mánudagur, apríl 18, 2005

Femin konurnar

Hingað á heimilið barst um helgina Femin.is blaðið.
Viðkvæmar sálir ættu að hætta að lesa núna því ég ætla sem snöggvast að ausa úr skálum reiði minnar.

Fyrir utan ógrynnin öll af misgáfulegum auglýsingum þá finnst mér sú heimsmynd og sú sýn á konur sem þetta blað boðar ekki eiga heima í nútímanum.
Megnið af blaðinu snýst um hvað það sé æðislegt að vera sætur og sexí, hvernig á að daðra, kynþokkafyllstu konur Íslands, kynlíf og hjálpartæki ástarlífsins.

Nú ber ekki að skilja það sem svo að ég hafi neitt á móti því að vera sæt og sexí og mér finnst heldur ekki að konur eigi að fara á mis við það. Því síður að kynlíf sé eitthvað tabú, langt í frá.

En femin konurnar virðast ekki hafa nein önnur málefni í lífi sínu. Fjölskylda, vinir, menntun, vinna og tómstundir sem fara fram án víbrandi hjálpartækja eru greinilega hlutir sem eru ekki mikið spennandi í Femin heiminum. Og ef kynlífsáhuginn dalar eitthvað er auglýstur áburður sem heitir Oh! og er örvandi fyrir konur. Já, og svo er grein um bók sem heitir 'He's just not that into you' og er til að greina vandamálið ef maður er ekki að virka á manninn í lífi sínu sem sæt og sexí kynlífsmaskína.

Ef það væri ekki sýnt fremst í blaðinu að það eru konur sem standa að því myndi ég halda að þetta væri stórfenglegt plott hjá laumukallrembum þjóðfélagsins til að tjónka við kvenpeninginn og hvetja þær til að vera nú nógu blonde, sætar og til í það. Alltaf. Til að mynda fjalla fyrirspurnirnar um hvort það sé í lagi að kyngja (já segja þær, en með svona token fororði um kynsjúkdóma), hvort endaþarmsmök séu í lagi (já, en gætu valdið lausheldni á hægðir!!) og fleira í þessum dúr. Fræðsla er alltaf af hinu góða en þetta eru dálítið karlmiðuð málefni, ekki satt? Í almennri umræðu þykir frasinn "Að vera tekinn í kakóið" hvorki góður né æskilegur hlutur en svo er allt í einu orðið sjálfsagt mál að kvenfólk taki við því þegjandi (eða stynjandi!)
Og þetta er dálítið merkilegt í samhengi við umræðuna um klámvæðinguna sem hefur verið í gangi og þá hefur helst tíðkast að blammera karlmennina.
En mér sýnist sumar konur ekki vera neinir eftirbátar í því að hlutgera sjálfar sig.

Svo sést nú stundum á þessum fyrirspurnum og þeim sem hægt er að lesa á vefsíðu Femin, að unglingar eru að spyrja um ýmis viðkvæm málefni. Það er af hinu góða og það vantar sárlega meiri fræðslu fyrir þetta ágæta fólk. En oft vantar inn í svörin ákveðna ábyrgð. Til að mynda koma tæknileg svör um kynlíf og kynlífsheilsu (Stundum. Stundum vantar þó að ráðgjafinn segi "Farðu til læknis"). En oft vantar líka pælinguna um siðferði, ást og gagnkvæma virðingu. Svo maður tali nú ekki um möguleikann á að segja nei ef verið er að fara fram á vafasama hluti.

Ef unglingsstelpur hafa svona bókmenntir að leiðarljósi, er þá einhver hissa á að börnin noti munnmök sem gjaldmiðil inn í partí eins og hefur komið fram í blöðum í vetur.
Stundum er líka eins og það sé þegjandi samkomulag um að krakkar fari að stunda kynlíf um leið og þau geti girt niður um sig af sjálfsdáðum. Fullorðna fólkið brosi bara góðlátlega og segi "Þetta er ungt og leikur sér" og reddi fóstureyðingum og stefnumótum við klamidíulækninn. Að sjálfsögðu geta slysin alltaf gerst og fólk getur verið óheppið. Og þá er málið auðvitað að leysa úr þeim vandamálum á vandvirkan og nærgætinn hátt. En gamla máltækið með að byrgja brunninn áður en barnið dettur í hann eða það eða á bakið eða hnén, er ennþá í fullu gildi.

Konur hafa aldrei staðið jafnvel í hinum vestræna heimi hvað varðar menntun og atvinnuþátttöku og eru að bæta um betur á öllum vígstöðvum á hverjum degi.
Femin.is er eins og draugur úr fortíðinni og mætti alveg nútímavæðast betur.
Og hana nú!

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home