laugardagur, ágúst 06, 2005

Síðustu vígin falla

Búið að vera mikið að gera í vinnunni og satt best að segja líst mér engan veginn á næstu viku vegna manneklu.
Hef ekki verið neitt ógurlega orkumikil þegar ég kem heim til mín á kvöldin eins og sést best á draslinu og óþvegnu fötunum. Siggi er líka búinn að vera að vinna mjög mikið og er orðinn heldur tuskulegur.
Hulda hefur haft það gott hjá dagmömmunni og er ánægð með að vera komin til baka. Það verður þó stutt gaman því hún byrjar í aðlögun á leikskólanum í næstu viku.
Valgerður fór í útilegu með Þórhildi og Stefaníu svo það er tómlegt í kotinu án unglingsins.

En í morgun eldaði ég hafragraut handa Huldu. Ekki kannski stórar fréttir en lesið áfram. Ég hef alla mína hunds og kattartíð haft megnustu skömm á hafragraut. Kannski afleiðingar af því að þegar ég var lítil og á leikskóla var grautur það sem var í boði á morgnana og þeir sem ekki átu svoleiðis voru taldir eiga við siðferðisbrest og ólæknandi vanþakklæti að stríða. Enda var þetta svona ógeðfelldur grár, slímugur massi sem manni fannst helst líkjast ælu í áferð og volgleika þegar þetta lak niður vélindað. Svipaða sögu var að segja þegar ég fór í sumarbúðir Rauða Krossins og svo í Riftún. Alger viðbjóður.
Svo varð ég eldri og gat neitað þeim mat sem mér sýndist en alltaf sat í mér hafragrautsviðbjóðurinn. Ég til að mynda gaf Valgerði aldrei hafragraut fyrir utan ungbarnagrautinn. Tengdamamma skildi ekkert í þessari vandlætingu og spurði hvort ég vildi ekki smakka hennar hafragraut, hann tæki öðrum grautum fram. Ég hélt nú ekki. Að vísu kenndi Gunni mér uppskrift að graut sem var góð, búin til með óristuðum tröllahöfrum, hveitiklíði og rúsínum. En þennan venjulega hafragraut gat ég ekki enn borðað.

Svo kom Hulda Ólafía í heiminn og hún vildi ekki sjá ungbarnajukkið nema bara rétt fyrstu mánuðina sem hún var að borða, kokaði bara á gumsinu. Einhverjar fregnir hafði ég af því að hún æti graut með góðri lyst hjá dagmömmunni og herti upp hugann og keypti einn pakka af Solgryn. Ég eldaði svo grautinn og barnið át með góðri lyst. Síðan þá hefur Hulda oftast fengið graut hjá mér um helgar en er eitthvað að þreytast á málinu núna. En ég semsagt eldaði graut í morgun. Hulda borðaði smá en vildi endilega mata mig á annarri hverri skeið. Ég gat eiginlega ekki verið að fúlsa við þessu, vildi ekki setja slæmt fordæmi fyrir barnið, og lét mig hafa það. Mér til mikillar furðu var þetta bara ágætt, ég greinilega bý til betri graut en kerlingarnar sem voru að pynta mig hér í denn. Og þegar Hulda var búin að borða nóg borðaði undirrituð restin af grautnum.
Svo eitt matvendnisvígið er hér með fallið. En þetta er samt eiginlega eins og þegar maður var að kynnast kaffi. Fólk var alltaf að segja að það væri betra að setja sykur í glundrið en bæði kaffi og grautur eru betri sykurlaus.
Ég hef þó grun um að það verði langt í að ég fari að borða síld, sushi norðursins, hinn matinn sem mér finnst vondur.

9 Comments:

At 4:08 e.h., Blogger Guðrún Mary said...

Hafragrautur já - síðast þegar ég fékk æði fyrir hafragraut var þegar ég var ólétt af Melkorku! Hefurður einhverjar fréttir, hmmmm??????

 
At 10:13 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Ég óska þér til hamingju með að hafa kynnst töfrum hafragrautsins. Mamma gaf okkur systkinunum oft og tíðum haftagraut í hádeginu og ég uppskar æðisgengið hláturskast í bekkjarsystkinum mínum einhvern tímann þegar ég kom of seint í skólann og bar við brenndum graut hjá mömmu. Hins vega má til sanns vegar færa að mamma bjó til afbragðs hafragraut og ágætis kakó. Svo má ekki gleyma því að hafragrautur er ágætis kostur þegar maður er orðinn blankur þennan mánuðinn og lítið eftir í buddunni fyrir kaupmanninn.

 
At 8:26 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Kaffi finnst mér nú betra sykurlaust,,en hafragrauturinn er nú betri með smá sykri á!

 
At 4:58 e.h., Blogger Hulda Katrín Stefánsdóttir said...

Ha,,þolir þú ekki sushi,,ég hélt einmitt að þú værir týpan í að borða sushi! Við ljónin eru greinilega saman í liði,,því sushi er algjör viðbjóður!!!!

 
At 2:00 e.h., Blogger Þórdís Huldu og Guðmundar said...

Nei, engar fréttir af því taginu.

Ég var nú bara að meina síld þegar ég talaði um sushi norðursins en á hinn bóginn er ég ekkert yfir mig hrifin af sushi.

 
At 6:26 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Ég er sammála ykkur um sushi-ið. Ég er enn með hroll eftir að hafa gert tilraun á einu veitingahúsi borgarinnar að borða þennan viðbjóð.
En leitt að heyra um síldina, þó að ég geti ekki borðað hana í tonnatali þá getur stundum verið gott að fá slíkan mat og svo megum við ekki gleyma þvílíkt gull þetta var fyrir okkur íslendinga. Þú hefur greinilega unnið í síld í fyrra lífi (ef við trúum á svoleiðis) og fengið þetta í hvert mál og ert því enn með ógeð á þessu:) (smá bull frá mér svona í lok vinnudags, greinilega búin að vinna of mikið:))

 
At 6:27 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Síðasta comment átti ekki að vera anonymous - þetta var Garún sem skrifaði krappið:)

 
At 9:59 e.h., Blogger Þórdís Huldu og Guðmundar said...

Ég prófa alltaf reglulega að borða síld ef eitthvað skyldi hafa breyst. Kannski kemur þetta með aldrinum svona eins og grauturinn.

 
At 3:31 f.h., Anonymous Nafnlaus said...

Sinnepssíld með rúgbrauð með miklu smjöri,,Aðalatriðið er ekki að fara ekkert sparlega með smjörið þegar maður borðar síld!

 

Skrifa ummæli

<< Home