föstudagur, september 30, 2005

Um skipulag og fleira

Annað slagið les maður í blöðunum um skoðanir fólks sem mærir miðbæinn.
Miðbærinn er vissulega ágætur og ég hef eytt drjúgum hluta af ævi minni þarna í skóla og vinnu og almennt bæjarráp og einu sinni búið þarna um nokkurra mánaða skeið. En nú er þetta orðið liggur við eins og trúarbrögð sem fara fram á kostnað annarra hverfa höfuðborgarsvæðisins. Eða 101 fasismi.
Um daginn var til dæmis Hallgrímur Helgason að tala um hvað það væri frábært að labba Laugaveginn og sjá alltaf eitthvað nýtt og hvað það væri frábært að búa í miðbænum en jafnframt ömurlegt að búa til dæmis í Fossvoginum eða öðrum úthverfum. Þá geri ég ráð fyrir að önnur hverfi en 101 falli undir skilgreininguna "úthverfi".
Fossvogurinn og hverfi byggð á svipuðu tímabili eru reyndar ekki mikið fyrir augað en þegar þau voru í byggingu var eftirspurn eftir húsnæði gríðarleg og kannski hálfleiðinleg stefna í arkitektúr og skipulagi ríkjandi.

Guðmundur Andri Thorsson skrifaði svo einhvern tímann í vetur að það væri vita vonlaust að fara eitthvað út að ganga í Kópavogi, hvað þá að finna kaffihús sem hægt væri að fara á. Mér er spurn hvort hann hafi einhvern tímann prófað annan hvorn hlutinn, því bæði er hægt að ganga í Kópavogi og hafa gaman af og líka er hægt að finna mörg ágætis kaffihús, þó án miðbæjarrónanna.

Ég skil ekki tilganginn með þessu bulli. Ef 130.000 manns tækju mark á þeim félögum og hrúguðust í 101 yrði ástandið frekar andstyggilegt. En kannski er það bara gáfaða og fína fólkið sem er þess verðugt að búa í 101. Hinir bjánarnir geta verði í "Úthverfunum" frá 103 og uppúr. En það þýðir þá að eini tilgangurinn með svona skrifum er að níða niður náungann og heimili hans.

Skipulagsfræðingar keppast svo hver við annan að dásama þéttingu byggðar og tala um hvað höfuðborgarsvæðið sé púkó og dreift, svona sé það ekki í höfuðborgum erlendis og svona ætti það ekki að vera hér.
Það er góðra gjalda vert að þétta byggð og þarft verk til að viðhalda og endurnýja borgina. En af hverju skammast menn sín svona ógurlega fyrir að borgin skuli ekki vera alveg eins og borgirnar á meginlandi Evrópu, þar sem þeim finnst svo huggulegt að droppa inn á kaffihús og fá sér kaffi.
Þegar menn eru að ferðast um í slíkum borgum, fara þeir þá einhvern tímann út í úthverfin? Vita þeir yfirhöfuð hvernig þau líta út og hvað fer fram þar?

Kannski er það bara séreinkenni á Reykjavík og nágrannasveitarfélögunum hvað byggðin er dreifð. Kannski er það hinn sértæki sjarmi borgarinnar. Kannski viljum við bara hafa það svona og líkar það jafnvel mjög vel.

Menn nefna sig gjarnan Miðbæjarrottur og með nokkru stolti. Hvað er ég þá? Borin og barnfædd úthverfamús? Úthverfatófa, miðað við hvað mikið er af rebbum í kringum hverfið mitt?
Fjandinn fjarri mér að ég fari að líkja mér við nagdýr sem ber smitsjúkdóma.

En ég veit að ég vil ekki ala mín börn upp í miðbænum. Ég man þegar maður var að þvælast í bænum með Valgerði sem smákrakka. Ég man eftir ágætri konu sem fannst það viðeigandi að toga í tíkarspenana á barninu og tauta "Sæt stelpa." Og ég man eftir rónanum sem tjáði smábarninu að jólin og allt þeim meðfylgjandi væri "Djöfuls hjóm!" einhverju sinni þegar við mæðgurnar vorum á spásseritúr að skoða jólaljósin og skrautið í búðargluggunum. Og með fullri virðingu fyrir pólitískri rétthugsun og rétti fólks til að hrynja í það þá langar mig ekkert sérstaklega til að börnin mín séu vitni að slíku óumbeðið. Það er miðbæjarrómantík sem ég skil ekki.

En núna, eftir að miðbærinn hefur fengið að grotna niður í mörg ár þá er stefnan sú að rífa bara annan hvern hjall og byggja hallir, svona til að reyna að snúa eyðileggingunni við.
Stórhuga hugmyndir sem koma reglulega og fjalla um það að fjarlægja eignir annars fólks og byggja bara nýtt. Minnir mig á liðið í Innlit/Útlit sem rífur allt út úr íbúðum og fyllir þær af nýju dóti. Þetta er núna í gangi niðri í bæ og svo eru svona hugmyndir líka í gangi í Garðabæ þar sem menn vilja fjarlægja 2ja milljarða hús til að rýma fyrir nýjum miðbæ. Fantasíur arkitekta. Skítt með það að eigendur hússins séu að nota það og vilji ekki endilega færa sig. Á Garðabær tvo milljarða og meira til að bæta þeim tjónið og kosta nýtt hús og flutninga? Er einhver trygging fyrir því að umrætt fyrirtæki myndi vilja vera áfram í bænum ef það á von á að vera úthýst hvenær sem er ef skipulag breytist.

Það er eins og menn séu komnir svo rækilega fram úr sjálfum sér í þessum pælingum að þeir eru farnir að koma aftan að sér þegar upp er staðið.
En kannski er það stuð að taka sjálfan sig í kakóið.

miðvikudagur, september 28, 2005

Búksorgir

Til mótvægis við þjóðmálaumræðuna í síðasta pistli þá verður þessi pistill nokkuð persónulegri.

Um leið og hitinn fer niður fyrir 10 gráður á Celsius þá fæ ég þurra húð og byrjar að klæja. Reyndar tek ég eftir því að það gerist yfirleitt á sama tíma og exemið hennar Huldu Ólafíu lætur á sér kræla aftur. Þannig að obbinn af vetrinum fer í að smyrja mig og hana með ýmsum kremum og smyrslum til að halda kláðanum í skefjum. Það virðist ekki alveg hlaupið að því að fá góð krem til þessara nota. Ótrúlega mikið er framleitt af þunnu glundri með lykt sem gengur undir nafniu 'body lotion' og gerir ekki neitt af viti. Ekki rass í bala, svo notað sé orðalag er hæfir viðfangsefninu. Svo er líka til glundur án lyktar sem er jafngagnslaust en kannski minna ertandi, því til að bæta gráu ofan á svart geta mixtúrurnar með huggulegu lyktinni valdið meiri pirringi en hinar. Svo eru til í apótekinu karbamíð krem sem virka jú, en ef maður er með mjög þurra húð þá svíður þetta eins og hráki andskotans. Á Huldu virkar stundum ProDerm exemfroða en hún gerir ekki squat fyrir mig.
Við höfum líka notað hydrófíl en maður verður þá að vera lukkulegur með að svína út fötin sín og rúmfötin þar sem þetta getur verið í klístraðri kantinum.
Engin einföld lausn á þessu en ef þið vitið um eitthvað brilliant þá endilega deilið þeim upplýsingum.

Mér reyndar tókst að gera illt verra með því að fá mér nýja peysu í Zöru um helgina. Hún er 30% ull og mig er búið að klæja brjálæðislega undan henni í dag.
Valgerður kom með það húsráð að frysta peysuna og það dugði eitthvað en bara ekki nóg.
Svo var vinnufélagi minn að fræða mig um hvernig þræðirnir á ull litu út í smásjá og það eru víst einhverjir litlir angar og krækjur á ullinni sem eru sökudólgarnir.
Þannig að ég fór út í búð og keypti svona dúndur mýkingarefni (sem er örugglega efni í nýjan kláða!) og þvoði drusluna í þeirr von að hún skánaði eitthvað. Vonandi, því þetta er fín peysa. Svo keypti ég nefnilega líka frænku hennar í öðrum lit og öðru sniði, en úr sama #$&%# efninu.
Annars verð ég bara að fara með þær á eitthvað nærtækt trampólín og semja við börnin í hverfinu um að hoppa á druslunum þar til þær hlýða.

Svo er ég líklega ekkert sérlega gott efni í drykkjumann, hef bara ekki heilsuna í það. Búin að standa í svona bjór og léttvínssulli um helgina: Klanið í heimsókn á laugardaginn með mexíkönskum mat og bjór, smá vínsull með sunnudagsmatnum og rauðvín með nautakjötinu í gærkvöldi af því eiginmaðurinn átti afmæli.
Ekkert af þessu sem veldur beinni vanheilsu daginn eftir, mér tókst ekki að ná mér í þynnku, en ég verð afskaplega þreytt og lúin á þessum bisness og langar bara að sofa. Finn að ég er ekki upp á mitt besta.
Kannski er hófdrykkja best í hófi?

sunnudagur, september 25, 2005

Þvílík læti!

Eitthvað er skringilegt í gangi hjá Hr. Baugi og félögum.

Ég segi enn og aftur: Af hverju er ekki nóg að þetta fari fyrir dómstóla og sé dæmt þar eins og önnur mál, ef það þá á annaðborð er dómtækt eins og áhöld eru um núna?
Fyrir mína parta er ég tilbúin til að leyfa þeim að njóta efans. Þið vitið, allir menn eru saklausir þar til sekt þeirra er sönnuð.

Mér finnst hins vegar hamagangurinn í liðinni viku ekki vera þessu ágæta fólki til framdráttar, hvað þá stjórnmálamönnunum sem ákváðu að taka þátt í þessari vitleysu.

Hvers vegna öll þessi læti í Fréttablaðinu um helgina? Var málinu ekki vísað frá Héraðsdómi í síðustu viku?
Og hvað í ósköpunum á það að þýða að birta einkasamskipti fólks í blöðum? Augljóslega tekin ófrjálsri hendi einhvers staðar.
Mér sýnast fleiri málaferli vera á sjóndeildarhringnum.

Sérkennileg líka viðbrögð OgVodafone sem vistuðu téðan tölvupóst. Í stað þess að skoða vandlega sín mál til að útiloka að umræddur þjófnaður hafi farið fram hjá þeim, taka þeir frekar þann pól í hæðina að hóta viðskiptavininum sem er ekki sáttur við að hans einkagögn rati í blöðin.

Gleymist alveg að halda við þeim trúnaði og því trausti sem þarf að vera til staðar fyrir fyrirtæki Baugs, tala nú ekki um vegna þess að þorri almennings eru kúnnar þeirra?

Mér þykir það leitt, en í bili er kannski bara ekkert skemmtilegast lengur að versla á vissum stöðum.

miðvikudagur, september 21, 2005

Aldrei friður

Enn er nóg að gera á þessum vígstöðvum (það koma alveg ósjálfrátt allar þessar tilvísanir í hernað, ég sver það!).
Hulda er aðeins að settlast núna í rútínu og við þar af leiðandi aðeins líka að ná okkur oggulítið á strik.
Valgerður hefur svo mikið að gera að maður sér hana varla og ef frökenin skeinist til að blogga um það getur hún örugglega gert betur grein fyrir manndrápsdagskránni sem hún er búin að setja sér.
Búið að setja upp fín ljós í herberginu hennar Huldu og setja huggulega hillu fyrir dótið hennar. Það kom til af því að ungfrú Hulda var farin að standa upp á skrifborðinu sem var inni hjá henni og okkur líkaði ekki alls kostar slíkir loftfimleikar. Einnig er farin að sýna sig þörf á nýju rúmi þar sem frökenin er farin að reyna sig við að príla úr rimlarúminu.
Nú eigum við eftir að setja upp vegglampa handa henni og þá fer herbergið hennar að vera virkilega kósí.
Við eigum eftir að setja upp þau ljós sem við keyptum sjálf, erum ekki alveg búin að hafa þrek í það ennþá en ætlum þó að leggjast í smá málaravinnu á tveimur veggjum sem téð ljós eiga að fara á.

Og viti menn, það er mikið, mikið, mikið að gera í vinnunni, mér sýnist að með dauða VHS bandanna sé allt heila gillimojið að koma inn til mín. Svo er Iceland Airwaves í næsta mánuði og það eru meiri líkur en minni á að það jafngildi vertíð í mínu starfi. Um sama leyti hefst jólatörnin sem endist fram að... (giskið á það!) Jáááá. . . fram að jólum.

Ætli ég geti fengið róandi strax hjá heimilislækninum, svona í tilefni jólanna?

fimmtudagur, september 15, 2005

Í stuði með Guði!

Í kvöld fórum við á fund í Hjallakirkju með prestinum okkar, tilvonandi fermingarbörnum og foreldrum þeirra.
Þegar prestinum fannst mannsskapurinn orðinn eitthvað þungur á brún svippaði hann fram gítarnum og lét okkur syngja um spóa og rjúpur og gera hljóð og hreyfingar. Svaka stuð í salnum á meðan fólk hermdi eftir köttum, hundum og mannfólki og söng og klappaði og skemmti sér konunglega.
Svo talaði hann meira, sýndi powerpoint myndir og stofnaði svo aftur til söngs, í þetta sinn aðeins ljúflegri. Bað bæna og bauð svo upp á kaffi og kex.
Líst vel á þennan bisness. Sem er eins gott því okkur er uppálagt að mæta í bunka af guðsþjónustum í vetur ásamt Valgerði. Mér sýnist að okkur muni ekki leiðast.

þriðjudagur, september 13, 2005

Og svo. . .

Hér hefur ýmislegt verið starfað þó ekki sjáist það á heimilishaldinu hahaha! (Þetta var svona brjálæðislegur hlátur útvinnandi úthverfahúsmóður sem meikar þetta ekki lengur!)

Við til dæmis fórum í Byko og versluðum fullt af ljósum fyrir híbýli okkar, fundum flísar fyrir baðherbergin og eldhúsið og keyptum bolta til að festa þakrennurnar. En að sjálfsögðu erum við enn ekki búin að festa herlegheitin á sína staði.
Skýringin felst að einhverju leyti í því að við vorum að þessu á sunnudaginn og þegar við loksins dröttuðumst heim var það alveg fjarri manni að fara að gera eitthvað svona DIY.

Í gærkvöldi skrapp ég svo á Vegamót að hitta Erlu og Lilju, svona rétt áður en fröken Erla fer aftur til USA að kenna lærissneiðum sínum. Það var voða gaman en mikið vantaði Guðrúnu Mary sem mér þó skilst að komi heim í næsta mánuði.

Hulda Ólafía er enn með einhverjar tiktúrur í sambandi við svefn og fleira þannig að einhver þolinmæðisvinna er framundan.

Og unglingurinn fór í kvöld að sjá prins drauma sinna í 'Charlie and the Chocolate Factory'
Ég vildi að ég hefði þrek og tíma til að horfa á heila bíómynd.
Kannski býður Skúli einhvern tímann?

Hahahahahaha......
(Cue góðu mennirnir í hvítu sloppunum!)

laugardagur, september 10, 2005

Eftir langa mæðu

Ég biðst forláts án afláts að hafa ekki haft uppi æsispennandi pistlaskrif í nokkurn tíma.
Þar er um að kenna smá róti sem varð á okkar fólki þegar það hóf nám á fyrsta skólastigi menntakerfisins.
Það er að segja, það tók smá tíma fyrir Huldu Ólafíu að læra nýjar rútínur í sambandi við svefn og almennt að sætta sig við að það væri hægt að sofa á leikskóla. Dagana sem okkar manneskja svaf svo ekki í leikskólanum sofnaði hún á leiðinni heim ef hún var í kerru eða þá í sófanum heima ef hún var skikkuð til að ganga heim. Svo var ekki möguleiki að vekja ungfrúnna fyrr en henni hentaði og þá fylgdi í kjölfarið að hún vakti meira en góðu hófi gegndi fram eftir nóttu. Ég hélt svei mér þá að ég væri að fá svona svefnsýki þar sem ég dottaði alltaf ef ég mögulega gat, svaf í sófanum og átti í mestu erfiðleikum með að halda haus í strætó.
En nú er allt að færast í eðlilegt horf og undirrituð farin að sofa þá líka meira á nóttunni.
Svo hefur verið mikið annríki í vinnunni bæði fyrir sjávarútvegssýninguna og svo fyrir einhverja vest-norden ferðamálaráðstefnu sem annar hver kjaftur virðist vera að fara á.
Heimilið hefur svona beisiklí rotnað á meðan á þessu hefur staðið en mér tókst að taka pínu til í dag með hjálp Valgerðar og með engri hjálp frá Huldu sem bara rótar til.
Hún er reyndar farin að taka saman kubbana sína þegar hún er búin að leika sér með þá sem mér finnst alveg snilldarþróun. Greinilega gott að vera í leikskóla.

Svo, ef einhver vill búa við hliðina á mér þá er húsið við hliðina á okkur til sölu á einungis 42,9 milljónir.