fimmtudagur, apríl 20, 2006

Gleðilegt sumar


Sendum sumarkveðjur nær og fjær.

Hafði það af að verða lasin í fyrrakvöld og er ekki orðin alveg góð enn. Heimur þó batnandi fer. Við skreppum á eftir í búðir að versla kvöldmat og sumargjafir handa stúlkunum og að sporta okkur pons um í Smáralindinni.

Að öllum líkindum er meðfylgjandi kisa að flytja til okkar, innikisa sem er að missa heimili sitt og hefði að öðrum kosti flutt "í sveitina til góðs bónda", með öðrum orðum, svæfð. Ég er þó ekki alls kostar viss um málið, þá kannski helst hvernig honum gengur að aðlagast okkur og nýju heimili þar sem hann er orðinn tveggja ára.
Við sjáum hvað setur.

mánudagur, apríl 17, 2006

Fögur fyrirheit

Ótrúlegt en satt þá hefur lítið gengið að koma öllu súkkulaði fjölskyldunnar rétta leið. Við ætlum að gera úrslitatilraun í kvöld, síðasta páskakvöldið.

En eftir frábæra páskahelgi, dýrindispáskamáltíð í Njarðvík (takk fyrir mig) og brauð, paté, ost og rauðvín í gær að hætti Jesú, þá er kominn tími til að snyrta aðeins til í lífi sínu.

Ég er nefnilega búin að ákveða með þó nokkrum fyrirvara að taka upp ögn hollara líferni og skrifa það hér með svo það séu fjöldamörg vitni að heitstrengingunum.
Frá og með morgundeginum er ekkert gotterí á dagskrá nema við hátíðleg tækifæri.
Sama með áfengi, bara svona eins og Ólí Grís, í hófi og afar sjaldan.
Svo er meiningin að vera duglegri að hreyfa sig og ég treysti á það að Valgerður taki mig í Boot Camp og kenni mér allar killer frjálsíþróttaæfingarnar sínar.

Markmiðið með þessu er þríþætt:

Augljóslega að koma kroppnum í betra form og þar með að hafa jákvæð áhrif á blóðþrýsting, blóðsykur og allt þetta sem telst til frístundasjúkdóma móðurfjölskyldunnar.

Sjá hvort þetta hafi ekki jákvæð áhrif á hormónajafnvægið sem alltaf er verið að slást við.

Og síðast en ekki síst, hjálpa til við að halda geðheilsunni góðri.

En markmiðið er ekki að vera eins og lærisveinn hjá skrítna fólkinu á Skjá Einum eða að vera eins og frelsaður alki. Heldur bara að laga svolítið til hér og svolítið til þar og athuga hvort það gerir ekki gagn.

En fyrst þarf ég að sjálfsögðu að redda þessu súkkulaði og restinni af rauðvíninu mínu. Hahaha!!!

sunnudagur, apríl 16, 2006

Fyrir Páska.

Höfum átt allnáðuga daga hingað til og jú, það hefur gengið eftir að slaka örlítíð á.

Við höfum náð að horfa á eitthvað af vanræktu videomyndunum, höfum spilað Scrabble og Backgammon og elduðum svo þennan dýrindis lax í gær.
Fyrir þá sem ætla að nota uppskriftina: Þetta er fullmikið af hrísgrjónum fyrir meðalfjölskyldu og þó átum við eins og svín, svona eins og standardinn er hjá familíunni. Mæli með því að skammturinn sé tekinn niður í 2 dl. af hrísgrjónum.

Siggi fór að vinna í dag og við kerlingarnar dormuðum í sólinni (inni) og lukum tiltekt hér heima.
Ágætis dagur en hápunkturinn var að skreppa í Smáralind til að gera lokainnkaup á páskaeggjum og bæta við áfengi svo gömlu hjónin geti verið símjúk í fríinu.
Það var þó ekki hápunkturinn, heldur að rannsaka þá fjöld af skrítnum og skemmtilegum Íslendingum sem skríða úr fylgsnum sínum þegar innkaupaþorstinn er orðinn of megn. Þvílíkt og annað eins af merkilega útlítandi og misþenkjandi einstaklingum! You had to be there! Krumpukerlingar i Ríkinu hvað!

Svo höfum við verið líka að dunda okkur við að horfa á Jeeves og Wooster þættina í hjáverkum og lukum einmitt kvöldinu núna með einum og hálfum slíkum. Sérdeilis hollt fyrir heilsuna og ótrúlega gaman að horfa á allan Art Deco stílinn í verki.

Ég hef því miður ekkert meira uppbyggilegt að segja (hafi þetta verið uppbyggilegt á annað borð) og óska ykkur þess vegna gleðilegra páska og góðrar meltingar yfir páskahátíðina.
Vona líka að þið hafið það gott með sjálfum ykkur og fólkinu ykkar!
Pásk, pásk!

fimmtudagur, apríl 13, 2006

Páskafrí

Langþráð páskafrí loksins komið.
Skírdagur fer reyndar, eins og oftast, í tiltektir og snurfus en þegar við erum búin að svoleiðis poti er páskaskrautinu skellt upp og dáðst að herlegheitunum.
Við erum með djöfuldóm af óséðum DVD myndum sem við eigum eftir að horfa á og það verður verkefni páskafrísins með meiru.
Svo dreymir mig um að finna kassann sem er með Backgammon spilinu mínu og Skraflinu okkar.
Það er ekki búið að kaupa páskaegg fjölskyldunnar að undanskildu Púkaegginu hennar Huldu sem var keypt í gær. Það gekk náttúrlega ekki annað en að aðalpúkinn í bænum fengi Púkaegg.

Maturinn er einfaldur í kvöld, pasta með hvítlauk, olíu og túnfiski en á morgun er verulega góður matur á dagskrá.
Þetta er lax sem hún Lóa tengdamamma mín hefur eldað nokkrum sinnum og er upp úr bók sem hún á. Man því miður ekki hvað bókin heitir svo ég ætla að fara að dæmi Auðar systur og setja uppskriftina hér fram.
Við völdum þennan rétt meðal annars til að prófa saffranið fína sem hún Auður kom með handa okkur frá Spáni.
En hér kemur Föstudags-Langa fiskurinn:

Sælkeralax


500 gr. laxaflök
2 1/2 dl. hrísgrjón
5 dl. vatn
1 saffranþráður
2 grænmetisteningar
2 laukar
1 rauð paprika
1 græn paprika
200 gr. sveppir
smjör og matarolía til steikingar
1 dós niðursoðnir tómatar (400 gr.)
salt og pipar
12 svartar eða grænar ólífur

1. Setjið hrísgrjón, vatn, saffran og grænmetisteninga í pott, hleypið upp suðu og sjóðið í 15-20 mínútur.

2. Skerið lauk og paprikur í strimla, skerið sveppi í sneiðar. Léttsteikið grænmetið í smjöri. Hellið tómötunum og vökvanum út í og látið krauma í nokkrar mínútur. Hrærið saman við soðin hrísgrjón og kryddið með salti og pipar. Setjið í stórt fat.

3. Roðflettið laxaflökin og skerið í sneiðar. Steikið í olíu og smjöri í 3-4 mínútur á hvorri hlið og raðið ofan á grjónin ásamt ólífum.

Borið fram með brauði og er handa fjórum.

Svo athugasemdir fjölskyldunnar: Okkur finnst laxinn naumt skammtaður (120 gr. á mann) því hann er svakalega góður og við ætlum t.d. 7-800 gr. handa okkur fjórum.

Lóa segir að saffranið sé líka naumt skammtað en hugsanlega fer það eftir gæðum vörunnar því það er ekki heldur gott að hafa of mikið af því.
Svo náttúrlega þetta klassíska, ef ekki er til saffran má nota turmerik.

Ég persónulega og prívat vil líka hafa salat með þessu en ég er reyndar farin að hafa salat með flestu sem ég elda fyrir utan pylsur og pizzu!

Og ég ætla að hafa suður afrískt hvítvín með má morgun (Drostdy-Hof Chardonnay) því mér finnst suður afrísk vín ansi góð þessa dagana.

Ég vona að þið hafið það náðugt ljúft og hátíðlegt og tékka mig nú örugglega inn fyrir páska.

laugardagur, apríl 08, 2006

Loksins! Að afstaðinni fermingu!

Loksins, loksins komst ég að tölvunni eftir fermingartörnina.

Eins og þið vitið flest þá var tekið hraustlega á hér síðustu vikuna og fermingardagurinn gekk svo eins og í sögu.
Fallegt veður, falleg athöfn, góðir gestir og himinsælt fermingarbarn.
Við þökkum innilega fyrir samveruna og hjálpina frá vinum og vandamönnum í kringum ferminguna.

En að þessu loknu var undirrituð alveg búin í þó nokkurn tíma. Er ekki enn búin í raun og veru að ná fyrri starfsorku. Það stendur þó allt til bóta vona ég.
Í það minnsta er páskafríið framundan og ég er að vona að það fari friðsamlega fram.
En hins vegar hefur varla handtak verið gert hér á heimilinu síðan um fermingu fyrir utan almenn þrif. Ég er að verða búin að vinna mig niður úr þvottafjallinu sem var búið að myndast inni í þvottahúsi og vonandi klárast það um helgina.

Svo ætlaði ég að fara að þrífa á eftir en hef ekki haft mig í það strax. Ætla samt að bíta á jaxlinn og gera þetta fyrir kvöldið.
Eymdarástand ekki satt?

Gunni og Kiddý tóku samt af sér að afstressa gömlu hjónin um siðustu helgi og við þökkum kærlega fyrir góða skemmtun.
Og svona for the record, páskabjór vinnur á áhrifum jólabjórs! Spyrjið bara Sigga!

Og svo sendum við fermingarbarninu Emmu og fjölskyldu góðar kveðjur út til Eyja og vonum að þið eigið góðan dag.