mánudagur, janúar 31, 2005

Pestir og þorramatur.

Vikan hér hefur verið undirlögð af pestum og tilheyrandi leiðindum.
Hulda Ólafía vaknaði á mánudagsmorgun með hita og hljómaði eins og hrafnsungi. Hún var geymd heima þann daginn og næstu tvo daga á eftir. Á miðvikudaginn var ég orðin lasin líka og var heima þann daginn. Mætti svo í vinnuna næstu tvo daga bara til þess eins að liggja svo skjálfandi undir sæng á föstudagskvöldið. Ég var búin að missa bæði bragð og lyktarskyn það kvöldið og hugsaði mér nú aldeilis gott til glóðarinnar þegar laugardagskvöldið rynni upp og við færum í þorraveislu á Víðivöllum. Sá það fyrir mér að ég gæti nú aldeilis borðað allt dótið með velbehag og skolað því niður með brennivíni.
En svo þegar stundin rann upp, við sest í stellingarnar við matborðið með pappahjálmana á hausnum, brennivínsstaupin í sveittum lúkunum og með Þursaflokkinn á fóninum, þá var þetta allt komið tilbaka. Og ég borðaði hóflega af hangikjötinu, örlítið af sviðasultunni og lifrarpylsunni, laufabrauð, kartöflur og rófustöppu.
En ég GAT drukkið hálfa staupið af brennivíni sem mér var úthlutað. Þannig að ég er engin sérstök þorrahetja, því miður. Og ég verð að viðurkenna að mér verður oftast illt í maganum af þessum æfingum og það vantaði heldur ekki núna.
En það er nú samt gaman að upplifa þetta einu sinni á ári og já, þetta er tóm lygi með pappahjálmana.
Þeir eru alvöru. . .

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home