laugardagur, nóvember 12, 2005

Líkamlegt samband í norðurbænum.

Það er móðins að birta lista um sig og sína hér á netinu svo ég ætla ekki að vera eftirbátur annarra. En þetta verður minn prívatlisti. Fyrir þá sem vita ekki hvað titillinn á pistlinum þýðir, þá var þetta nafn á sjónvarpsleikriti sem sýnt var fyrir allmörgum árum. Það fjallaði um húsmóður sem þurfti alltaf að eiga allar nýjustu og flottustu græjurnar og óskaði meðal annars eftir því að vera jörðuð í bílnum sínum.
Þetta verður ekki svo öfgakennt hérna en ég ætla að bæta við gagnslausan fróðleik um mig og telja upp uppáhaldstækin mín og af hverju þau skipa þennan sess.
Einhverfa hvað!

1. Þvottavélin mín. Hún er vél með sögu og kom ekki til mín alveg ný. Þannig var mál með vexti að kona nokkur út í bæ hafði keypt hana og brúkað en einn góðan veðurdag villtist tíkall í vélina. Tíkallinn háskalegi festist á milli tromlunnar og belgsins og reif gat á belginn þegar vélin var að vinda. Það var gert við vélina í ábyrgð (þótt ábyrgð sé umdeilanleg í þessu tilfelli) og hún var svo gott sem ný. En frúin vildi helst ekki fá hana aftur og af mikilli þjónustulipurð fyrirtækisins sem ég vinn hjá, fékk hún nýja vél. Viðgerða vélin var þá í svona sölulimbói, ekki hægt að selja hana en ekkert að henni. Til sögunnar kem þá ég, nýbúin að eignast lítið barn og þriggja kílóa þvottavélin ekki að gera sig fyrir stórfjölskylduna. Ég fékk maskínuna á góðu verði og hún hefur aðstoðað oss við heimilishaldið í tvö og hálft ár. Hún tekur 6 kíló af þvotti, vindur á 1400 snúninga hraða, þvær framúrskarandi vel og talar sænsku. Þannig að ef maður þarf að þvo ALLAN þvottinn sinn þá er þetta græjan. Svo er hún með snilldarstillingu sem nefnist Handþvottur. Hún getur þvegið allt, ég meina það.

2. Geislaspilarinn í eldhúsinu. Ástæðan fyrir því að ég fór að hlusta á tónlist aftur. Hafði mikið fyrir því að finna tæki sem passaði í gluggakistuna og væri ekki með kassettutæki. Fann fyrirtaks Sony græju sem er með DÚNDUR hljóði, svaka bassa og góðu útvarpi. Er farin að fiska fram geisladiskana mína og hlusta aftur á þá, því að í eldhúsinu er í raun besta næðið fyrir það. Í stofunni er nefnilega oft í gangi MTV, Johnny Depp og/eða Andrés Önd. Kannski ekki mikill munur þar á?
Svo er það kósí og huggulegt að sitja þarna á laugardags og sunnudagsmorgnum, drekka kaffi, gera krossgátuna í blaðinu og hlusta á eitthvað næs. Eða að setjast niður með kallinum að kveldi til og fá sér tebolla, glas af rauðvíni eða hálfan bjór. Og aftur, hlusta á eitthvað gott. Verst er þó að ég er farin að plægja í gegnum krossgátuna í Lesbókinni á 10-15 mínútum og þarf kannski að fara að skoða manndrápskrossgátuna í sunnudagstímariti Moggans. Eða færa mig yfir í Su Doku?

3. Myndavélin mín. Hún þykir kannski ekki merkileg á tæknilegum skala en tekur prýðilegar myndir, ferðast vel og nokkuð lipur í notkun. Nágrannarnir á móti halda örugglega að ég sé að taka myndir af þeim út um gluggann og af svölunum af tómum perraskap, en mér finnst gaman að taka myndir af litbrigðunum á himninum, Rjúpnahæðinni og umhverfinu almennt. Ég klikka því miður gjarnan á því að taka vélina með mér þegar ég fer út að ganga og sé yfirleitt alltaf eftir því. Maður þarf að fá sér einhverja góða tösku sem er auðvelt að ganga með og sem getur innihaldið téða myndavél svo hægt sé að grípa til hennar ef hugurinn girnist. Ég virkilega þarf þó að eiga aukabatterí svo hún geti verið eins og skátarnir, ávallt reiðubúin.

4. Gemsinn minn. Eignaðist nýjan gemsa áður en ég fór til Tékklands í vor og er alltaf að finna fleiri og fleiri not fyrir hann. Komin með dagbókina/skipuleggjarann í fulla notkun og það er mikið sagt fyrir mig af því ég hef aldrei getað vanið mig á að ganga með minnisbækur. Frábær skráning á tengiliðum, myndavél (sem ég er alltaf með) og útvarp. Það er hin ástæðan fyrir því að ég er farin að hlusta meira á tónlist aftur. Nota strætóferðirnar í og úr vinnunni og get hlustað í 2 x 20 mínútur á Xið(NB 91.9 - ekki hitt ruslið) á hverjum degi. Símann minn vantar þó einn hlut og það er gagnakapall sem kostar morð fjár hér á landi en skítti í útlöndum. Þannig að ef einhver vill aðstoða mig við að flytja inn gagnakapal þá má sá hinn sami hafa samband.

5. Síðast en ekki síst þá er það saumavélin. Mig hafði langað í saumavél frá því ég var unglingur en eignaðist þó ekki svoleiðis fyrr en ég varð þrjátíu og fimm ára. Ég hef í gegnum tíðina fengið lánað gömlu Elna vélina sem mamma átti og Helga er með núna en ég og vélin höfum aldrei lært almennilega á hvor aðra. Alltaf tókst mér að klúðra einhverju, vesen með að flækja og þræða, þurfti að ýta við henni svo hún færi af stað og svo framvegis. Ég var reyndar farin að kunna bærilega á hana en það verður að taka tillit til þess að hún er að halla í fimmtugt (margir mannsaldrar fyrir tæki, ekki síst nútímatæki) og kannski eitthvað farin að þreytast.
En einmitt vegna þess hvað sú vél hefur enst vel þá er nýja vélin mín líka frá Elna og ég og hún erum bestu mátar. Hún kann að gera fullt af hlutum sem ég kann ekki svo sem eins og að sauma overlock og hnappagöt, og ég er ekki í neinum vandræðum með að þræða hana. Hún faldar gallabuxur án þess að kveinka sér og saumar fíngerðustu efni án þess að skemma þau. Eiginlega er hún svo fín að ég er hálffeimin við að nota hana og er því sennilega ekki nýta hana til fullnustu. Til dæmis á ég enn eftir að sauma faldana endanlega á gluggatjöldunum í svefnherberginu og ég á enn eftir að sauma einhverjar tuskur fyrir gluggana í þvottahúsinu og geymslunni.
Saumavélina vantar engar græjur nema bara eina skrítna kvensu til að stýra henni.
Ég get bætt úr því vandamáli.

3 Comments:

At 8:06 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Þú ert greinilega tækjaóður fjandi eins og margir í fjölskyldunni:)Ef það er eitthvað tæki sem ég alveg elska út af lífinu það er i-podinn minn. Hann er hrein snilld. Verst er að lögin inni á honum eru langt komin inn á 4ja þúsundið og það getur verið stundum erfitt að finna lagið sem manni langar svo hrikalega mikið að hlusta á:)

 
At 12:32 f.h., Anonymous Nafnlaus said...

Ég er alveg sammála með saumavélina hennar ömmu. Ég hef aldrei lært almennilega á hana og er jafnframt hálfhrædd við hana :)

 
At 2:09 f.h., Blogger Þórdís Huldu og Guðmundar said...

Ég held hún lifi sjálfstæðu lífi, svei mér þá!
Annars er nýtt tæki sem ég þarf að bæta á listann fljótlega og það er uppþvottavél sem annar stórfjölskyldunni. Sú sem er núna er alltaf með restar á eldhúsborðinu og þar af leiðandi er blessað eldhúsið ALDREI í góðu lagi.
En ég hef ekki enn komist í Ipod ástandið. Sjáum hvað setur...

 

Skrifa ummæli

<< Home