laugardagur, mars 05, 2005

Ferðasagan hingað til

Hér erum við í Prag og höfum það fínt þrátt fyrir kuldann. Höfum drukkið býsnin öll af Pivo sem er tékkneska orðið yfir bjór.
Við hófum semsagt ferðina á miðvikudagsmorgunn, illa sofin eftir að hafa einungis sofið í einn tíma yfir nóttina. Svo þegar sest var út í vél, brottfarartíminn runninn upp er okkur tjáð að vegna snjókomu í Danmörku sé ekki hægt að fara strax af stað. Við semsagt byrjuðum á því að sitja í 90 mínútur í vélinni á hlaðinu við Leifsstöð.
Þegar til Kaupmannahafnar var komið var klukkan þar af leiðandi orðin það margt og veðrið það leiðinlegt að við treystum okkur ekki til að fara niður í bæ, sóttum bara miðana okkar hjá CSA og tékkuðum okkur inn. Þá tók við vægast sagt hundleiðinleg bið, þar sem við fylgdumst með hverju fluginu á fætur öðru vera aflýst og vorum satt best að segja með áhyggjur af því hvort við kæmumst frá Danmörku.
Við fórum þó út í vél á réttum tíma en þá tók við meiri bið þar sem brautirnar voru fullar af snjó og ís. Svo fórum við nú loks í loftið um það bil um það leyti sem við hefðum verið að lenda.
Óli tók á móti okkur á Ruzyne, gaf okkur pivo og einhvern tékkneskan snafs sem ég man ekki hvað heitir og þá fór lífið aðeins að batna.
Tókum svo strætó og lestina hingað í íbúðina. Frábær lest, panilklædd, með svo miklum hvin að ég trúi ekki öðru en að Tékka skorti heyrn á ákveðnu tíðnisviði.
Í gær sátum við svo inn á Reykjavik sem er staður sem Íslendingur rekur. Þá kemur inn hópur af ferðamönnum og aftast í hópnum eru tvær kerlingar sem litu út eins og rússneskar bóndakonur. Þau labba fram hjá barnum en skyndilega grípur einn þjónninn aðra konuna hálstaki og heldur henni fastri og hinir þjónarnir króa þessar tvær af.
Þá voru þetta sígaunakonur að stela, höfðu hengt sig aftan í túristahóp og voru að reyna við töskurnar hjá konunum. Svo var kallað í lögguna sem kom og hirti dömurnar.
Höfum smakkað svínakjöt og kál í ýmsum myndum og borðuðum svo á aldeilis fínum tailenskum stað í gær. Svo maður gleymi nú ekki staðnum sem Óli og Sigrún fóru með okkur á hér í næsta hverfi þar sem kallarnir í hverfinu hittast á fimmtudögum og spila djass.
Kveðjur og skrifa meira seinna

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home