miðvikudagur, júlí 20, 2005

Jafnvel komið sumar

Í gær var þvílíkur steikjandi hiti að það var ólíft innanhúss.
Og um kvöldið var lítið hægt að opna glugga af því það var verið að háþrýstiþvo að aftan og sílanbera að framan. Best hefði verið að vera allsber svei mér þá.
Við mæðgurnar vorum mest utandyra í gær á röltinu, versluðum ís og djús í Salagrilli og löbbuðum um hverfið.
Við hittum Huldu Kristínu, Rebekku og Arnald og sáum nýja húsið þeirra. Glæsilegt hús og við óskum þeim til hamingju með það. Þau hafa það fram yfir okkur að þau eru komin með baðkar!
Við bættum úr baðkarsleysinu með því að fara í bað með fjölda annarra Kópavogsbúa, semsagt í sund. Huldu þótti mest gaman að ýta systur sinni ofan í laugina, veit ekki hvort barnið er að reyna að losna við samkeppnina.
Svo sat sköllóttur maður við hliðina á okkur í heita pottinum og Hulda var nú á því að hún ætlaði að heilsa upp á þennan kall, sennilega af því hann hafði svipaða hárgreiðslu og pabbi hennar. Ég beindi þó áhuga hennar að öðrum hlutum enda ekki líklegt til vinsælda að fara að safna sköllóttum köllum!
Við sáum svo hér af svölunum þegar fullt útkall af lögreglu, slökkviliði og sjúkrabílum þaut fram hjá og upp í Rjúpnasali. Stóð í blöðunum í morgun að rúða á 13. hæð hefði sprungið þar vegna hita og brotunum rignt niður en menn héldu að það hefði orðið gassprenging.
Nú er annar heitur dagur í uppsiglingu, veit ekki hvað við gerum í dag til að soðna ekki, veit þó að við byrjum að mála framhliðina í kvöld.
Sólarkveðjur úr Kópavoginum.

2 Comments:

At 9:26 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Þið heppin,,það er búið að vera skýjað hérna á suðurnesjum í tvo daga! Spurning hvort það verður eitthvað betra á englandi. Kveðja
Hulda Katrín

 
At 12:32 f.h., Blogger Þórdís Huldu og Guðmundar said...

Góða ferð og hafið það gott í Cornwall!

 

Skrifa ummæli

<< Home