Dýr væri Hafliði hálfur. . . ?
Um helgina stóð til að fjárfesta í leikföngum handa Huldu Ólafíu. Það átti semsagt að kaupa viðbót við kastalann sem hún fékk í afmælisgjöf. Umrætt dót er til sölu í Hagkaup fyrir kr. 2.990,-Við vorum svo upptekin af öðrum hlutum í Smáralind á sunnudaginn að við gleymdum þessu og ætluðum að skjótast í vikunni að græja þetta. Í millitíðinn skoðaði ég síðuna hjá Amazon.com hvar Toys 'R Us selur sitt góss. Þar fæst sama dótið á 11$. Semsagt á ca. 700 kr. Þá er örugglega einhver álagning í verðinu til handa erlendu aðilunum á meðan Íslendingarnir eru að kaupa þetta á heildsöluverði.
Ég varð dálítið súr við að sjá þetta og pantaði þetta í gegnum Amazon og ShopUsa. Bætti reyndar við þessu sem kostaði það sama en fæst ekki hér og er úr sömu seríu. Hingað komið með öllum gjöldum og sköttum er þetta samt miklu ódýrara en hjá snáðunum í Baugi. Ekki að furða að þeir hafi efni á að kaupa Danmörku og England. Mér skilst reyndar að það sé umfjöllun um aðalguttann í einu glanstímaritinu þar sem kemur fram að í æsku hafi hann ekki lánað öðrum börnum leikföngin sín heldur rukkað þau um leigu fyrir afnotin.
Hef nú ekki lesið þetta sjálf en sé það að það er ekki seinna vænna að fara að innræta Huldu rétta siði.
Þá eignast hún kannski Færeyjar þegar hún verður stór.
1 Comments:
Ég hef heyrt þetta um fleiri sem náð hafa langt í viðskiptum að sem börn seldu þeir nestið sitt og aðgang að leikföngum. Eina manneskjan sem er skyld okkur og hefur gert þetta er Hulda Katrín en þetta gerði hún þegar hún fékk þetta forláta hoppuprik í 8 eða 9 ára afmælisgjöf.
Skrifa ummæli
<< Home