föstudagur, janúar 27, 2006

Í vikulokin

Byrjum á því að senda þvílíkar þrusukveðjur til afmælisbarns dagsins sem er fröken Erla María!
Hennar er sárlega saknað á Vegmótasamkomunum sem hún tók þátt í að koma á.

Í byrjun vikunnar var ferðinni heitið á heilsugæsluna með Huldu Ólafíu í farteskinu. Þar reyndist hinn forni fjandi, eyrnabólga, hafa tekið sig upp aftur eftir fjarveru í heilt ár. Hulda er komin á fúkkalyf og er búin að taka gleði sína aftur og búin að fá matarlystina að nýju.

Það er komið svoddan auglýsingaóþol í mig að get orðið ekki hlustað á bölvað útvarpið þegar ég ferðast á milli staða. Sérstaklega þegar maður er að hlusta á eitthvað af "stærri" stöðvunum sem eru með fleiri auglýsingar. Farin að angra mig þessi átroðsla og ítroðsla um hvað mér sé fyrir bestu.
Finnst reyndar ansi merkilegar auglýsingarnar sem eru núna í gangi fyrir Securitas þar sem er beinlínis alið á mannhatri ("þessir fjandar") gagnvart náunganum. Ég ætla ekki að gera lítið úr því að það sé áfall þegar er brotist inn hjá manni, enda við búin að reyna það svona í húsflugumynd. En mér finnst ekki gott að ala á hræðslu og vænissýki gagnvart öðru fólki, nóg er nú samt um þess háttar pælingar og hegðun hjá hinum almenna borgara.
Annars er Dagsbrún (Baugur) búin að versla Securitas þannig að kannski fara þeir að skoða eitthvað meira en bara tölvupóstinn hjá fólki! ;-)
Mér finnst þeir eigi að kaupa fatahreinsun þá virkilega geta þeir stúderað skítuga þvottinn hjá Jóni og Gunnu (sbr. dirty laundry). Bara oggulítið spaug...
Ég verslaði þó hjá Hagkaup í fyrradag, svolítið eins og að hitta viðhaldið á laun eftir langan aðskilnað, semsagt, doldið spennandi. Keypti hjá þeim slatta af Létt-Lopa og er að vonast til þess að hafa tíma til að prjóna peysu á Huldu. Fyndnast var þó að á nótunni stóð: 'Létt-Lopi sauðalitir" við hverja einustu dokku. Þetta voru litir á við bleikt, grænt, gult, himinblátt, lilla og svo framvegis en ekkert í hefðbundnum sauðalitum.
Nema farið sé að rækta svona Technicolor™ sauðkindur og ég hafi alveg misst af því?

Góða helgi kindurnar mínar.

P.S. Góða fólkið myndi kannski kommenta svo ég sjái hvort einhver nenni að lesa þennan þvætting?

4 Comments:

At 10:07 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Það er spurning hvort að Baugur kaupi ekki næst sorphreinsun borgarinnar en þá væri örugglega hægt að komast í ruslið.
Þórhildur

 
At 9:14 f.h., Anonymous Nafnlaus said...

Ég verð að segja að ég hef ekki séð þessar nýju kindur neins staðar, nema þetta séu litirnir sem þeir sprautuðu kindurnar með í dala lífi.........

Hafið það nú annars gott og við sendum ykkur kveðju héðan úr baunalandi.....

Kristín

 
At 1:01 f.h., Blogger Hulda Katrín Stefánsdóttir said...

Ég hata þegar securitas auglýsir fyrirtækið Secúritas! Síðan hvernær er þetta orð sagt með úi!

 
At 12:34 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Við í Spanjólalandi lesum fréttir frá ykkur með mikill áfergju og höfum mikla ánægju að fylgjast með daglegu lífi fjölskyldunnar. Við erum t.d. mjög forvitin að vita hvernig gengur að kenna Huldu að sofa. Líka hvernig Valgerði gengur að höndla allt félagslífið sitt. Svo ekki sé talað um svona léttilega og skemmtilega ritaða pistla eins og þessi er. Ég veit að ég er ekki nógu dugleg að láta vita af mér en þetta vonandi bætir úr. Ástarþakkir og ástarkveðjur frá okkur báðum.

 

Skrifa ummæli

<< Home