föstudagur, júlí 15, 2005

Kannski fullmikið

Ég var að lesa frétt á BBC um að breskum múslimaleiðtoga hafi verið neitað um aðgang að landi hinna frjálsu og hugrökku án þess að fá haldbæra ástæðu fyrir synjun dvalarinnar. Nú veit ég ekki neitt um fortíð þessa manns en rennir þó í grun um að taugaveiklun í kjölfar atburðanna í Bretlandi eigi einhvern hlut þarna að máli, svipað og gerðist í kjölfar 11. september. Þetta setur þær milljónir manna sem búa í Evrópu og teljast til þessa trúarhópar sennilega í slæma aðstöðu.
Obbinn af þessu fólki er fætt og uppalið í álfunni og einungis lítill hluti aðhyllist kennisetningar ofsatrúarmannanna. Svona rétt eins og einungis lítill hluti af þjóðfélaginu hér á Íslandi aðhyllist öfgakenndar útfærslur á kristnum kenningum.
Og morð samræmast ekki múhameðstrú frekar en hjá öðrum trúarbrögðum.
Mér líkar vel fjölbreytnin í mannlífinu sem er hér í Evrópu. Það er sérkennilegt að Bandaríkjamenn, sem eru samsettir af mörgum þjóðarbrotum og þar af leiðandi trúarhópum, skuli ganga fremst í flokki að stuðla að útlendingafælni og fordómum.
Hræðsla og fordómar eru undirrótin að illskuverkum mannkynsins. Hver þarf að óttast helvíti eftir dauðann þegar mannkynið er svo andskoti lunkið að útbúa það hér í lifanda lífi?

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home