mánudagur, febrúar 21, 2005

Rafmagnsleysi

Skrítinn dagur.
Bíllinn bilaður, hleður ekki. Við Hulda röltum með kerru til Unnar í gegnum þokuna, nokkuð sem Huldu þótti ágætis sport. Svo fór ég með Strætó í vinnuna og af því það er svo hlýtt í dag og þoka þá var afskaplega rólegt yfir öllu, öll hljóð dempuð og notalegt að ganga úti.
Síminn minn varð svo rafmagnslaus þegar ég kom niður í vinnu. Það þarf orðið að hlaða þessa druslu tvisvar á dag svo hann gagnist eitthvað. Ég bara verð að fá mér nýjan síma áður en ég fer í útlandið. Reyndar er heimilissíminn álíka dapur og þyrfti líka að endurnýja hann. Ekki síst þar sem Hulda ræðst á hann á hverjum degi, blaðrar í hann og skellir honum svo helst í gólfið.
Ef einhver kann góð brögð til að láta börn hætta að príla þá má sá hinn sami gjarnan láta mig vita. Mín manneskja er upp á öllu, stólum, borðum, leikföngum og svo stendur hún þarna og segir ofboðslega glaðlega: "Boppa!" Ég fæ alltaf hroll þegar hún gerir þetta og vona að það takist ekki í bráð hjá henni að hoppa. En hingað til hefur mér tekist að hlaupa nógu hratt og stoppa ungfrúna.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home