laugardagur, desember 24, 2005

Gleðileg jól!

Aðfangadagur og loksins eru hlutirnir að róast hér á heimilinu. Þorláksmessa hófst einkar skemmtilega með því að hringt var í okkur og sagt að rafvirkjarnir kæmu eftir tíu mínútur. Þar sem við vorum hrjótandi uppi í rúmi þá getið þið rétt ímyndað ykkur handaganginn í öskjunni sem upphófst þá. Fyrsta lagi að klæða sig, svo maður taki nú ekki of vel á móti rafvirkjunum. Og svo að róta út úr þeim eldhússkápum sem þeir þurftu að komast í og að tína aðeins til í slotinu jólahroðann.
Ég var búin að afskrifa komu þeirra fyrir jól til að tengja nýju uppþvottavélina en sem betur fer hafði ég rangt fyrir mér. Hún er mögnuð þessi vél, þetta er eins og að skipta út gamla blöðruskódanum sínum fyrir Mercedes Benz. Og heyrist varla í gripnum.
Valgerður kom með mér í vinnuna í fyrradag og var drifin með á myndina sem tekin var af staffinu fyrir heimasíðu Fönix.

Svo var jólabrjálæðið í búðunum klárað í gær, þurfum bara að skreppa í sveitabúðirnar okkar hér í hverfinu í augnablik á eftir.
Ég biðst forláts án afláts að hafa ekki sent nein jólakort, því verki var slaufað vegna anna, kannski sendi ég nokkur nýárskort.

Dæmalaust er alltaf gaman að hlusta á jólakveðjurnar í útvarpinu á Þorláksmessu. Svo gaman að ég ætla að búa til eina sjálf:

Elsku ættingjar og vinir úti um allar trissur, við sendum ykkur hugheilar jólakveðjur héðan af heiðum Kópavogs og vonum að þið eigið afslöppuð og hamingjurík jól. Hvað á það annars að þýða að vera að skeinast út í útlöndum þegar þið gætuð verið hjá okkur! Sorry, varð að krydda þetta aðeins!

En svona í alvöru, hafið það firnagott um jólin, borðið vel en þó í hófi, drekkið gott en þó í hófi, elskið friðinn og strjúkið kviðinn.
Gæti það verið betra?

Gleðileg jól!

2 Comments:

At 12:02 f.h., Anonymous Nafnlaus said...

Gleðileg jól og hafið þið það sem allra best. Hlakka til að sjá ykkur á morgun.
Kveðja,
Guðrún Björk

 
At 8:11 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Innilegar jólakveðjur af sólarströndum Spanjólalands. Ég vona að þið hafið ekki skemmt ykkur yfir ykkur í veislunni í gær. Hafið það ofsalega gott restina af jólunum

 

Skrifa ummæli

<< Home