laugardagur, apríl 16, 2005

Sjaldséð gæði

Stormur og rigning í dag og ekki vænlegt veður fyrir Valgerði og ferðalangana á Suðurlandinu. Við erum semsagt bara þrjú um þessa helgi og gömlu hjónin ætla að gæða sér á nautasteik og rauðvíni í kvöld, fyrsta nautasteikin síðan við borðuðum nautasteik á Charleston í Prag.

Þegar Valgerður hefur farið að heiman til að gista hafa gjarnan fylgt með eftirfarandi fyrirmæli til gömlu hjónanna: "Þið borðið svo bara grænmetispítu og horfið á einhverja leiðinlega mynd."
Og það er að sjálfsögðu til að hún þurfi ekki að borða hinn ólýsanlega óþverra, grænmetispítu, og horfa á eitthvað hundleiðinlegt, með öðrum orðum að við afgreiðum þetta óeðli í okkur á meðan hún er í burtu.
Jæja, við borðuðum nú ekki grænmetispítu í gær en við horfðum á alveg fantagóða mynd. Ég veit vel að ég er aftarlega á merinni og ætti löngu að vera búin að sjá þessa mynd en 'Lost in translation' var alveg brilliant. Frá upphafi til enda.
Svo hef ég verið að lesa bók eftir Peter Straub sem heitir Magic Terror og eru sjö smásögur. Það er orðið verulega langt síðan ég hef ratað á bók sem ég hef haft svona gaman af. Vel skrifað og ágætt að hafa sögurnar í þessu formi þar sem kallinum hættir dálítið til að vera eilítið langdreginn í skáldsögunum sínum, þótt mér finnist yfirleitt gaman að lesa bækurnar hans.

Svo skruppum við í Nexus áðan sem var firnagaman að undanskildu því að það er vonlaust að fara með Huldu vitleysing í búðir. Þannig að ég auglýsi hér með eftir barnapíu fyrir næstu Nexus heimsókn.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home