Alveg úrvinda
Ég held að botnlaus vinna síðustu 2-3 mánuði, jólahald og önnur veisluhöld séu loksins að ná í skottið á mér. Ég er úrvinda svo ekki sé meira sagt. Sofnaði yfir Latabæ í gær og Hulda gat meira eða minna gert það sem henni sýndist á meðan. Henni til hróss þá nýtti hún sér ekki tækifærið. Svo sofnaði ég þegar ég var inni hjá Huldu að svæfa hana í gærkvöldi. Sofnaði á undan henni reyndar og svaf í gegnum nokkrar tilraunir Sigga við að stugga við mér. Ætlaði svo aldrei að geta vaknað í morgun og leið svipað og manni líður oftast á jóladagsmorgun. Hræðilega þreytt.Það minnkar ekkert álagið í vinnunni og þótt mér finnist gaman að vinna þarna þá er dálítið orðið freistandi að vinna þægilegri vinnu, kannski frá 8 til 4, sem maður fær 100% kaup fyrir og getur jafnvel fengið matartíma, nokkuð sem er af skornum skammti þarna. Ótrúlegt en satt, þá telst ég einungis vera að vinna 95% vinnu þar sem ég er núna. Þó ég vinni til 18:00 á þriðjudögum og sleppi öllum matartímum.
Er bara ekki að meika þetta og þetta bitnar mikið á heimilinu, familíunni minni og síðast en ekki síst, á sjálfri mér.
Í öðrum fréttum þá kaus ég í prófkjörinu áðan, mikill erill á kjörstað og langar raðir hjá fólki sem vildi skrá sig í flokkinn. Ég var búin að því og var komin á kjörskrá og gat gengið beint inn. Afskaplega skrítið að vera flokksbundin einhvers staðar, aldrei prófað það áður. Prófkjörin úti á Nesi voru alltaf opin og einhvern veginn langaði mig aldrei sérstaklega að spyrða mig við flokkinn þegar ég bjó þar.
En þetta er leiðin ef maður vill hafa áhrif á framboðslistann sem maður ætlar að kjósa. Gerði konum hátt undir höfði á mínum kjörseðli, reynum að láta ekki afhroðið sem varð í Garðabæ endurtaka sig hérna.
Í kvöld ætlar stórfjölskyldan að taka því rólega, chilla og horfa á sjónvarp/video.
Þetta er fyrsta helgin í fimm eða sex vikur sem er ekki eitthvað í gangi hér á heimilinu og við þurfum aldeilis á hvíldinni að halda.
Góða helgi og hafið það gott.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home