þriðjudagur, mars 21, 2006

Hulduherinn strikes again!

Nú er hægt að fullyrða það að heimilið sé í algjöru uppnámi og yours truly líka.
Spennandi að vita hvort það hnoðast eitthvað saman fyrir fermingu.
Systurnar úr Njarðvík hafa skipst á að fara með Huldu Ólafíu í bíó síðustu tvær helgar og sportað með hana um bæinn á meðan við höfum baslað við að setja saman heimilið aftur.
Í gær komu svo Helga systir og Hulda Katrín eins og frelsandi englar. Helga verkstýrði styttingu og földun á gluggatjöldum og Hulda Katrín verkstýrði Huldu Ólafíu, lék við hana, tróð í hana pizzu og endaði með því að baða gripinn og klæða hana í náttföt. Þegar þær fóru um tíuleytið héldum við áfram framkvæmdum og að lokum máluðum við Siggi baðherbergið, fyrri umferð. Vöknuðum svo eldsnemma í morgun og máluðum seinni umferð. Núna er ég gjörsamlega úldin, kallinn er í trésmiðjunni að klára þrepin á stigann en við megum ekki við því að leggjast alveg í kör strax.
Þannig að eitthvað verður pínu bjástrað í kvöld. Reyni samt að sofna skikkanlega svo ég verði ekki barasta lasin á laugardaginn.
En til kvenpeningsins í fjölskyldunni: Þúsund þakkir og trúlega drykkir líka!

föstudagur, mars 17, 2006

Stóra barnið mitt á afmæli í dag!

Valgerður er orðin fjórtán ára, ótrúlegt hvað tíminn líður.
Heimilið er í rúst sem fyrr en það verður samt eitthvað aðeins reynt að dekra ungu konuna. Hún fær í það minnsta að velja matinn í kvöld.
Og ætli foreldrarnir beri ekki gjafir í gripinn að auki.
Til hamingju Valgerður!!!

mánudagur, mars 13, 2006

Með sag í augunum (og örugglega á fleiri stöðum!)

Við erum fullkomlega úrvinda eftir síðustu viku en það er þó búið að parketleggja allt nema stigann sem þarf að sérsmíða í.
Eigum enn eftir að endurraða ýmsu dóti en það er þó huggun harmi gegn að tölvan er komin í gagnið.
Mér finnst ég gæti sofið endalaust og svo er ég sannfærð um að ég sé með sag í öðru auganu!
Svei mér þá ef ég hryn ekki barasta í það að fermingu lokinni eins og aðrir góðir alkar og ég held líka að ég ætlist til að fá góða hjálp frá mínum nánustu.
Þið vitið hvað ég er að tala um systur(þá meina ég allar systur)!
Happy hour, þið vitið!

Að þeim orðum sögðum þá óska ég systur minni, henni Auði Eir, til lukku með nýju blóksíðuna. Hún er góður penni og ég er búin að bæta henni í tenglana hér til hægri.
Svo lumar hún á snilldar spænskum uppskriftum til að gleðja sálirnar. Ég hins vegar eldaði gómsætar pylsur áðan, það er öll mín eldamennska þessa dagana, jú og ég rista brauð stundum á morgnana.

Nú er víst farið að vera brýnt að svæfa unga dömu og fara svo og hnoða saman einhvers konar boðskortum.
Bæjó í bili.
Húsmóðirin í Kópavogi.

þriðjudagur, mars 07, 2006

Allt í rúst!

Nú eru vaskir menn að starfa í parketlögnum. Skilst að það gangi ágætlega en heimilið er í kleinu á meðan.
Heimsóttum tengdamömmu í gær svo við gætum aðeins um frjálst höfuð strokið og dæturnar fara þangað aftur í dag. Sjálf er ég að vinna til 18:00 og sæki síðan gripina ásamt Sigga. Pizza aftur í dag? Veit ekki...
Við drógum samt fram sófa í gær og horfðum á Wallace og Gromit bíómyndina.
Frábær, frábær, frábær snilld.
En ég held að Hulda Ólafía hafi mætt í leikskólann með sag í hárinu. Bara að grínast, ég greiddi það úr áður en hún fór í leikskólann.
Parketkveðjur úr Kópavogi.

laugardagur, mars 04, 2006

Spýturnar komnar í hús!

Parketið kom í gær og liggur nú í stafla hér í holinu. Stór bunki af því sem heitir "Eik family" og kemur frá einhverju Eystrasaltslandi.
Þannig að nú er síðasti dagurinn hjá ógeðslega gólfteppinu í stofunni. Spurning um að dokumentera óþverrann áður en hann fer í sína hinstu ferð í Sorpu.
Gæti verið efni í prýðilega og heldur óhuggulega ljósmyndaseríu.

Hulda er komin á Barbie flipp og nú er Barbie dót út um öll gólf. Martröð að taka þetta saman en hún skemmtir sér konunglega yfir þessu.
Helgin mun fara í tiltektir,draslhendingar og að gera klárt fyrir parketlögn á mánudaginn. Heimilið verður rjúkandi rústir í nokkra daga sýnist mér.

Skrapp í gær á Maður Lifandi og borðaði hádegismat með Guðrúnu Mary. Ótrúlegt magn þar af ljóshærðum, krumpuðum, flottkellingum í drögtum. Þetta var eins og súrrealískur draumur þar sem maður er lentur í Innlit Útlit þætti. En maturinn var góður og félagsskapurinn líka.
Ég þarf greinilega alvarlega að athuga að koma mér upp ljósum strípum, anorexíu og aðsniðinni dragt. Sýnist það vera lykillinn að lífshamingjunni.
En sennilega er ég of lítil svo ég er trúlega búin að tapa fyrirfram.

Horfði á næringarþáttinn á Skjá einum á þriðjudaginn. Fannst þetta ekki alveg vera að gera sig enda skilst mér að landlæknir og næringarfræðingar séu eitthvað farin að ybba gogg yfir þessu. Það er ekkert að því að bæta mataræði sitt en þegar menn segjast geta læknað efnaskiptasjúkdóma og fleiri krankleika þá er fólk farið að seilast dálítið langt.
Í það minnsta væri forvitnilegt að vita hvað innkirtlalæknirinn segir um þetta.
Undirrituð er reyndar í þeim pælingum að lagfæra mataræði og almenna heilsu en ég vil gera það á mínum forsendum, svo ég viti og skilji hvað ég er að gera.

Jæja, ég er farin að róta í hrúgum heimilisins með það að markmiði að minnka ruslið. Kannski fær maður bara Heiðar og Margréti í heimsókn til að aðstoða!

Hafið það gott krúttin mín.