fimmtudagur, apríl 13, 2006

Páskafrí

Langþráð páskafrí loksins komið.
Skírdagur fer reyndar, eins og oftast, í tiltektir og snurfus en þegar við erum búin að svoleiðis poti er páskaskrautinu skellt upp og dáðst að herlegheitunum.
Við erum með djöfuldóm af óséðum DVD myndum sem við eigum eftir að horfa á og það verður verkefni páskafrísins með meiru.
Svo dreymir mig um að finna kassann sem er með Backgammon spilinu mínu og Skraflinu okkar.
Það er ekki búið að kaupa páskaegg fjölskyldunnar að undanskildu Púkaegginu hennar Huldu sem var keypt í gær. Það gekk náttúrlega ekki annað en að aðalpúkinn í bænum fengi Púkaegg.

Maturinn er einfaldur í kvöld, pasta með hvítlauk, olíu og túnfiski en á morgun er verulega góður matur á dagskrá.
Þetta er lax sem hún Lóa tengdamamma mín hefur eldað nokkrum sinnum og er upp úr bók sem hún á. Man því miður ekki hvað bókin heitir svo ég ætla að fara að dæmi Auðar systur og setja uppskriftina hér fram.
Við völdum þennan rétt meðal annars til að prófa saffranið fína sem hún Auður kom með handa okkur frá Spáni.
En hér kemur Föstudags-Langa fiskurinn:

Sælkeralax


500 gr. laxaflök
2 1/2 dl. hrísgrjón
5 dl. vatn
1 saffranþráður
2 grænmetisteningar
2 laukar
1 rauð paprika
1 græn paprika
200 gr. sveppir
smjör og matarolía til steikingar
1 dós niðursoðnir tómatar (400 gr.)
salt og pipar
12 svartar eða grænar ólífur

1. Setjið hrísgrjón, vatn, saffran og grænmetisteninga í pott, hleypið upp suðu og sjóðið í 15-20 mínútur.

2. Skerið lauk og paprikur í strimla, skerið sveppi í sneiðar. Léttsteikið grænmetið í smjöri. Hellið tómötunum og vökvanum út í og látið krauma í nokkrar mínútur. Hrærið saman við soðin hrísgrjón og kryddið með salti og pipar. Setjið í stórt fat.

3. Roðflettið laxaflökin og skerið í sneiðar. Steikið í olíu og smjöri í 3-4 mínútur á hvorri hlið og raðið ofan á grjónin ásamt ólífum.

Borið fram með brauði og er handa fjórum.

Svo athugasemdir fjölskyldunnar: Okkur finnst laxinn naumt skammtaður (120 gr. á mann) því hann er svakalega góður og við ætlum t.d. 7-800 gr. handa okkur fjórum.

Lóa segir að saffranið sé líka naumt skammtað en hugsanlega fer það eftir gæðum vörunnar því það er ekki heldur gott að hafa of mikið af því.
Svo náttúrlega þetta klassíska, ef ekki er til saffran má nota turmerik.

Ég persónulega og prívat vil líka hafa salat með þessu en ég er reyndar farin að hafa salat með flestu sem ég elda fyrir utan pylsur og pizzu!

Og ég ætla að hafa suður afrískt hvítvín með má morgun (Drostdy-Hof Chardonnay) því mér finnst suður afrísk vín ansi góð þessa dagana.

Ég vona að þið hafið það náðugt ljúft og hátíðlegt og tékka mig nú örugglega inn fyrir páska.

1 Comments:

At 2:51 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Gaman að sjá fleiri uppskriftir en mínar. það er sko alveg óhætt að hafa nokkra þræði af saffran, svona 3-5 til að fá örlítið bragð en ekki bara lit. Ég óska ykkar kyrrðar á kyrrðardögum og gleðilegra páska.

 

Skrifa ummæli

<< Home