fimmtudagur, janúar 06, 2005

Ruslalúgan mín

Nú streyma inn auglýsingar og ruslpóstur um póstlúguna mína. Í dag var mér boðið að kaupa meðal annars: 90 cm. rúm án fóta, náttföt, gluggatjöld, þvottavélar, útvörp, rakvélar, prentarapappír, lítilsháttar útlitsgallað borðstofuborð, tölvuleiki, ísskápa, tuskudýr, áherslupenna og fleira.
Það er reyndar merkilegt hvað á að versla mikið af ritföngum og skrifstofuvörum um áramótin. Suma hluti þarf reyndar að versla í kringum áramót, dagatöl, möppur og þess háttar. En tæpast úreltust prentarar og faxvélar svona herfilega á tveimur vikum? Urðu allir pennar og blýantar að dufti þegar klukkan sló tólf á nýársnótt?
Tækið sem virkilega vantar og ég sé ekki í þessum bleðlum er pappírstætari. Augljóst væri að nota hann á umræddan ruslpóst en hér erum við umhverfisvæn og endurvinnum. Þó að það væri óneitanlega freistandi að skrúfa einn svoleiðis fastan við bréfalúguna.
En allt hitt pappírsruslið! Allt reikningaflóðið sem er fyrnt og maður þarf að farga. Allra handa bréf sem þarf ekki að geyma en maður helst vill ekki að óviðkomandi lesi. Mér finnst að Rúmfatalagerinn og Elko eigi að bjóða upp á svona á ca. 2.399,- Þá myndi ég gjarnan fara og versla.


0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home