Búksorgir
Til mótvægis við þjóðmálaumræðuna í síðasta pistli þá verður þessi pistill nokkuð persónulegri.Um leið og hitinn fer niður fyrir 10 gráður á Celsius þá fæ ég þurra húð og byrjar að klæja. Reyndar tek ég eftir því að það gerist yfirleitt á sama tíma og exemið hennar Huldu Ólafíu lætur á sér kræla aftur. Þannig að obbinn af vetrinum fer í að smyrja mig og hana með ýmsum kremum og smyrslum til að halda kláðanum í skefjum. Það virðist ekki alveg hlaupið að því að fá góð krem til þessara nota. Ótrúlega mikið er framleitt af þunnu glundri með lykt sem gengur undir nafniu 'body lotion' og gerir ekki neitt af viti. Ekki rass í bala, svo notað sé orðalag er hæfir viðfangsefninu. Svo er líka til glundur án lyktar sem er jafngagnslaust en kannski minna ertandi, því til að bæta gráu ofan á svart geta mixtúrurnar með huggulegu lyktinni valdið meiri pirringi en hinar. Svo eru til í apótekinu karbamíð krem sem virka jú, en ef maður er með mjög þurra húð þá svíður þetta eins og hráki andskotans. Á Huldu virkar stundum ProDerm exemfroða en hún gerir ekki squat fyrir mig.
Við höfum líka notað hydrófíl en maður verður þá að vera lukkulegur með að svína út fötin sín og rúmfötin þar sem þetta getur verið í klístraðri kantinum.
Engin einföld lausn á þessu en ef þið vitið um eitthvað brilliant þá endilega deilið þeim upplýsingum.
Mér reyndar tókst að gera illt verra með því að fá mér nýja peysu í Zöru um helgina. Hún er 30% ull og mig er búið að klæja brjálæðislega undan henni í dag.
Valgerður kom með það húsráð að frysta peysuna og það dugði eitthvað en bara ekki nóg.
Svo var vinnufélagi minn að fræða mig um hvernig þræðirnir á ull litu út í smásjá og það eru víst einhverjir litlir angar og krækjur á ullinni sem eru sökudólgarnir.
Þannig að ég fór út í búð og keypti svona dúndur mýkingarefni (sem er örugglega efni í nýjan kláða!) og þvoði drusluna í þeirr von að hún skánaði eitthvað. Vonandi, því þetta er fín peysa. Svo keypti ég nefnilega líka frænku hennar í öðrum lit og öðru sniði, en úr sama #$&%# efninu.
Annars verð ég bara að fara með þær á eitthvað nærtækt trampólín og semja við börnin í hverfinu um að hoppa á druslunum þar til þær hlýða.
Svo er ég líklega ekkert sérlega gott efni í drykkjumann, hef bara ekki heilsuna í það. Búin að standa í svona bjór og léttvínssulli um helgina: Klanið í heimsókn á laugardaginn með mexíkönskum mat og bjór, smá vínsull með sunnudagsmatnum og rauðvín með nautakjötinu í gærkvöldi af því eiginmaðurinn átti afmæli.
Ekkert af þessu sem veldur beinni vanheilsu daginn eftir, mér tókst ekki að ná mér í þynnku, en ég verð afskaplega þreytt og lúin á þessum bisness og langar bara að sofa. Finn að ég er ekki upp á mitt besta.
Kannski er hófdrykkja best í hófi?
5 Comments:
Mamma var nú dálítð skæð að troða alltaf Locabase á alla þurra bletti,,svo komst hún af því að þetta krem er krabbmeinsvaldandi,,en hvaða efni er það ekki nú á dögum! Ég læt nú bara apótekararakakrem á allan kroppinn,,ef það á að vera mjög góð lykt af mér þá læt ég krem frá L´Occtaine!
Ertu að meina Hydrofil?
L'Occitane eru dýrðlegar vörur, en bara dálítið dýrar.
En ég er alveg til í að hafa skothelda afsökun til að fara þarna og kaupa frábært krem!
Reyndar er ekki rosalega dýrt þarna,,ég komst á bragðið á einu sítrónukrem sem þú gafst mömmu einu sini jólagjöf,,keypti mér einn slíkan brúsa á 1500 krónur! Þetta er nú engin pínu túpa!
Verbena, í grænu flöskunum?
Neib,,glærflaska með hvítu sulli innan í,,laufblað framan á! Þetta er nú skárra að kaupa þetta heldur en að kaupa litla túpu á dýrum dómum með kollageni úr asískum föngum og fóstrum!
Skrifa ummæli
<< Home