laugardagur, mars 04, 2006

Spýturnar komnar í hús!

Parketið kom í gær og liggur nú í stafla hér í holinu. Stór bunki af því sem heitir "Eik family" og kemur frá einhverju Eystrasaltslandi.
Þannig að nú er síðasti dagurinn hjá ógeðslega gólfteppinu í stofunni. Spurning um að dokumentera óþverrann áður en hann fer í sína hinstu ferð í Sorpu.
Gæti verið efni í prýðilega og heldur óhuggulega ljósmyndaseríu.

Hulda er komin á Barbie flipp og nú er Barbie dót út um öll gólf. Martröð að taka þetta saman en hún skemmtir sér konunglega yfir þessu.
Helgin mun fara í tiltektir,draslhendingar og að gera klárt fyrir parketlögn á mánudaginn. Heimilið verður rjúkandi rústir í nokkra daga sýnist mér.

Skrapp í gær á Maður Lifandi og borðaði hádegismat með Guðrúnu Mary. Ótrúlegt magn þar af ljóshærðum, krumpuðum, flottkellingum í drögtum. Þetta var eins og súrrealískur draumur þar sem maður er lentur í Innlit Útlit þætti. En maturinn var góður og félagsskapurinn líka.
Ég þarf greinilega alvarlega að athuga að koma mér upp ljósum strípum, anorexíu og aðsniðinni dragt. Sýnist það vera lykillinn að lífshamingjunni.
En sennilega er ég of lítil svo ég er trúlega búin að tapa fyrirfram.

Horfði á næringarþáttinn á Skjá einum á þriðjudaginn. Fannst þetta ekki alveg vera að gera sig enda skilst mér að landlæknir og næringarfræðingar séu eitthvað farin að ybba gogg yfir þessu. Það er ekkert að því að bæta mataræði sitt en þegar menn segjast geta læknað efnaskiptasjúkdóma og fleiri krankleika þá er fólk farið að seilast dálítið langt.
Í það minnsta væri forvitnilegt að vita hvað innkirtlalæknirinn segir um þetta.
Undirrituð er reyndar í þeim pælingum að lagfæra mataræði og almenna heilsu en ég vil gera það á mínum forsendum, svo ég viti og skilji hvað ég er að gera.

Jæja, ég er farin að róta í hrúgum heimilisins með það að markmiði að minnka ruslið. Kannski fær maður bara Heiðar og Margréti í heimsókn til að aðstoða!

Hafið það gott krúttin mín.

1 Comments:

At 8:37 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Já,,þessir blessuðu næringaráðgjafar í þessum þætti að við eigum að borða 600 gr af grænmeti og ávöxtum á dag,,ja herna,,ég er nú að reyna að borða 300 gr og einn ávöxt,,og bara í miklu basli við það! Ég veit nú hvernig ég væri að torga 600 gr!

 

Skrifa ummæli

<< Home