sunnudagur, ágúst 14, 2005

Ávextir, íþróttir og úrhelli

Helgin hefur gengið þokkalega fyrir utan að Sigurður hangir lon og don í vinnunni.
Á föstudaginn kom loksins blíðskaparveðrið þannig að við kláruðum að mála gráa litinn. Nú á eftir að bletta húsið vegna þess að það er svo fruntalega mikið hraunað að maður nær ekki almennilega að þekja alls staðar. Samt held ég að þetta hafi bara gengið þokkalega miðað við sumt sem maður sér í kringum sig. Við eigum eftir að kítta í kringum gluggana og mála þá. Þegar það er búið skal ég sýna ykkur myndir.

Vorum í dag í hellidembu að fylgjast með ungfrú Valgerði á Frjálsíþróttamóti FH. Hún vafalaust segir ykkur allt um það mál á sinni síðu en þegar við komum heim var barnið svo gegnblautt og kalt að hún var drifin í sturtu með det samme.
Það hjálpaði mikið til, ungfrúnni varð heitt aftur og við kerlingarnar skruppum í Smáralind. Þar voru keyptar gallabuxur á báðar dætur, bolir á Huldu og belti á Valgerði og Sigga. Ég er ekki frá því að kortið mitt sé byrjað að bráðna.

Í síðustu viku bauð Nóatún upp á svo aldeilis fína ávexti. Perur, nektarínur, ferskjur og plómur frá Spáni. Þetta leit svo vel út að ég keypti eina körfu af perum og eina af nektarínum. Nektarínurnar kláruðust strax og ég bætti á birgðirnar í gær. En ég er greinilega eina áhugamanneskjan um perur því að það var hellingur til í dag, orðinn vel þroskaður og útilokað að ég myndi ná að borða þetta í tæka tíð. Þá var brugðið á það ráð að kaupa svampbotna og hin klassíska peruterta útbúin með ferskum perum. Það er strax einn ókostur og hann er sá að það vantar náttúrlega allan perusafa til að bleyta botnana með. Ég hefði svosem getað sullað hvítvíni yfir þetta en það er kannski ekki það ábyrgasta þegar tveggja ára kökuætur eru með í spilinu.
Svo þeyttist rjóminn eitthvað asnalega og kremið varð óttalega lint. Ég setti hálfa dós af sýrðum rjóma út í þetta til að gá hvað gerðist og það bragðast alveg ágætlega. Fyrir utan að ég gleymdi að segja ykkur að þetta eru ekki venjulegir svampbotnar, þeir voru ekki til, heldur svampbotnar með súkkulaðibitum.
Mun gefa skýrslu um hina misheppnuðu perutertu seinna í vikunni. Valgerður hló í það minnsta kosti eins og vitleysingur þegar hún sá þetta inni í ísskáp.

Þetta er svo ótrúlegur munur þegar loksins fást almennilegir ávextir hérna. Maður verður stundum dálítið þreyttur á stjörfu eplunum með vaxgljáann og algeran skort á bragði, svo maður tali nú ekki um missúrar appelsínur. Svo eru náttúrlega búin að vera fín ber í boði en maður kann ekki almennilega að borða svoleiðis. Þetta var einu sinni svo dýrt að það var keypt ein askja af jarðarberjum, þeim skipt með mikilli viðhöfn og svo borðuð af mikilli virðingu. Maður lét sig ekki dreyma um að búa til einhverja feikna rétti úr þessu af því það var bara svo skratti dýrt. Hvað þá að stýfa þetta úr hnefa.
Maður á víst að borða 5 skammta á dag af ávöxtum og grænmeti svo eitthvað átak þarf að gera til að losna við ávaxtafeimnina.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home