Um "fegurð"
Nivea menn eru ekki af baki dottnir. Fyrr í sumar skrifaði ég um kremið með hrukkustöðvunarkerfinu og núna eru nýjar og allmerkilegar auglýsingar að koma frá þeim.Þær byrja svona: "Ekki örvænta þó þú sért orðin þrítug!" Hver var að örvænta?
Og eins og Siggi benti á, þá myndi þetta þýða um 50 ár af örvæntingu, að því gefnu að örvæntarinn nái 80 ára aldri. 70 ár ef viðkomandi verður 100 ára!
Mér þykir það ógurlega leitt að Nivea skuli taka þennan pól í hæðina, þeir búa almennt til ágætar vörur og ég nota talsvert af þeim en ég er ekki sátt við hvernig þeir kynna sig og sitt.
Svo eru aðrar auglýsingar sem ég er að sjá núna í blöðunum um collagen til inntöku. Síðustu fréttir sem ég hafði af collageni voru til dæmis þær að Kínverjar vinna það úr húðinni á líflátnum föngum og selja svo til snyrtivöruframleiðslu. Annars er það víst oftast unnið úr svínshúðum. Ég hef svo miklar efasemdir um að dótið virki eitthvað frekar ef það er borðað, það náttúrlega gerir aðra hluti þegar því er sprautað beint í hrukkurnar og varirnar. Nær að fá sér bara svínasteik með pöru. Örugglega ódýrara og betra að borða.
Hvað erum við konur miklir sökkerar(trúgjörn flón á íslensku)?
Á Viktoríutímanum var móðins að hafa hvíta húð. Eina fólkið sem var brúnt voru verkamenn, fátæklingar og vændiskonur. Konur tóku þá inn arsenik í smáskömmtum því það ýtti svo skemmtilega undir fölva og fagurt útlit. Að sjálfsögðu kom það fyrir að hin fögru fljóð gáfu upp öndina, svona þegar rottueitrið var farið að safnast saman í líkamanum. Okkur finnst þetta fáránlegt en nú á dögum tíðkast að sprauta kerlingar með bótox, taugalömunareitri sem er unnið úr bótulinus sem þykir almennt ekki gott að hafa innbyrðis því það er til að mynda bráðdrepandi ef það nær að grassera í góðum mat. Allt fyrir fegurðina. En það skal þó bent á að bótox hefur gagnast sumum mígrenisjúklingum ef það er notað á ákveðinn hátt.
Við látum telja okkur trú um og æsum hverja aðra upp í að það sé kúl að láta sjúga fituvef úr líkamanum, troða plastpokum með gumsi í brjóstin, reyta obbann af líkamshárunum af og helst að hafa vöxt á við 13 ára smástrák (og jafnmikið af líkamshárum og níu ára stúlka).
Var það ekki í Svíþjóð í fyrra eða hitteðfyrra sem sænsk kona fékk brátt andlát úti á götu eftir að hafa farið í fitusog?
Svo var kvensjúkdómalæknir hér á landi að tjá sig um auknar sýkingar í kjölfar óhóflegrar háreyðingar og raksturs á kynfærum kvenna.
Megnið af konum mun aldrei líta út eins og gyðjurnar í auglýsingunum. Hreinlega bara útilokað af því að það eru frekar einsleitar líkamsgerðir og eiginleikar sem eru sýndir þar og ekkert sýnt af fólki sem er öðruvísi í laginu eða með öðruvísi andlit. Samt eru þetta fyrirmyndirnar sem kvenþjóðin miðar sig við og fer svo á bömmer af því þær eiga ekki séns í að líta út eins og ofurmódelin.
Það er til að mynda dagljóst að ég mun aldrei líta út eins og Naomi Campbell!
Þetta er tímasóun, orkusóun og sóun á góðum konum að láta imbana í fegurðarbransanum fara svona með sig. Við eigum að vita betur!
3 Comments:
Jamm,,ef þú ert ekki með hausinn á milli fótana á þér annan hvern dag að snyrta,,til þess að vera ungleg að neðan,,þá ert þú eitthvað abbó! So what,,,þú getur ekki pissað vegna sviða vegna blöðrubólgu,,og þarft að fá sýklalyf annan hvern mánuð út af sveppasýkingu,,just small price to pay for beauty! heheh !! Sá í líffræðibók um árið að botox var notað líka í einhverjar sprengjur!! gaman gaman!
Miðað við þetta þá þarf ég að hafa heilmiklar áhyggjur af því að þrítugsafmælið mitt nálgast óðum!!!!!
Var ekki í fréttum held ég í sumar að á íslandi er eytt um 3 milljörðum króna í snyrtivörur. Þá var ekki verið að tala um sjampó og þess háttar. Þetta var sama upphæð og á að kosta að byggja hátæknisjúkrahús!!!
Hafið ekki áhyggjur stúlkur í okkar fjölskyldu eldumst seint. Ég lenti í rifrildi í hveragerði við konu, sem taldi mig alltof unga til þess að vera þarna. Ég maldaði í móinn og sagðist komin á sextugsaldur. Þá hnussaði frúin og sagði það sér það hver kjaftur að þú ert varla mikið eldri en fertug! Allt vatni, réttu mataræði og Elizabet Arden að þakka. (Og hæfilegri óreglu í mat og drykk)
Skrifa ummæli
<< Home