sunnudagur, maí 29, 2005

Þetta er allt að koma. . .Skjalda

Við fórum í leikhús á föstudagskvöldið, fórum að sjá "Þetta er allt að koma" í Þjóðleikhúsinu.
Ágætis skemmtun og ef þið eigið séns þá eru nokkrar aukasýningar núna í gangi.
Svo fórum við kerlingarnar að versla í gær og ég get glatt ykkur með að ég keypti nokkrar flíkur og ekki eina einustu sem var svört. Sundföt voru keypt á báðar dætur en fólkið var síðan of kvefað í morgun til að fara í sund.

Síðan að espressovélin okkar gaf upp öndina og fékk fría ferð í Sorpu, höfum við verið heldur löt að búa annað en bara þetta venjulega kaffi. En í síðustu viku keyptum við þetta í Hagkaup og kæru bræður og systur, hún er að dúndurvirka. Við höfum verið að skoða ýmsar vélar hér og þar og alls staðar en aldrei langað almennilega í neitt þar sem þetta eru oft soddan risamaskínur eða þá rándýrt, oftast hvorutveggja.

Maður býr svo sem ekki til kaffi fyrir neinn mannfjölda, en það er hægt að fá sér latte á morgnana með kallinum án teljandi vandræða. Og útlitið gleður líka. Núna er þetta bara kallað beljukaffi hér á heimilinu, spurning hvort kannan eigi ekki að heita Skjalda?

föstudagur, maí 27, 2005

Nýtt lúkk á línuna og fleira.

Guðrún Parísardama benti mér á að kommentakerfið væri farið að gefa sig. Ég kveiki því hér með aftur á Blogger kommentunum, enda er búið að bæta það sýstem til muna frá því sem áður var. Skipti um leið yfir í svona sumarlegra template enda veitir ekki af að létta lund sína og annarra. Haloscan kommentin eru í fríi þangað til ég nenni eða ákveð að gera meira í því máli.

Það minnir mig á að ég tók til í fataskápnum og setti helling í poka til að gefa Rauða Krossinum. En þegar ég leit í skápinn minn eftir tiltektina sá ég að það voru eiginlega bara svört föt eftir og frekar lítið af þeim. Þar sem ég hef ákveðið að vera um sinn ekki til fara eins og grísk ekkja, þá þarf ég að huga að innkaupum í lit. Ég auglýsi eftir góðum hugmyndum, eða á ég kannski bara að panta tíma hjá stílistanum í Debenhams?

mánudagur, maí 23, 2005

Ethnovision

Eins og aðrir Íslendingar horfðum við á Eurovision um helgina. Söknuðum þó fólksins sem við höfum yfirleitt hitt á þessum degi.
Það er orðið virkilega gaman að horfa á keppnina eftir að allar þessar nýju þjóðir bættust við og hún hefur talsvert frískast upp á að fá nýtt blóð.
Fyrir mitt leyti skil ég af hverju Ísland komst ekki áfram, það bara stóðst ekki samanburð við aðra hluti sem voru þarna í boði þótt lagið væri allt í lagi. Og hvað var með þennan dans?
Og mér finnst þjóðlegu áhrifin skemmtileg, sérstaklega ef menn leyfa sér þann munað að syngja á eigin máli. Mætti þó aðeins endurskoða fjöldann af trommurum og fiðluleikurum sem voru í boði.
Þetta er trúlega ein af fáum stundum á árinu sem Evrópubúar sameinast um einhvern hlut og ég held að þetta sé gott fyrir móralinn og gaman að sjá hvað menningarsvæðin eru ólík.

Á sunnudeginum vorum við bara að bjástra heimavið, vorum til að mynda að spekúlera í hvernig við ættum að útfæra lóðina en erum ekki komin að neinni gagnlegri niðurstöðu.

Valgerður lærði fyrir próf í djöfulmóð og Hulda Ólafía fór í flugferð af sófanum sem endaði á skápnum við hliðina á. Hún fékk svo myndarlega kúlu að það var brunað með hana á Slysó þar sem kom í ljós að ekkert amaði að dömunni nema kúlan. Læknirinn hló bara að henni af því hún mátti ekkert vera að því að spjalla við hann, vildi bara skoða allt dótið sem var í boði á barnabiðstofunni. Kom líka í ljós að frökenin þekkti eitthvað til veiðimennsku því hún sótti veiðistöng, prílaði upp í stól og fór svo að dorga ofan í dótakassann. Ekki vildum við kannast við að stangveiði væri mikið höfð fyrir henni en föttuðum þó fljótlega að blessað barnið hefur séð þetta í Tomma og Jenna. En hún er brött eftir þetta og var hress og kát þegar hún vaknaði í morgun og mætti galvösk til dagmömmunnar og puðraði á mömmu sína þegar var verið að segja frá afrekum gærdagsins!

fimmtudagur, maí 19, 2005

Sumarið er tíminn. . .

Ég er ekki alltaf alls kostar sátt við sumarið.
Vissulega er gott þegar fer að hlýna aftur og það er fullt af hlutum sem er meira gaman að gera á sumrin en veturna.
En með sumrinu koma líka pöddur, ekki uppáhaldið mitt.
Inni í stofu verður sjóðandi heitt, ég veit að ég þarf að laga það með gardínum en er bara ekki búin að því ennþá. Svo vaknar maður eldsnemma á morgnana við glampandi birtu inni í svefnherbergi. Við erum að tala um fimm á morgnana eins og er, spurning hvað gerist þegar sólin hækkar enn meira á lofti. Þannig að ég er frekar vansvefta þessa dagana.
Svo kemur rúsínan í pylsuendanum: frjókornaofnæmi. Nú er búið að vera bjart og þurrt í nokkra daga og ég er aldeilis farin að finna fyrir því. Neyddist til að taka ofnæmistöflu í dag sem ég þó slepp oftast við.
En við erum víst að fara að mæla fyrir myrkvunartjöldum í svefnherbergin í kvöld svo eitthvað ætti að lagast núna.
Ef ekki, þá þarf ég líklega að fara og panta prósakk og róandi hjá heimilislækninum svo ég meiki það fram á haust!

mánudagur, maí 09, 2005

Nóg að gera.

Nú er langt, langt síðan skrifað hefur verið síðast og þar er helst um að kenna að mikið hefur verið að gera.

Hér hefur sitthvað verið í gangi síðan síðast.
Fyrst ber að telja að við höfum nokkrum sinnum brúkað nýju sundlaugina og Hulda Ólafía er meira að segja búin að mæta. Ágætis laug og gott að hafa hana svona nálægt.

Við reyndum að gefa Valgerði taugaáfall í síðustu viku en eftir tveggja mánaða laumuspil gátum við loksins gefið henni rafmagnsgítar og magnara með. Pöntuðum gítarinn rétt fyrir páska, svona rétt áður en dollarinn hækkaði og biðum svo í ofvæni meðan hann sigldi í rólegheitunum yfir Atlantshafið. Svo var keyptur Vox magnari með, sá beið inni í skáp í þrjár vikur og foreldrarnir iðuðu í skinninu bókstaflega allan tímann.
En þetta var vel þess virði, ekki síst til að sjá svipinn á Valgerði.

Hér á heimavígstöðvunum er fólk farið að tala um að mála húskofana og smíða girðingar. Einhver fundahöld þurfa víst að fara fram svo það verði ekki svona regnbogaútlit á raðhúsunum og svo girðingarnar stemmi.
Spurning um að fá sér einbýlishús næst sem liggur ekki að neinum öðrum lóðum!

Á föstudaginn komu svo hér augnablik í heimsókn þau Kristín, Birta Eir og Helgi Hrafn og það var gaman að sjá fólkið í eigin persónu loksins. Birta orðin svaka stór og flott stelpa og Helgi myndarmaður.

Í gær var svo skroppið í verslunarleiðangur, keypt föt handa Huldu Ólafíu, glingur í IKEA og fleira smálegt.

Næsta mál á dagskrá er að fá myrkvunartjöld á svefnherbergin því það er óbærilegt að vakna núna á morgnanna í flennisól klukkan sex og verður örugglega verra eftir því sem sól hækkar á lofti.