miðvikudagur, júní 29, 2005

Ýmis konar afmæli!

Byrja nú á því að óska fröken Þórhildi til hamingju með afmælið, 29 ár er það ekki? Svona eins og sumir?

Svo stóð til að við hjónakornin færum út að borða á laugardaginn til að fagna því að x mörg ár eru síðan við hittumst(sko, þetta er orðið svo langt að ég hef ekki lengur tölu á því). Þetta er árlegur viðburður og haldið upp á þetta af meiri natni en brúðkaupsafmælið.
Til stóð að fara á La Primavera og borða góðan mat en ég fór á heimasíðuna þeirra og var að skoða matseðlana. Reiknast mér til að útgerðin, með leigubílum og tilheyrandi gæti auðveldlega slagað upp í og upp úr 20.000 kalli. Ég sem fátækur húsbyggjandi, get ekki sætt mig við svona spreðerí þannig að við ætlum barasta að elda sjálf heimavið. Ef maturinn er vondur setjum við bara upp snúðugan svip eins og þjónar gera og þá er upplifunin nánast sú sama og að fara út að borða.
En á morgun byrjar sumarfríið mitt. Plönin eru að reyna að rútta aðeins til í kofanum, henda rusli og taka upp úr einhverjum kössum. Svo á að mála hið fagra raðhús Toskanagrátt(?) að utan og jafnvel koma upp girðingum(hnotubrúnum). Brýnt er einnig að koma rúðum í hurðirnar sem eiga að hafa gler svo fröken Hulda Ólafía hætti að príla í gegn. Ótrúlega ósvífinn krakki!
Svo munum við líklega spankúlera í Smáralind og skreppa í sundlaugina og út á róló inn á milli.
Hver þarf sólarlönd þegar hægt er að frílista sig í Kópavoginum?

miðvikudagur, júní 22, 2005

Oj barasta!

Einn leiðindafylgifiskur sumarsins er allsherjar hystería varðandi brúðkaup og þá sérstaklega í fjölmiðlum. Brúðkaupsþátturinn Oj er farinn að sjást aftur á Skjá Einum og meira að segja Hús og híbýli eru þvaðrandi um "Brúðkaup í garðinum"
Að ganga í hjónaband er góðra gjalda vert og eins og allir vita er ég búin að því sjálf. En af hverju í ósköpunum er allt undirlagt af þessu? Og afhverju þurfa allar kellingar að vera klæddar eins og marengstertur? Og af hverju þurfa allir að setja sig á hausinn af þessu? Og hvað er með alla þessa "ómissandi" fylgihluti og blómaskreytingar? Þetta er orðinn heljarinnar bisness þar sem allir keppast við að maka krókinn og tilgangur athafnarinnar virðist næstum gleymast í öllum hasarnum. Og hvernig á svo hversdagslífið að standast samanburð við allan glamúrinn?
Mér finnst svo óbærileg þessi múgsefjun sem heltekur þessa litlu þjóð með reglulegu millibili: "Nú eiga allir að búa til náttúrlegt jólaskraut!", "Bleikur og grænn eru litir sumarsins, allir ættu að fríska upp á híbýli sín með þeim", "Allir í útilegu!".
Aaarrrgh!

mánudagur, júní 20, 2005

Tjúttað á Akureyri

Komum að norðan um kvöldmatarleytið.
Hittum Norðanfólkið: Auði og Helga, Kristínu, Birtu Eir og Helga Hrafn, Jón Gest, Gerði og Rebekku Rut, og svo Utanbæjarfólkið: Þórhildi og Guðrúnu Björk, Helgu og Stefán.
Þetta var alveg geysilega fínt og við þökkum innilega fyrir höfðinglegar móttökur og þökkum sérstaklega ungfrú Birtu Eir og ungfrú Rebekku Rut fyrir stórskemmtilegt tjútt á laugardagskvöldið!
Við gistum í afskaplega snyrtilegum bústað í Ytri-Vík á Árskógsströnd og getum mælt með þeirri gistingu.

En í ferðum okkar sáum við þvílíkt aksturslag hjá obbanum af bílstjórunum sem voru á ferð að það hálfa væri nóg. Nú eru tvö ár síðan við síðast fórum norður og eitthvað er mönnum að bregðast bogalistin. Geðveikur hraðakstur og framúrakstur og menn ekkert sérstaklega að spá í hvort einhver umferð er að koma á móti eða ekki. Svo hér fyrir sunnan voru tveir bílar sem kváðust tilheyra "Hnakki racing team" sem sýndu þvílíka ömurlega takta og brutu flestallar umferðarreglur á leiðinni frá Hvalfirði og í bæinn. Tóku fram úr hægra megin, tóku fram úr allri umferðarteppuröðinni á móti gagnstæðri umferð og svo framvegis. Ljótt að sjá.

En hér heima var Hulda alsæl með að komast aftur heim, fara í bað og sjá sína heittelskuðu Tomma og Jenna. Ég hélt nú að hún myndi sofna fyrr miðað við hvað gekk á í dag en mín manneskja var í rúminu sínu í á annan tíma og blaðraði við sjálfa sig og skammaðist á víxl.

Við þökkum aftur og enn gestgjöfum og samgestum kærlega fyrir fína helgi.

fimmtudagur, júní 16, 2005

Lítið á, lítið á!

Ástkær dóttir mín er farin að blogga aftur reglulega svo ég hvet ykkur til að kíkja á síðuna hennar.
Hún er farin aftur á síðuna hjá blogspot og ég er búin að breyta linknum Frumburðurinn í samræmi við það.

miðvikudagur, júní 15, 2005

Aftur á galeiðunni

Jamm, við hittumst aftur stúlkurnar á Vegamótum. Og það voru firn mikil og gaman mikið.
Og spurt er: Guðrún Mary! Hvað ertu að gera næsta mánudag? Svona þegar allir eru á Skerinu og í Bænum?

Annars, dóttirin heldur áfram að bæta á afrekalistann. Í kvöld fór hún upp á Esjuna. Sumarið er varla byrjað og afrekaskráin hjá barninu er þéttpökkuð. Ég held svei mér þá að hún finni næst lækningu við kvefi og almennum lúsafaröldrum. Kannski rétt svona í frístundum á milli þess sem hún leysir vandamálið um hungur hinna þurfandi og finnur varanlega og endurnýtanlega orkugjafa.

mánudagur, júní 13, 2005

Simpansakjóllinn

Í gær var skroppið í hina virðulegu búð, Rúmfatalagerinn. Þar var erindið að kaupa fötu af götukrítum handa Huldu. En í leiðinni var keyptur náttkjóll handa dömunni með mynd af Skellibjöllu á maganum (viðeigandi ekki satt?). Hún hefur nefnilega þann óheppilega sið að klæða sig úr neðripartinum af náttfötunum, henda sænginni út úr rúmin og sefur síðan svoleiðis alla nóttina. Minnsta stærðin var reyndar 98 en við keyptum þetta samt og settum þetta í þvottavélina og þurrkarann til að gá hvort það minnkaði ekki aðeins. Síddinn passaði svo ágætlega, sirka á kálfunum. En handleggirnir, boy oh boy! Ég myndi gjarnan vilja sjá þann krakka sem passar í kjólinn. Ég held svei mér þá að ermarnar hafi verið 30 sm. of langar. Helst að manni dytti í hug að simpansi gæti notað kjólinn með sóma. Málinu var reddað með ermabrettingum en ég verð held ég að draga upp saumavélina og sýna listir mínar í ermastyttingum.
Krítarnar hins vegar slógu í gegn og þær systur eru búnar að fylla svalagólfið af allra handa myndverkum.
Svo tók Valgerður þátt í Kvennahlaupinu á laugardaginn og það er hægt að sjá hana koma í mark ef þið kíkið á fréttatíma Stöðvar 2 frá 11.6. Var víst með þeim fyrstu stúlkan, vel af sér vikið.

miðvikudagur, júní 08, 2005

Allt í rólegheitunum

Skruppum á fund í tilvonandi leikskólanum hennar Huldu í gærkvöldi. Okkur leist bara nokkuð vel á staðinn. En það eru nú samt um tveir mánuðir þangað til ungfrúin stígur þangað inn.
Sigurður var firnaduglegur um helgina og endurbætti stigahandriðið þannig að nú er örlítið öruggara fyrir stubbinn að feta sig upp stigann.
Búið að innrita Valgerði í Háskóla unga fólksins, minna var nú ekki hægt að gera miðað við einkunnirnar sem barnið kom með heim.
Raðhúsafólkið í úthverfinu er kannski búið að ákveða lit á húsið, og örugglega búið að ákveða girðingar. Mikið verð ég fegin þegar þetta er búið.
Valgerður fór í skólann í morgun til að vera í beinni útsendingu til Japan og sjá japönsk börn í beinni útsendingu.
Ég skora á hana að segja frá þessu og vera duglegri að uppfæra síðuna sína.

föstudagur, júní 03, 2005

Ho-hum

Þessi vika hefur ekki verið sem allra best. Heilsan búin að vera upp og ofan en þó bót í máli að eitthvað er þetta allt að lagast, með góðra kvenna hjálp.
Í vinnunni eru hlutirnir aðeins að róast og greinilegt að fólk er aðeins byrjað að kúpla sig yfir í sumargírinn. Ég fer nú ekki í frí fyrr en í júlí en við tökum þó svona mini-break fyrir norðan ásamt Þórhildi og Guðrúnu.
Í úthverfinu er verið að skipuleggja málningarvinnu og sýnist sitt hverjum um liti sem eiga að vera á húskofunum. Vonandi að einhvern lausn finnist svo hægt sé að klína einhverju á veggina og fara að hugsa um eitthvað annað. En það verður ljósara með hverjum degi að einbýli ætti að vera útbreiddara, hver vitleysingur í eigin húsi. Og sumir ættu nú bara að búa í blokk.
Ég nenni ómögulega að elda þessa dagana og þess vegna hefur Siggi ráðið því sem hann vill ráða í eldhúsinu. Það þýðir að oftar en ekki eru grillaðar pylsur í matinn. Eins og allir vita og landbúnaðarráðherra líka, eru pylsur góður og hollur íslenskur matur ;) en kannski er hægt að borða of mikið af þessu (kannski ekki ef maður heitir Hulda Ólafía).
Hvað er eiginlega hægt að borða sem er engin fyrirhöfn og er ekki skyndibitamatur og ekki skyr?