miðvikudagur, febrúar 25, 2009

Flutt tilbaka.

Hér er ég og komin aftur á mitt gamla blogg. Ástæðan er sú að ég var búin að fá nóg af umhverfinu á Moggablogginu og soranum sem svamlar þar um inn á milli.  Maður komst ekki hjá því að sjá misgáfulegar færslur hjá misillkvittnum kjaftakerlingum af báðum kynjum.  Og svo er ekki hægt að lesa mbl.is án þess að sjá tengingar við færslur og maður fær óþverrann í augun, hvort sem maður vill eða ekki.  Mín skoðun er sú að það sé ekki hollt fyrir mann að vera neyddur til að horfa á þetta bjakk, ekki síst þegar maður þarf á öllum sínum jákvæðu kröftum að halda til að halda haus.   Þannig að ég mun leitast við að lesa sem minnst af þessu þrasi á netinu og að auki að færa mín skrif hingað í bili.  Þetta endurspeglar svo sem ágætlega það sem við gerum hér heima sem er að Fréttablaðið fær oftast snögga og fría ferð í endurvinnslugáminn og mér persónulega finnst skemmtilegra að lesa ruslpóstinn heldur en dagblöðin.

Héðan ofan af heiðum er allt ágætt að frétta og menn og dýr í ágætu formi.  Við höfum innipúkast talsvert eftir langdreginn pestarhátt í janúar en Strympa er að hressast og meira segja kötturinn er að kíkja dálítið út þessa dagana.  En stutt þó, svakalega stutt, því hann stendur í þeirri meiningu að umheimurinn sé almennt varhugaverður og þá sérstaklega utan dyra.

Hulda heldur áfram að taka framförum í tali og nú er búið að ákveða að hún fari í hverfisskólann hérna með sínum félögum.  Svo var buffinu loksins lagt í síðustu viku og ákveðið að það verði ekki brúkað aftur.  Hittist þá ekki svona vel á að það kemur upp lús í leikskólanum og langflestir mæta með buff í leikskólann, nema Hulda.  En við stöndum fast á okkar og barnið fer ekki að nota þetta aftur og verður frekar kembd daglega á meðan á þessu stendur.  Enda grunar mig að þetta sé falskt öryggi því maður sér blessuð börnin kippa þessu af sér og ég veit það að ef ég væri 5-6 ára væri ég alveg til í að prófa buff næstu manneskju.  En hún er lúsarlaus og við bara vonum hið besta.

Ég er, eins og fyrr sagði, að gera mitt besta að halda bjartsýninni en ekki er andinn í þjóðfélaginu góður.  "Vanhæf ríkisstjórn" farin frá og Aulabandalagið tekið við og virðist ekki vera að taka á þeim raunverulegu málum sem þarf að taka á.  Ég get ekki heldur sagt að ég sé bjartsýn á komandi kosningar og ekki get ég sagt að hjartað taki nein hamingjustökk við að sjá kandidatana sem eru þessa dagana að kynna sig til sögunnar fyrir komandi prófkjör og kosningar.  Og af hverju eru fréttatilkynningar þessara aðilar birtar á fréttasíðum eins og þetta séu fréttir?  Þarf allur landslýður vita að Jón Jónsson á Innra-Klofi sækist eftir sjöunda sæti framsóknarmanna í Borubyggð?  Nei.  Nú er ég farin að gera það sem ég var að kvarta undan í byrjun.  Best að fara og borða pillurnar sínar og gera smá hugleiðslu! 

Hafið það gott!
Þórdís Jákvæða. (a.k.a. Nýja-Þórdís)

6 Comments:

At 8:13 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Heyr, heyr. Er alveg sammála þessu með kommentinn. Það er alveg ótrúlegt hvað fólk segir á netinu. Ég sá t.d. núna áðan varðandi með fréttina um kaupin á Mogganum að Guðbjörg í Vestmannaeyjum væri atvinnuekkja. Ég hafði ekki áhuga að lesa bloggið. Hvernig er hægt að vera atvinnuekkja? Maður myndi halda að það væri ef viðkomandi væri búin að jarða marga menn. Ég veit ekki til að hún hafi gifst aftur eftir að maðurinn hennar dó fyrir 9 árum.
Kv.
Þórhildur

 
At 12:54 f.h., Blogger Þórdís Huldu og Guðmundar said...

Einmitt. Það er akkúrat þessi lágkúra sem ég er að tala um og Eyjan er líka skæsleg að þessu leyti.

 
At 1:23 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Skil þig mjög vel að hafa ekki bloggið á mbl..það eru óttalegar nornarveiðar þar í gangi! Flott að Hulda er hætt með buffið,,hún er miklu sætari ekki með buff!

 
At 12:00 f.h., Blogger Auður Eir Guðmundsdóttir said...

Hæ litlasystir; velkomin tilbaka. Ég var einmitt að velta fyrir mér hvort ég ætti ekki að fara aftur að stað hér á þessum vettvangi. Ekki alveg að höndla fésbókina eða snjáldurskjóðu eins og Gerður Kristný kallar hana. Ég er sem sé ennþá lifandi en að drukkna í verkefnum í leiðsögunáminu. Ástarkveðjur úr fannferginu fyrir norðan, stórasystir

 
At 1:18 f.h., Blogger Auður Eir Guðmundsdóttir said...

Elsku litla systir; Eftir tvo daga af frænkum en sálin okkar í góðu lagi. Okkur líður eins og við höfum rétt skroppið suður og kíkt á ykkur. Það er svo heimilislegt að hlusta á samskonar tilsvör frá ólíkustu stöðum og finna að við eigum einhverja þræði sameiginlega með hvort öðru. Það er gullið í þessu öllu. Ég hef verið hryllilega upptekin að því að ljúka áfanga 2 í 2. hluta leiðsögunáms. Gríðarlega skemmtilegt. En með heimsókn frænknanna fann ég sárlega fyrir miklum söknuði eftir systrum mínum svo látið ykkur ekki bregða þótt ég hringi í ykkur næstu daga. Ástarkveðjur frá stórusystur til allra þessara minni, samtals þrjú. Koss, koss, koss og knús.

 
At 8:41 e.h., Anonymous オテモヤン said...

Þessi athugasemd hefur verið fjarlægð af stjórnanda bloggs.

 

Skrifa ummæli

<< Home