sunnudagur, júlí 31, 2005

Hrukkustöðvunarkerfi

Sá þessa fróðlegu auglýsingu í sjónvarpinu áðan. Nivea Q10 plus með hrukkustöðvunarkerfi. Aldeilis orðskrípi þar og ég hef ákveðnar efasemdir um að hrukkustöðvunarkerfi sé málið.

En það eru til forvarnir gegn hrukkum.
Fyrst og fremst, og þetta er langmikilvægast, passið að velja ykkur foreldra sem hrukkast lítið.
Ef þið hafið klúðrað því er náttúrlega þetta augljósa að reykja ekki, ekki hanga í sólinni í óhófi, drekka vatn og sofa á nóttunni. Kannski hægara sagt en gert stundum.
Og svo á maður að forðast í lengstu lög að eldast, mér skilst að það sé frekar hrukkuaukandi.
En hvað veit maður, kannski þarf maður að koma sér upp hrukkustöðvunarkerfi . . .

Annars hefur rignt um helgina og við höfum notað tækifærið og hvílt okkur. Það á víst að stytta upp á þriðjudaginn og þá þurfum við að bretta upp ermarnar og drífa okkur að klára málverkið.
Svo er vinna á þriðjudaginn fyrir mig, dagmamma handa Huldu og letilíf hjá Valgerði.

fimmtudagur, júlí 28, 2005

Svo þreytt. . .

Við erum búin að vera að mála til ellefu á kvöldin síðustu daga. Valgerður hefur verið með litla varginn á sínum snærum sem hefur ákveðið að vera óþekkari við systur sína en alla aðra.
Ég laumaðist þó frá í Smáralind í dag og keypti Pottþétt 38 handa stóru systur, svona sem umbun fyrir vel unnin störf og að þola árásir litlu systur.
En við erum orðin ÓGEÐSLEGA þreytt á þessu, maður sefur gjörsamlega eins og steinn. Ég vorkenni Sigga að þurfa að vakna til vinnu eftir þetta alltsaman.
Í kvöld klárast framhliðin alveg og ég reikna með að byrja á afturhliðinni.
Svo er reyndar ekki allt unnið því við ætlum að kítta í kringum gluggana og mála svo alla gluggapóstana.
Nefndi ég það að ég er búin að vera með harðsperrur í marga daga?
Held svei mér þá að það verði bara næs að mæta í vinnuna aftur, þamba kaffi og blaðra við kúnnana!
Myndir af herlegheitunum verða birtar þegar við erum búin að mála.

Annars, farið varlega um Verslunarmannahelgina og hafið það gott!

þriðjudagur, júlí 26, 2005

Nokkuð gott. . .þó ég segi sjálf frá.


Fyrri umferð á bakhlið kláraðist í gær. Er þó eftir að skera aðeins á hæstu stöðum.
En ástæðan fyrir þessu góða gengi var sú að ég nennti ekki að bíða eftir því að Siggi væri búin að vinna, enda kom hann ekki heim fyrr en hálf ellefu, heldur fór út og byrjaði að mála sjálf allt sem ég náði til.
Ég er ekki alveg nógu huguð ennþá til að príla upp í stóra stigann en ég náði að gera megnið af bakhliðinni. Svo kom Siggi og rúllaði efstu kaflana. En ég er nokkuð ánægð með afrekið, takk fyrir.
Ég semsagt gerði það sem er fyrir neðan rauðu línuna. Þarf náttúrlega ekki að taka það fram að rauðu línunni er bætt við í tölvu. Svo kemur kallinn snemma í dag, búinn að panta málningu í seinni umferðina og við hefjumst handa við framhliðina á eftir.

mánudagur, júlí 25, 2005

Vinnuvélarnar koma!!


Man einhver eftir Barbapapa þar sem ofangreind setning kom fram? Átti að sjálfsögðu að tákna allt illt og nútímavætt.
En þetta er í tilefni þess að nú eru á bakvið hús hjá mér eitt stykki risastór grafa og eitt stykki risastór vörubíll.
Í síðustu viku komu spekingslegir menn frá bænum, stikuðu út allar lóðir og merktu allt í bak og fyrir. Í morgun komu svo aðrir kallar með fleiri merkitól og fóru að merkja fyrir stíg. Svo komu barasta heljarinnar vinnutæki og þá var friðurinn úti, ekkert meira kúr í bólinu fyrir mig.
Við þurfum víst að fara að hugsa um að setja girðingu fyrir baklóðina, fyrst gestir og gangandi verða á röltinu þarna.

sunnudagur, júlí 24, 2005

Áfanga náð

Fyrri umferð framhliðar var kláruð áðan þrátt fyrir þokuloft og úða.
Kannski fer ég barasta að taka myndir og setja á síðuna svo menn geti nú dáðst almennilega að fegurðinni.
Elduðum handa Óla og Sigrúnu í gær og var bara prýðilega gott, vona ég.
Skruppum svo til þeirra í dag með háþrýstidælu og verkfæri og þá fékk ég, í fyrsta sinn á ævinni að sjá geitungabú (nýuppgötvað) í návígi. Úff, það fór um mig. En mér skilst að þetta hafi verið síðasti dagurinn á jarðríkinu fyrir þessa geitunga.
En. . . nú er kominn Miller Time hér í Skjólsölunum fyrir vaska málara.

laugardagur, júlí 23, 2005

Stanslaust stuð

Guðrún og Þórhildur komu að borða í gær og báru með sér afskaplega mjúka nýsjálenska nautalund. Einnig komu þær með Singstar og þá fórum við loks að skilja af hverju Hulda leggur alltaf lófana yfir munninn á okkur þegar reynt er að syngja fyrir hana.

Tveggja ára vaknaði svo galhress klukkan átta í morgun og var ekkert á því að láta fólk sofa. Horfði á Mary Poppins, hnoðaðist á mömmu sinni og var svo sett í bað. Svo var daman sett í sumarkjól sem hefur skroppið saman á tveimur mánuðum, nær rétt niður fyrir rass, en líklega er þetta þó fröken Hulda sem hefur vaxið. Svo var haldið á Víðivelli að borða hádegismat hjá ömmu og að sporta sig úti á túni.
Nú er stuðboltinn sofandi og fær að lúra pínu fyrir kvöldið, því þá koma Óli og Sigrún og borða hjá okkur.

Akkúrat núna er rétti tíminn til að ná rauðvíninu og súkkulaðisósunni úr nýja teppinu. Enda keypti ég Vanish blettahreinsi áðan þar sem þetta var farið að líkjast grunsamlega auglýsingunum þeirra. Það eina sem vantar er smá mótorolía og varalitur. Nei, nei, ég var bara að grínast, við viljum ekki svoleiðis líka!

föstudagur, júlí 22, 2005

Meira malerí

Nú erum við byrjuð að mála og erum búin að vera að potast í þessu í tvo daga. Siggi reyndar var úr leik í gær þar sem hann var í vinnunni og kom ekki heim fyrr en seint. Ég málaði kanta og uppskar auma handleggi þar sem það er erfitt að drulla málningu á hraunaðan kofann. En er þó batnað í dag en er í staðinn komin með höfuðverk. Hélt það væri af kaffileysi og er búin að drekka hafsjó af kaffi í morgun, en líklega er þetta málningin sem er að gleðja mig. Verst að það fylgdi því ekkert "high" á meðan ég var að mála. Svo er maður komin með verkamannabrúnku af því að hanga úti allan daginn.
Eiginmaðurinn kemur heim snemma í dag og við hefjum sullið aftur.
Ég hins vegar ætla að taka til áður en verður of heitt innandyra og svo ætla þær Njarðvíkurfrænkur sem eru eftir á landinu að kíkja í heimsókn í kvöld.

Svo barst loksins í gær sending frá Amazon, með Harry Potter innanborðs og fleiri góðum bókum.
Fékk meðal annars bók eftir Juliu Cameron 'Walking in this world' sem lofar góðu. Fyrir átti ég 'The Artist's Way' sem er óhætt að mæla með til að opna hugann oggulítið, líka fyrir þá sem ekki teljast opinberir listamenn.

Svo kann ég litla en skemmtilega sögu af stiganum Elíasi en mun ekki birta hana opinberlega.

miðvikudagur, júlí 20, 2005

Jafnvel komið sumar

Í gær var þvílíkur steikjandi hiti að það var ólíft innanhúss.
Og um kvöldið var lítið hægt að opna glugga af því það var verið að háþrýstiþvo að aftan og sílanbera að framan. Best hefði verið að vera allsber svei mér þá.
Við mæðgurnar vorum mest utandyra í gær á röltinu, versluðum ís og djús í Salagrilli og löbbuðum um hverfið.
Við hittum Huldu Kristínu, Rebekku og Arnald og sáum nýja húsið þeirra. Glæsilegt hús og við óskum þeim til hamingju með það. Þau hafa það fram yfir okkur að þau eru komin með baðkar!
Við bættum úr baðkarsleysinu með því að fara í bað með fjölda annarra Kópavogsbúa, semsagt í sund. Huldu þótti mest gaman að ýta systur sinni ofan í laugina, veit ekki hvort barnið er að reyna að losna við samkeppnina.
Svo sat sköllóttur maður við hliðina á okkur í heita pottinum og Hulda var nú á því að hún ætlaði að heilsa upp á þennan kall, sennilega af því hann hafði svipaða hárgreiðslu og pabbi hennar. Ég beindi þó áhuga hennar að öðrum hlutum enda ekki líklegt til vinsælda að fara að safna sköllóttum köllum!
Við sáum svo hér af svölunum þegar fullt útkall af lögreglu, slökkviliði og sjúkrabílum þaut fram hjá og upp í Rjúpnasali. Stóð í blöðunum í morgun að rúða á 13. hæð hefði sprungið þar vegna hita og brotunum rignt niður en menn héldu að það hefði orðið gassprenging.
Nú er annar heitur dagur í uppsiglingu, veit ekki hvað við gerum í dag til að soðna ekki, veit þó að við byrjum að mála framhliðina í kvöld.
Sólarkveðjur úr Kópavoginum.

þriðjudagur, júlí 19, 2005

Taka tvö

Ég var búin að skrifa býsn af orðum í gær og ætlaði að fara að pósta þau hingað en. . . helv. ADSL tengingin var þá HORFIN. Síminn er semsagt að uppfæra kerfið hjá sér og ég var netlaus í sólarhring. Og þegar maður reyndi að ná sambandi við þjónustuverið slitnaði bara sambandið þannig að það hafa fleiri verið í sömu sporum.

Á föstudaginn borðuðum við hjá sómahjónunum Rannveigu og Pekka og fengum góðan viðurgjörning og frábæran félagsskap.
Reyndum svo að mestu leyti að halda okkur heima og vera stillt yfir helgina.
Eitthvað brast þó á sunnudaginn og við fengum nóg af drullumakinu á stofuteppinu og fórum og keyptum mottu í IKEA til að breiða yfir ósómann.

En, um helgina bilaði þriðja græjan á heimilinu. DVD spilarinn var bilaður fyrir og CD spilarinn var líka bilaður en á laugardaginn bilaði láns-DVD spilarinn. Við fórum í BT á sunnudaginn og horfðum löngunaraugum á oggulítið heimabíósett en vorum of mikilir eymingjar til að gera neitt í því. Við horfðum líka löngunaraugum á svaka stórt Sony plasmasjónvarp en skynsemin ræður þar og svoleiðis verður ekki keypt fyrr en annaðhvort það lækkar eða gamla sjónvarpið deyr (7,9,13). En á sunnudagskvöldið fékk húsbóndinn nóg af þessu stússi og við mættum í gær í BT og keyptum hið umtalaða heimabíó á 30.000 kall. Á plastið, nokkuð sem við annars aldrei gerum. Og hellingur af úreltum tækjum er nú komið úr stofunni og hingað niður í anddyri. Ég krukka kannski í græjurnar og athuga hvort ég geti eitthvað gert til að bjarga málunum. Verst er að maður er í vandræðum með alla þessa hátalara, þarf að skoða það mál betur.
BT menn reyndar gleymdu að græja spilarann svo hann væri fjölkerfa en yours truly gat bjargað málunum og er afar stolt af sjálfri sér.

Svo kenndi frúin í næsta húsi mér að háþrýstiþvo og ásamt henni háþrýstiþvoði ég framhliðina á húsinu. Afturhliðin verður þvegin í dag, framhliðin sílanhúðuð í kvöld og á morgun er hægt að hefja málningarsullið, svo lengi sem veður leyfir. Vona að þetta gangi hratt og vel.

föstudagur, júlí 15, 2005

Kannski fullmikið

Ég var að lesa frétt á BBC um að breskum múslimaleiðtoga hafi verið neitað um aðgang að landi hinna frjálsu og hugrökku án þess að fá haldbæra ástæðu fyrir synjun dvalarinnar. Nú veit ég ekki neitt um fortíð þessa manns en rennir þó í grun um að taugaveiklun í kjölfar atburðanna í Bretlandi eigi einhvern hlut þarna að máli, svipað og gerðist í kjölfar 11. september. Þetta setur þær milljónir manna sem búa í Evrópu og teljast til þessa trúarhópar sennilega í slæma aðstöðu.
Obbinn af þessu fólki er fætt og uppalið í álfunni og einungis lítill hluti aðhyllist kennisetningar ofsatrúarmannanna. Svona rétt eins og einungis lítill hluti af þjóðfélaginu hér á Íslandi aðhyllist öfgakenndar útfærslur á kristnum kenningum.
Og morð samræmast ekki múhameðstrú frekar en hjá öðrum trúarbrögðum.
Mér líkar vel fjölbreytnin í mannlífinu sem er hér í Evrópu. Það er sérkennilegt að Bandaríkjamenn, sem eru samsettir af mörgum þjóðarbrotum og þar af leiðandi trúarhópum, skuli ganga fremst í flokki að stuðla að útlendingafælni og fordómum.
Hræðsla og fordómar eru undirrótin að illskuverkum mannkynsins. Hver þarf að óttast helvíti eftir dauðann þegar mannkynið er svo andskoti lunkið að útbúa það hér í lifanda lífi?

þriðjudagur, júlí 12, 2005

Í fríi en samt ekki

Áður en lengra er haldið vil ég að ákveðin atriði komi fram.
Þetta sem gerðist í London finnst mér hæpið að kalla hryðjuverk. Þetta eru fjöldamorð. Vísvitandi aðgerð til að svipta saklausa borgara lífinu. Og það heitir morð þegar gíslar eru myrtir. Hvorki "aftaka" né "líflát". Að kalla hlutina ekki sínum réttu nöfnum dregur úr vægi þeirra.

En helgin. . .
. . .var viðburðarrík. Auður og Helgi komu á föstudagskvöldið og gistu yfir helgina. Þau hefðu alveg mátt vera lengur. Helgi Hrafn var skírður með gusugangi miklum og svo kom stórfjölskyldan hingað um kvöldið og hittist. Svaka gaman að fá alla þessa gesti og við þökkum kærlega fyrir okkur.

Erla fór í dag til USA, Guðrún er í Frakklandi og Lilja ekki komin til baka úr sólinni. Mér þykir fámennt á skerinu, verð að segja það.

Fríið gengur sæmilega. Er þó ekki búin að gera eins mikið og ég hefði viljað gera. Til að mynda þarf ég virkilega að taka hér til í þessu ágæta herbergi mínu. Bara svo hægt sé að föndra við skemmtilegu hlutina hérna. Var að eignast fulla útgáfu af mínu góða teiknimyndaforriti en vantar tíma til að vinna í því. Merkilegt að hafa ekki tíma í fríinu, ekki satt?
En það er svona þegar maður er með litla stubbu á heimilinu sem þarf athygli manns.

Lofa engu um hvenær ég skrifa næst, myndi bara brjóta það.