Hahaha!!!

sunnudagur, apríl 16, 2006

Fyrir Páska.

Höfum átt allnáðuga daga hingað til og jú, það hefur gengið eftir að slaka örlítíð á.

Við höfum náð að horfa á eitthvað af vanræktu videomyndunum, höfum spilað Scrabble og Backgammon og elduðum svo þennan dýrindis lax í gær.
Fyrir þá sem ætla að nota uppskriftina: Þetta er fullmikið af hrísgrjónum fyrir meðalfjölskyldu og þó átum við eins og svín, svona eins og standardinn er hjá familíunni. Mæli með því að skammturinn sé tekinn niður í 2 dl. af hrísgrjónum.

Siggi fór að vinna í dag og við kerlingarnar dormuðum í sólinni (inni) og lukum tiltekt hér heima.
Ágætis dagur en hápunkturinn var að skreppa í Smáralind til að gera lokainnkaup á páskaeggjum og bæta við áfengi svo gömlu hjónin geti verið símjúk í fríinu.
Það var þó ekki hápunkturinn, heldur að rannsaka þá fjöld af skrítnum og skemmtilegum Íslendingum sem skríða úr fylgsnum sínum þegar innkaupaþorstinn er orðinn of megn. Þvílíkt og annað eins af merkilega útlítandi og misþenkjandi einstaklingum! You had to be there! Krumpukerlingar i Ríkinu hvað!

Svo höfum við verið líka að dunda okkur við að horfa á Jeeves og Wooster þættina í hjáverkum og lukum einmitt kvöldinu núna með einum og hálfum slíkum. Sérdeilis hollt fyrir heilsuna og ótrúlega gaman að horfa á allan Art Deco stílinn í verki.

Ég hef því miður ekkert meira uppbyggilegt að segja (hafi þetta verið uppbyggilegt á annað borð) og óska ykkur þess vegna gleðilegra páska og góðrar meltingar yfir páskahátíðina.
Vona líka að þið hafið það gott með sjálfum ykkur og fólkinu ykkar!
Pásk, pásk!

fimmtudagur, apríl 13, 2006

Páskafrí

Langþráð páskafrí loksins komið.
Skírdagur fer reyndar, eins og oftast, í tiltektir og snurfus en þegar við erum búin að svoleiðis poti er páskaskrautinu skellt upp og dáðst að herlegheitunum.
Við erum með djöfuldóm af óséðum DVD myndum sem við eigum eftir að horfa á og það verður verkefni páskafrísins með meiru.
Svo dreymir mig um að finna kassann sem er með Backgammon spilinu mínu og Skraflinu okkar.
Það er ekki búið að kaupa páskaegg fjölskyldunnar að undanskildu Púkaegginu hennar Huldu sem var keypt í gær. Það gekk náttúrlega ekki annað en að aðalpúkinn í bænum fengi Púkaegg.

Maturinn er einfaldur í kvöld, pasta með hvítlauk, olíu og túnfiski en á morgun er verulega góður matur á dagskrá.
Þetta er lax sem hún Lóa tengdamamma mín hefur eldað nokkrum sinnum og er upp úr bók sem hún á. Man því miður ekki hvað bókin heitir svo ég ætla að fara að dæmi Auðar systur og setja uppskriftina hér fram.
Við völdum þennan rétt meðal annars til að prófa saffranið fína sem hún Auður kom með handa okkur frá Spáni.
En hér kemur Föstudags-Langa fiskurinn:

Sælkeralax


500 gr. laxaflök
2 1/2 dl. hrísgrjón
5 dl. vatn
1 saffranþráður
2 grænmetisteningar
2 laukar
1 rauð paprika
1 græn paprika
200 gr. sveppir
smjör og matarolía til steikingar
1 dós niðursoðnir tómatar (400 gr.)
salt og pipar
12 svartar eða grænar ólífur

1. Setjið hrísgrjón, vatn, saffran og grænmetisteninga í pott, hleypið upp suðu og sjóðið í 15-20 mínútur.

2. Skerið lauk og paprikur í strimla, skerið sveppi í sneiðar. Léttsteikið grænmetið í smjöri. Hellið tómötunum og vökvanum út í og látið krauma í nokkrar mínútur. Hrærið saman við soðin hrísgrjón og kryddið með salti og pipar. Setjið í stórt fat.

3. Roðflettið laxaflökin og skerið í sneiðar. Steikið í olíu og smjöri í 3-4 mínútur á hvorri hlið og raðið ofan á grjónin ásamt ólífum.

Borið fram með brauði og er handa fjórum.

Svo athugasemdir fjölskyldunnar: Okkur finnst laxinn naumt skammtaður (120 gr. á mann) því hann er svakalega góður og við ætlum t.d. 7-800 gr. handa okkur fjórum.

Lóa segir að saffranið sé líka naumt skammtað en hugsanlega fer það eftir gæðum vörunnar því það er ekki heldur gott að hafa of mikið af því.
Svo náttúrlega þetta klassíska, ef ekki er til saffran má nota turmerik.

Ég persónulega og prívat vil líka hafa salat með þessu en ég er reyndar farin að hafa salat með flestu sem ég elda fyrir utan pylsur og pizzu!

Og ég ætla að hafa suður afrískt hvítvín með má morgun (Drostdy-Hof Chardonnay) því mér finnst suður afrísk vín ansi góð þessa dagana.

Ég vona að þið hafið það náðugt ljúft og hátíðlegt og tékka mig nú örugglega inn fyrir páska.