föstudagur, september 30, 2005

Um skipulag og fleira

Annað slagið les maður í blöðunum um skoðanir fólks sem mærir miðbæinn.
Miðbærinn er vissulega ágætur og ég hef eytt drjúgum hluta af ævi minni þarna í skóla og vinnu og almennt bæjarráp og einu sinni búið þarna um nokkurra mánaða skeið. En nú er þetta orðið liggur við eins og trúarbrögð sem fara fram á kostnað annarra hverfa höfuðborgarsvæðisins. Eða 101 fasismi.
Um daginn var til dæmis Hallgrímur Helgason að tala um hvað það væri frábært að labba Laugaveginn og sjá alltaf eitthvað nýtt og hvað það væri frábært að búa í miðbænum en jafnframt ömurlegt að búa til dæmis í Fossvoginum eða öðrum úthverfum. Þá geri ég ráð fyrir að önnur hverfi en 101 falli undir skilgreininguna "úthverfi".
Fossvogurinn og hverfi byggð á svipuðu tímabili eru reyndar ekki mikið fyrir augað en þegar þau voru í byggingu var eftirspurn eftir húsnæði gríðarleg og kannski hálfleiðinleg stefna í arkitektúr og skipulagi ríkjandi.

Guðmundur Andri Thorsson skrifaði svo einhvern tímann í vetur að það væri vita vonlaust að fara eitthvað út að ganga í Kópavogi, hvað þá að finna kaffihús sem hægt væri að fara á. Mér er spurn hvort hann hafi einhvern tímann prófað annan hvorn hlutinn, því bæði er hægt að ganga í Kópavogi og hafa gaman af og líka er hægt að finna mörg ágætis kaffihús, þó án miðbæjarrónanna.

Ég skil ekki tilganginn með þessu bulli. Ef 130.000 manns tækju mark á þeim félögum og hrúguðust í 101 yrði ástandið frekar andstyggilegt. En kannski er það bara gáfaða og fína fólkið sem er þess verðugt að búa í 101. Hinir bjánarnir geta verði í "Úthverfunum" frá 103 og uppúr. En það þýðir þá að eini tilgangurinn með svona skrifum er að níða niður náungann og heimili hans.

Skipulagsfræðingar keppast svo hver við annan að dásama þéttingu byggðar og tala um hvað höfuðborgarsvæðið sé púkó og dreift, svona sé það ekki í höfuðborgum erlendis og svona ætti það ekki að vera hér.
Það er góðra gjalda vert að þétta byggð og þarft verk til að viðhalda og endurnýja borgina. En af hverju skammast menn sín svona ógurlega fyrir að borgin skuli ekki vera alveg eins og borgirnar á meginlandi Evrópu, þar sem þeim finnst svo huggulegt að droppa inn á kaffihús og fá sér kaffi.
Þegar menn eru að ferðast um í slíkum borgum, fara þeir þá einhvern tímann út í úthverfin? Vita þeir yfirhöfuð hvernig þau líta út og hvað fer fram þar?

Kannski er það bara séreinkenni á Reykjavík og nágrannasveitarfélögunum hvað byggðin er dreifð. Kannski er það hinn sértæki sjarmi borgarinnar. Kannski viljum við bara hafa það svona og líkar það jafnvel mjög vel.

Menn nefna sig gjarnan Miðbæjarrottur og með nokkru stolti. Hvað er ég þá? Borin og barnfædd úthverfamús? Úthverfatófa, miðað við hvað mikið er af rebbum í kringum hverfið mitt?
Fjandinn fjarri mér að ég fari að líkja mér við nagdýr sem ber smitsjúkdóma.

En ég veit að ég vil ekki ala mín börn upp í miðbænum. Ég man þegar maður var að þvælast í bænum með Valgerði sem smákrakka. Ég man eftir ágætri konu sem fannst það viðeigandi að toga í tíkarspenana á barninu og tauta "Sæt stelpa." Og ég man eftir rónanum sem tjáði smábarninu að jólin og allt þeim meðfylgjandi væri "Djöfuls hjóm!" einhverju sinni þegar við mæðgurnar vorum á spásseritúr að skoða jólaljósin og skrautið í búðargluggunum. Og með fullri virðingu fyrir pólitískri rétthugsun og rétti fólks til að hrynja í það þá langar mig ekkert sérstaklega til að börnin mín séu vitni að slíku óumbeðið. Það er miðbæjarrómantík sem ég skil ekki.

En núna, eftir að miðbærinn hefur fengið að grotna niður í mörg ár þá er stefnan sú að rífa bara annan hvern hjall og byggja hallir, svona til að reyna að snúa eyðileggingunni við.
Stórhuga hugmyndir sem koma reglulega og fjalla um það að fjarlægja eignir annars fólks og byggja bara nýtt. Minnir mig á liðið í Innlit/Útlit sem rífur allt út úr íbúðum og fyllir þær af nýju dóti. Þetta er núna í gangi niðri í bæ og svo eru svona hugmyndir líka í gangi í Garðabæ þar sem menn vilja fjarlægja 2ja milljarða hús til að rýma fyrir nýjum miðbæ. Fantasíur arkitekta. Skítt með það að eigendur hússins séu að nota það og vilji ekki endilega færa sig. Á Garðabær tvo milljarða og meira til að bæta þeim tjónið og kosta nýtt hús og flutninga? Er einhver trygging fyrir því að umrætt fyrirtæki myndi vilja vera áfram í bænum ef það á von á að vera úthýst hvenær sem er ef skipulag breytist.

Það er eins og menn séu komnir svo rækilega fram úr sjálfum sér í þessum pælingum að þeir eru farnir að koma aftan að sér þegar upp er staðið.
En kannski er það stuð að taka sjálfan sig í kakóið.

2 Comments:

At 1:01 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Ég er sammála um rónana og ribbaldana. Eftir að Keisarinn lokaði þá er þeim búið að fjölga ansi mikið á Lækjartorgi og þar um kring, akkúrat þar sem flóran er af kaffihúsum og veitingastöðum.
gbs

 
At 5:31 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Alltaf gaman að taka strætó í miðbæ RVK í gamla daga í skólan,,þá sá maður rónanna vakna og byrja daginn með sótthreinsandi eða Kardimódropum! Þótt mér finnst voða gaman að kíkja í miðbæ RVK af og til þá langar mér ekki að búa þarna,,alveg sammála að þetta er sko ekki staður til þess að ala börn í,,þá verða þau bara eins og Björk Guðmunds í gamla daga í furðufötum í strætó..smá djók!

 

Skrifa ummæli

<< Home