laugardagur, mars 26, 2005

Gleðilega páska

Sendum hugheilar páskakveðjur til vina og vandamanna um heim allan. Eða er ekki þannig sem þetta er sagt í jólakveðjunum?
Hér á bæ verður páskadagurinn tekinn með trompi, með súkkulaðiáti á heimsmælikvarða.
Verði ykkur að góðu!

fimmtudagur, mars 24, 2005

Helgi Hrafn er mættur!

Innilegar hamingjuóskir til Kristínar, Sigga og Birtu með nýja fjölskyldumeðliminn hann Helga Hrafn.
Og hamingjuóskir til ömmu og afa frá okkur öllum.

sunnudagur, mars 20, 2005

Pálmasunnudagur

Hér hefur helgin snúist um afmæli fröken Valgerðar.
Í gær voru til að mynda 10 stk. af stelpum hér á heimilinu að borða pizzu, horfa á video og almennt með havarí og læti. Allt fór þó vel fram og afmælisbarnið skemmti sér hið besta.
Engin kökuboð voru skipulögð þar sem ég nennti ómögulega að baka nokkurn skapaðan hlut þannig að fjölskyldan kom bara við snemmsíðdegis, fékk kaffi, brauð, ost og þess háttar kruðerí, svona óformlega sem var bara afar fínt.
Það fer þó ekki hjá því að maður sé örlítið þreyttur eftir þessa helgi og þarf hreinlega bara að skreppa í vinnuna til að jafna sig.
Svo nálgast nú páskafríið og bara næstum því komið vor, ekki síst af því hitinn úti er núna tólf stig!

fimmtudagur, mars 17, 2005

AfmælisValgerður...

...fékk morgunmat við kertaljós með nýbökuðum bláberjamuffins.
Svo er að sjá hvort nýjir fjölskyldumeðlimir bætist við í dag í Baunalandi og fái einnig þennan fína dag ásamt Valgerði og Kristínu Helgadóttur eldri.

Og til Guðrúnar Mary, til hamingju með St. Patreksdag!

þriðjudagur, mars 15, 2005

Tímarugl

Ég er búin að vera í skrítnu tímarugli síðan ég kom heim frá Tékklandi.
Hundþreytt í nokkra daga og svo hefur eitthvað breyst því ég er farin að geispa upp úr tíu á kvöldin og er vöknuð á milli sjö og átta á morgnana án klukku. Þar sem ég er illræmd B manneskja er þetta nokkuð óvenjulegt fyrir mig.
Hlýtur að brá af mér fyrr en síðar.
Annars fengum við hjónin svona skyndiveikindi í gær, hrikalega kalt (ég sver það, hitinn var kominn niður fyrir 36 gráður), bein og liðverkir og alger aumingjaskapur. Það bráði svo af manni á minna en sólarhring þannig að þetta var ekki einu sinni almennileg Flensa, bara svona flenslingur.
Svo vér mættum í vinnuna í morgun, að vísu leið mér eins og ég væri öll lemstruð fram eftir degi, en núna er ég bara nokkuð góð.
Fyrir utan að ég bara VERÐ að fara að sofa núna.

sunnudagur, mars 06, 2005

Hér sé snjór!

Dagurinn í gær fór í að skoða kastalann og við kíktum inn í rosalegustu dómkirkju sem við höfum séð, Dómkirkju heilags Vitusar.
Svo tókst okkur að ganga frá kastalanum í öfuga átt og í stað þess að ganga aftur að miðbænum þá fórum við lengra frá. Fundum samt fínan pöbb þar sem við borðuðum kartöflukökur með alls konar kjöt og ostmeti og drukkum bjór. Svo fórum við og skoðuðum verslanir í Andel og enduðum á því að borða á Corleone sem menn segja með bestu pizzustöðum. Það er engin lygi.
Í dag gengum við niður í bæ og komum við í Municipal húsinu og drukkum kaffi á kaffihúsinu þar sem allt er í Art Nouveau stíl. Maður segir bara eins og unglingarnir "Gekt!"
Í dag var kalt og snjókoma en afar gaman að vera á ferli og gaman að sjá borgina svona.
Svo er bara einn dagur enn og þá komum við heim!
Kveðjur úr kuldanum.

laugardagur, mars 05, 2005

Ferðasagan hingað til

Hér erum við í Prag og höfum það fínt þrátt fyrir kuldann. Höfum drukkið býsnin öll af Pivo sem er tékkneska orðið yfir bjór.
Við hófum semsagt ferðina á miðvikudagsmorgunn, illa sofin eftir að hafa einungis sofið í einn tíma yfir nóttina. Svo þegar sest var út í vél, brottfarartíminn runninn upp er okkur tjáð að vegna snjókomu í Danmörku sé ekki hægt að fara strax af stað. Við semsagt byrjuðum á því að sitja í 90 mínútur í vélinni á hlaðinu við Leifsstöð.
Þegar til Kaupmannahafnar var komið var klukkan þar af leiðandi orðin það margt og veðrið það leiðinlegt að við treystum okkur ekki til að fara niður í bæ, sóttum bara miðana okkar hjá CSA og tékkuðum okkur inn. Þá tók við vægast sagt hundleiðinleg bið, þar sem við fylgdumst með hverju fluginu á fætur öðru vera aflýst og vorum satt best að segja með áhyggjur af því hvort við kæmumst frá Danmörku.
Við fórum þó út í vél á réttum tíma en þá tók við meiri bið þar sem brautirnar voru fullar af snjó og ís. Svo fórum við nú loks í loftið um það bil um það leyti sem við hefðum verið að lenda.
Óli tók á móti okkur á Ruzyne, gaf okkur pivo og einhvern tékkneskan snafs sem ég man ekki hvað heitir og þá fór lífið aðeins að batna.
Tókum svo strætó og lestina hingað í íbúðina. Frábær lest, panilklædd, með svo miklum hvin að ég trúi ekki öðru en að Tékka skorti heyrn á ákveðnu tíðnisviði.
Í gær sátum við svo inn á Reykjavik sem er staður sem Íslendingur rekur. Þá kemur inn hópur af ferðamönnum og aftast í hópnum eru tvær kerlingar sem litu út eins og rússneskar bóndakonur. Þau labba fram hjá barnum en skyndilega grípur einn þjónninn aðra konuna hálstaki og heldur henni fastri og hinir þjónarnir króa þessar tvær af.
Þá voru þetta sígaunakonur að stela, höfðu hengt sig aftan í túristahóp og voru að reyna við töskurnar hjá konunum. Svo var kallað í lögguna sem kom og hirti dömurnar.
Höfum smakkað svínakjöt og kál í ýmsum myndum og borðuðum svo á aldeilis fínum tailenskum stað í gær. Svo maður gleymi nú ekki staðnum sem Óli og Sigrún fóru með okkur á hér í næsta hverfi þar sem kallarnir í hverfinu hittast á fimmtudögum og spila djass.
Kveðjur og skrifa meira seinna