miðvikudagur, ágúst 17, 2005

Grautur, geitungar og Gaumur

Velþóknun mín á hafragraut heldur áfram, sérstaklega þar sem ég uppgötvaði að maður verður ekki svangur fyrr en seint og um síðir eftir að hafa borðað hafragraut í morgunmat.
Aðlögunin hjá Huldu virðist ganga ágætlega og tíminn smáeykst sem hún er á leikskólanum.

En þessa dagana reynir mikið á taugarnar hjá mér. Þau eru nefnilega ófá tækifærin til að komast yfir geitungafælnina. Það er bunki af þessu liði hvert sem maður fer. Ég er þó búin að læra að sitja eða standa kyrr þegar þessir gulu skrattar koma og sveima í kringum mann en mér líður skelfilega á meðan. Svo var býfluga í strætó í dag. Hef nú minni áhyggjur af svoleiðis og sat sem fastast. En það var þroskaheft kona sem var nú ekki hrifin og fór fram að tala við bílstjórann: "Heyrðu strætóbílstjóri! Ég held þú verðir nú að gera eitthvað í þessu. Það er býfluga hérna og ég ætla sko ekki að vera í þessum strætó ef hún er hér. Ég held ég myndi svei mér þá hafa frekar mús heldur en þessa býflugu!". Á næstu stoppistöð snaraðist bílstjórinn aftur í og tók fluguna upp með fingrunum og henti henni út um bakdyrnar. Flugan virtist nokkuð furðu lostin en sveimaði svo í burtu.

Hvað varðar önnur mál í umræðunni þá skil ég ekki af hverju það er ekki nóg fyrir Baugsmenn að mál þeirra fari fyrir dómstóla. Það ætti að skera þokkalega úr um málið á einn eða annan hátt. En þessi bægslagangur í fjölmiðlum finnst mér hálfskringilegur og finnst að þeir eigi frekar að eyða púðrinu og seðlunum í málsvörn sína. Ef þeir eru saklausir þá ætti það að duga ekki satt? Það á ekki að þurfa að mæta í hvern fjölmiðilinn á fætur öðrum og segja sármóðgaðir: "En ég gerði ekki neitt!" og "Þetta er örugglega einhverjum öðrum (Doddsyni, Ríkislögreglustjóra, Marsbúunum) að kenna!"

5 Comments:

At 11:45 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Maður ætti kannski að fara að prófa að borða hafragraut. Veit samt ekki hvort að ég myndi druslast nógu fljótt úr rúminu á morgnana til að búa svoleiðis til.
Verð að viðurkenna eitt um Baugsmálið að ég nenni varla að fylgjast með því. Mér er alveg skítsama hvað Jón Ásgeir var að eyða miklu á Kaffibrennslunni, Guzzi búðinni o.s.frv.
Kv. Tóta

 
At 12:54 f.h., Blogger Þórdís Huldu og Guðmundar said...

Það tekur ótrúlega stutta stund. Suðan þarf að koma upp, og svo malla við vægan hita í einungis mínútu. Svo gera sumir þetta í örranum á álíka löngum tíma.
Mér finnst bara svo gaman að hræra í þessu.

 
At 10:01 f.h., Anonymous Nafnlaus said...

Pabba kann að gera hafragraut í örbylgjuofn,,tekur eina mín! Alveg sammála með Baugsmálið,,nenni ekki að fylgjast með þessu fíflalátum!

 
At 10:53 f.h., Anonymous Nafnlaus said...

Viðbótarkveðjur til þín á afmælisdaginn en aðalkveðjan er á birta.dk. Þessi dagur fyrir 37 árum er mér í fersku minni og var okkur systkinum þínum mjög ánægjulegur þrátt fyrir það að þú værir rosaleg písl og grétir þungum tárum vegna nikótínleysis. Hjartans kveðjur frá elstu systur

 
At 11:06 f.h., Blogger Þórdís Huldu og Guðmundar said...

Næs!
Enda hef ég ekki þurft að reykja síðan.

 

Skrifa ummæli

<< Home