laugardagur, janúar 07, 2006

Pólitík

Fyrsta vinnuvika eftir áramót búin og ekki laust við að ég sé þreytt. Merkilegt, en það er ekkert minna að gera þó jólin séu búin en að vísu minnka hlaup i afgreiðslu og símsvörun talsvert.

Nú byrjar sveitastjórnarprófkjörshasarinn fyrir alvöru og lýðskrumarar landsins láta til sín heyra.
Ég hins vegar ætla í fyrsta sinn á lífsleiðinni að skrá mig í stjórnmálaflokk svo ég geti tekið þátt í prófkjöri núna í janúar og sett til dæmis þessa konu í sætið sem hún óskar eftir.
Ég er reyndar aðeins svag alltaf fyrir Vinstri grænum, það eru líklega kommúnistagenin frá afa að verki og svo sakna ég alvöru Alþýðuflokksins.
Mótsagnakennt, en svona er þetta bara.

Annars finnst mér bæjarstjórnarmálin hér í bænum talsvert frísklegri en bæði úti á Nesi, þar sem feðraveldið og vaninn ræður ferðinni, og svo í Reykjavík, þar sem leifarnar af R listanum reyna að halda dauðahaldi í völdin.
Skemmtilegri fulltrúar minnihlutans hérna en því miður hafa Frammararnir misst mikið þegar þeir misstu Geirdal.
Núna er eins og allir yngri menn Framsóknarflokksins séu steyptir í sama mót, breiðleitir, dökkhærðir, ögn broshýrir og líta út eins og vel aldir og þrýstnir bændasynir (sem er líklega það sem þeir eru komnir af).

Nú er spurning um að nýta tímann sem maður hafði ekki fyrir jól og skrifa áramótakveðjur í stað jólakveðja.
Athugum það.
Og það ER gott að búa í Kópavogi.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home