sunnudagur, nóvember 20, 2005

Fjölmiðlaflækjur

Ég er dálítið gáttuð á fjölmiðlastússinu hjá 365 miðlum og prentmiðlum eins og þeir heita.
Þeir halda úti nokkrum allvonlausum blöðum sem eru DV, Sirkus, Hér og Nú og svo blaðinu hennar Völu Matt sem heitir Veggfóður.
Greinilega eru Hér og Nú og Sirkus ekki alls kostar að skila sínu því nú er farið að dreifa þeim til áskrifenda DV án endurgjalds.
Ég ætla ekki að tjá mig sérstaklega um efnistök þessara blaða, ég held að flestir viti hvað er í gangi þarna en ég gluggaði í Hér og Nú um daginn (Valgerður fékk það gefins í Smáralind) og sá að slúðurblað er greinilega ekki það sama og slúðurblað. Ótrúlegt en satt þá er Séð og Heyrt nokkuð vandað slúðurblað við hliðina á hinu dótinu.
Fréttablaðið er svo líklega mest lesið af þessum blöðum enda borið heim til fólks án endurgjalds. Það kemur hingað reglulega yfir vikuna en útburðurinn er gloppóttur eða alls enginn um helgar. Oftast kemur blaðið alls ekki um helgar. Á laugardaginn fyrir viku síðan draugaðist þó Fréttablaðið inn um lúguna um hádegið, haugblautt og ónýtt. Segir sig sjálft að það var ekki lesið í því ástandi og fékk í staðinn fría ferð í endurvinnslugáminn ásamt restinni af haugnum. Svo bar það til í gær, laugardag, að Fréttablaðið var barasta komið um tíuleytið. Og til að heiðra komu þess þá fékk það að fara upp með hinum blöðunum. Svo sest ég niður eftir matinn og ætla að fara á smá blaðasukk með Mogganum, Blaðinu og Fréttablaðinu. Það gekk ágætlega með fyrstu tvö blöðin en svo þegar ég kíkti í Fréttablaðið voru hlutirnir eitthvað einkennilegir. Fréttirnar voru svo svakalega gamlar. Og ég var búin að sjá auglýsinguna aftan á blaðinu fyrir þó nokkru síðan. Þá kíkti ég á dagsetninguna og viti menn! Þeir höfðu borið út til mín vikugamalt blað! Geri aðrir betur.
Svo eru ljósvakamiðlarnir sem einungis sumir sjá svolítið að missa marks finnst mér. Stofna nýja fréttastöð sem einungis er dreift með hinu meingallaða Digital Ísland. Sömuleiðis Sirkus stöðin. Ég hélt að hugmyndin væri að ná til fólksins og sannfæra það um að The Evil Empire væri í raun gott og frábært og alveg óhætt að fara að versla hjá þeim aftur? En kannski skiptir ekki máli þótt stöðvarnar sjáist ekki hjá þorra þjóðarinnar og megnið af blaðaútgáfunni sé rekið með tapi.
Þetta er eins og að blikka einhvern í myrkri, frekar tilgangslítið.

2 Comments:

At 7:28 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Já ég hélt bara að það væri bara á brekkunni hér á Akureyri þar sem blaðberar Fréttablaðsins komi með höppum og glöppum. Það hríslast um mig sú tilfinning að stundum væri blöðunum bara hent í blaðagáminn í stað þess að bera þau út. Annars virðist sama gilda um DV. Ég fékk bréf í lok okt um að nú fengi ég DV ókeypis borið til mín í HEILAN mánuð og að þeim tíma loknum yrði ég að segja til um hvort ég vildi blaðið áfram eða ekki. Til að gera langa sögu stutta, þá hafa borist 8 - 10 blöð þar af 3 helgarblöð á þessum fjórum vikum. Hagkaup og aðrir markaðir eru alltaf með nýtt DV á hverjum degi nema sunnudögum. Og nú seinast fékk ég ekki Moggann í gær. Ég bara botna ekkert í þessu lengur. Ætli sem sami blaðberinn í Kópavogi og á Akureyri??

 
At 10:14 f.h., Blogger Þórdís Huldu og Guðmundar said...

Hefur í það minnsta farið á sama blaðberanámskeiðið!
Maður sér iðulega heilu blaðabunkunum af Fréttablaðinu hent hér við blaðagáminn í Nóatúninu. Eru það upplagstölurnar sem menn eru að sækjast eftir og er þeim alveg sama hvort einhver les blessaða sneplana?

 

Skrifa ummæli

<< Home