mánudagur, maí 09, 2005

Nóg að gera.

Nú er langt, langt síðan skrifað hefur verið síðast og þar er helst um að kenna að mikið hefur verið að gera.

Hér hefur sitthvað verið í gangi síðan síðast.
Fyrst ber að telja að við höfum nokkrum sinnum brúkað nýju sundlaugina og Hulda Ólafía er meira að segja búin að mæta. Ágætis laug og gott að hafa hana svona nálægt.

Við reyndum að gefa Valgerði taugaáfall í síðustu viku en eftir tveggja mánaða laumuspil gátum við loksins gefið henni rafmagnsgítar og magnara með. Pöntuðum gítarinn rétt fyrir páska, svona rétt áður en dollarinn hækkaði og biðum svo í ofvæni meðan hann sigldi í rólegheitunum yfir Atlantshafið. Svo var keyptur Vox magnari með, sá beið inni í skáp í þrjár vikur og foreldrarnir iðuðu í skinninu bókstaflega allan tímann.
En þetta var vel þess virði, ekki síst til að sjá svipinn á Valgerði.

Hér á heimavígstöðvunum er fólk farið að tala um að mála húskofana og smíða girðingar. Einhver fundahöld þurfa víst að fara fram svo það verði ekki svona regnbogaútlit á raðhúsunum og svo girðingarnar stemmi.
Spurning um að fá sér einbýlishús næst sem liggur ekki að neinum öðrum lóðum!

Á föstudaginn komu svo hér augnablik í heimsókn þau Kristín, Birta Eir og Helgi Hrafn og það var gaman að sjá fólkið í eigin persónu loksins. Birta orðin svaka stór og flott stelpa og Helgi myndarmaður.

Í gær var svo skroppið í verslunarleiðangur, keypt föt handa Huldu Ólafíu, glingur í IKEA og fleira smálegt.

Næsta mál á dagskrá er að fá myrkvunartjöld á svefnherbergin því það er óbærilegt að vakna núna á morgnanna í flennisól klukkan sex og verður örugglega verra eftir því sem sól hækkar á lofti.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home