mánudagur, maí 23, 2005

Ethnovision

Eins og aðrir Íslendingar horfðum við á Eurovision um helgina. Söknuðum þó fólksins sem við höfum yfirleitt hitt á þessum degi.
Það er orðið virkilega gaman að horfa á keppnina eftir að allar þessar nýju þjóðir bættust við og hún hefur talsvert frískast upp á að fá nýtt blóð.
Fyrir mitt leyti skil ég af hverju Ísland komst ekki áfram, það bara stóðst ekki samanburð við aðra hluti sem voru þarna í boði þótt lagið væri allt í lagi. Og hvað var með þennan dans?
Og mér finnst þjóðlegu áhrifin skemmtileg, sérstaklega ef menn leyfa sér þann munað að syngja á eigin máli. Mætti þó aðeins endurskoða fjöldann af trommurum og fiðluleikurum sem voru í boði.
Þetta er trúlega ein af fáum stundum á árinu sem Evrópubúar sameinast um einhvern hlut og ég held að þetta sé gott fyrir móralinn og gaman að sjá hvað menningarsvæðin eru ólík.

Á sunnudeginum vorum við bara að bjástra heimavið, vorum til að mynda að spekúlera í hvernig við ættum að útfæra lóðina en erum ekki komin að neinni gagnlegri niðurstöðu.

Valgerður lærði fyrir próf í djöfulmóð og Hulda Ólafía fór í flugferð af sófanum sem endaði á skápnum við hliðina á. Hún fékk svo myndarlega kúlu að það var brunað með hana á Slysó þar sem kom í ljós að ekkert amaði að dömunni nema kúlan. Læknirinn hló bara að henni af því hún mátti ekkert vera að því að spjalla við hann, vildi bara skoða allt dótið sem var í boði á barnabiðstofunni. Kom líka í ljós að frökenin þekkti eitthvað til veiðimennsku því hún sótti veiðistöng, prílaði upp í stól og fór svo að dorga ofan í dótakassann. Ekki vildum við kannast við að stangveiði væri mikið höfð fyrir henni en föttuðum þó fljótlega að blessað barnið hefur séð þetta í Tomma og Jenna. En hún er brött eftir þetta og var hress og kát þegar hún vaknaði í morgun og mætti galvösk til dagmömmunnar og puðraði á mömmu sína þegar var verið að segja frá afrekum gærdagsins!

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home