mánudagur, ágúst 22, 2005

Erfið helgi

Erilsöm en skemmtileg helgi að baki. Gestir á föstudaginn, sumarbústaður á laugardaginn og komið tilbaka á sunnudaginn. Við Hulda steinsváfum á sunnudagssíðdeginu og vöknuðum ekki fyrr en Siggi hringdi og spurði hvort við værum ekki tilbúnar að fara að versla. Svo var farið á harðahlaupum í Smáralind, keypt stígvél handa Huldunni og orðabækur handa Valgerði. Mamma hans Sigga og Mummi komu svo í kaffi á sunnudagskvöldið. Fínt mál allt saman en ég held ég verði að fara snemma að sofa í kvöld til að jafna mig á þessu öllu saman.
Sæki Huldu í leikskólann á eftir en við verðum kerrulausar og göngum þess vegna heim. Spennandi að vita hvað stuttfóta er lengi að ganga heim. Það verða örugglega all nokkur stopp til að skoða blómi, steina, íspinnaprik, dauða máva og almennt allt sem er á leiðinni.
Valgerður garpur hljóp 10 km. á laugardaginn. Varð nr. 819 yfir allt og nr. 17 í sínum flokki.
Þvílíkt afrekasumar hjá barninu.
Núna byrjar hún í skólanum og hættir vonandi að stjákla um á nóttunni (þetta er brandari, Valgerður!)
Fékk nýja diskinn með Gorillaz í afmælisgjöf frá feðginunum. Var að hlusta á hann í gær og þetta er tær snilld. Mæli eindregið með honum.

föstudagur, ágúst 19, 2005

Úff! á afmælisdaginn.

Ég fékk alveg áfall í morgun þegar ég sá að strætóinn sem ég hef tekið síðustu daga, lenti í hörkuárekstri á gatnamótunum hér fyrir ofan. Það eru gatnamótin sem eru rétt á undan stöðinni þar sem ég fer út. Sami tími og ég hef verið í strætó í þessari viku.

En í morgun var einhver afmælisleti að herja á mig svo ég emjaði í Sigga og bað hann að keyra mig í vinnuna. Annars hefði undirrrituð að öllum líkindum verið þátttakandi í klessunni.

Þetta er hrein og klár tilviljun, afskaplega heppileg reyndar.
Stundum þegar fólk er að segja svona sögur þá orðar það hlutina oft eins og það hafi verið blessað af almættinu eða eitthvað viðlíka. En það gefur til kynna að þeir sem hafi verið svo óheppnir að lenda í viðkomandi atburðum séu ekki í náðinni hjá æðri máttarvöldum sem er argasti hroki.
Ég fann fyrir snert af þessum hugsunarhætti hjá sjálfri mér áðan en gerði svo eins og Lísa í Undralandi og ávítaði sjálfa mig fyrir heimskuna og dónaskapinn.

Annars, í öðrum fréttum þá er vinafólk okkar að koma í mat í kvöld og á morgun hittum við klanið í sumarbústað á vegum Þórhildar.
Við sleppum kraðakinu á menningarnótt og látum aðra íbúa höfuðborgarsvæðisins að troðast um milli drykkjuraftanna og brotnu flasknanna.

Valgerður íþróttagarpur hleypur svo 10 km. í Íslandsbankahlaupinu á morgun, kl. 11:10. Hún startar í Lækjargötu, fer svo vestur eftir meðfram Ægissíðunni sýnist mér, út á Nes um Lindarbraut og svo aftur ofan í bæ meðfram Norðurströndinni. Ef allt gengur að óskum gæti hún verið um klukkutíma að hlaupa þetta.
Þeir sem eru staddir í Vesturbænum væru vísir til að hvetja dömuna ef þeir sjá hana á förnum vegi. Hinir geta hvatt hana áfram í huganum.

miðvikudagur, ágúst 17, 2005

Grautur, geitungar og Gaumur

Velþóknun mín á hafragraut heldur áfram, sérstaklega þar sem ég uppgötvaði að maður verður ekki svangur fyrr en seint og um síðir eftir að hafa borðað hafragraut í morgunmat.
Aðlögunin hjá Huldu virðist ganga ágætlega og tíminn smáeykst sem hún er á leikskólanum.

En þessa dagana reynir mikið á taugarnar hjá mér. Þau eru nefnilega ófá tækifærin til að komast yfir geitungafælnina. Það er bunki af þessu liði hvert sem maður fer. Ég er þó búin að læra að sitja eða standa kyrr þegar þessir gulu skrattar koma og sveima í kringum mann en mér líður skelfilega á meðan. Svo var býfluga í strætó í dag. Hef nú minni áhyggjur af svoleiðis og sat sem fastast. En það var þroskaheft kona sem var nú ekki hrifin og fór fram að tala við bílstjórann: "Heyrðu strætóbílstjóri! Ég held þú verðir nú að gera eitthvað í þessu. Það er býfluga hérna og ég ætla sko ekki að vera í þessum strætó ef hún er hér. Ég held ég myndi svei mér þá hafa frekar mús heldur en þessa býflugu!". Á næstu stoppistöð snaraðist bílstjórinn aftur í og tók fluguna upp með fingrunum og henti henni út um bakdyrnar. Flugan virtist nokkuð furðu lostin en sveimaði svo í burtu.

Hvað varðar önnur mál í umræðunni þá skil ég ekki af hverju það er ekki nóg fyrir Baugsmenn að mál þeirra fari fyrir dómstóla. Það ætti að skera þokkalega úr um málið á einn eða annan hátt. En þessi bægslagangur í fjölmiðlum finnst mér hálfskringilegur og finnst að þeir eigi frekar að eyða púðrinu og seðlunum í málsvörn sína. Ef þeir eru saklausir þá ætti það að duga ekki satt? Það á ekki að þurfa að mæta í hvern fjölmiðilinn á fætur öðrum og segja sármóðgaðir: "En ég gerði ekki neitt!" og "Þetta er örugglega einhverjum öðrum (Doddsyni, Ríkislögreglustjóra, Marsbúunum) að kenna!"

mánudagur, ágúst 15, 2005

Ljónadagar!!

Fyrst ber að telja að við sendum Huldu Katrínu, afmælisbarni dagsins góðar kveðjur og svo sendum við Rebekku Rut, afmælisbarni miðvikudagsins líka góðar kveðjur. Og gott ef hún Sigrún hans Óla á ekki afmæli þann daginn. Og nú, öll ljónin í fjölskyldunni: RRROOWWWR!!

Hulda fór með pabba sínum í leikskólann í morgun og þetta virðist vera að ganga ágætlega. Hún var víst frekar út af fyrir sig til að byrja með en fór svo aðeins að hýrna yfir henni eftir því sem á leið. Ég á vaktina á morgun og við sjáum hvernig gengur.

Annars er eins og venjulega, maður er alltaf hálfdofinn þegar maður kemur heim úr vinnunni og á að fara að sinna hlutunum heima fyrir. Vantar mann ekki bara það sem Fóstbræður töluðu um, amfetamínstera? Og heimilið glansar!!

Perutertan var ágæt í gær en bara sorry, dósaperurnar rúla! Ekki reyna að fikta við fullkomnun.

Eiginmaðurinn er víst að sullast heim á leið, alltof seint að vanda. Það er virkilega orðin þörf á Skúla á þessu heimili. Hann er víst frændi hennar Ingrid svo ef þið rekist á annað hvort þeirra, endilega biðja hann að hafa samband (en gá samt fyrst hvar Siggi er niðurkominn)

sunnudagur, ágúst 14, 2005

Ávextir, íþróttir og úrhelli

Helgin hefur gengið þokkalega fyrir utan að Sigurður hangir lon og don í vinnunni.
Á föstudaginn kom loksins blíðskaparveðrið þannig að við kláruðum að mála gráa litinn. Nú á eftir að bletta húsið vegna þess að það er svo fruntalega mikið hraunað að maður nær ekki almennilega að þekja alls staðar. Samt held ég að þetta hafi bara gengið þokkalega miðað við sumt sem maður sér í kringum sig. Við eigum eftir að kítta í kringum gluggana og mála þá. Þegar það er búið skal ég sýna ykkur myndir.

Vorum í dag í hellidembu að fylgjast með ungfrú Valgerði á Frjálsíþróttamóti FH. Hún vafalaust segir ykkur allt um það mál á sinni síðu en þegar við komum heim var barnið svo gegnblautt og kalt að hún var drifin í sturtu með det samme.
Það hjálpaði mikið til, ungfrúnni varð heitt aftur og við kerlingarnar skruppum í Smáralind. Þar voru keyptar gallabuxur á báðar dætur, bolir á Huldu og belti á Valgerði og Sigga. Ég er ekki frá því að kortið mitt sé byrjað að bráðna.

Í síðustu viku bauð Nóatún upp á svo aldeilis fína ávexti. Perur, nektarínur, ferskjur og plómur frá Spáni. Þetta leit svo vel út að ég keypti eina körfu af perum og eina af nektarínum. Nektarínurnar kláruðust strax og ég bætti á birgðirnar í gær. En ég er greinilega eina áhugamanneskjan um perur því að það var hellingur til í dag, orðinn vel þroskaður og útilokað að ég myndi ná að borða þetta í tæka tíð. Þá var brugðið á það ráð að kaupa svampbotna og hin klassíska peruterta útbúin með ferskum perum. Það er strax einn ókostur og hann er sá að það vantar náttúrlega allan perusafa til að bleyta botnana með. Ég hefði svosem getað sullað hvítvíni yfir þetta en það er kannski ekki það ábyrgasta þegar tveggja ára kökuætur eru með í spilinu.
Svo þeyttist rjóminn eitthvað asnalega og kremið varð óttalega lint. Ég setti hálfa dós af sýrðum rjóma út í þetta til að gá hvað gerðist og það bragðast alveg ágætlega. Fyrir utan að ég gleymdi að segja ykkur að þetta eru ekki venjulegir svampbotnar, þeir voru ekki til, heldur svampbotnar með súkkulaðibitum.
Mun gefa skýrslu um hina misheppnuðu perutertu seinna í vikunni. Valgerður hló í það minnsta kosti eins og vitleysingur þegar hún sá þetta inni í ísskáp.

Þetta er svo ótrúlegur munur þegar loksins fást almennilegir ávextir hérna. Maður verður stundum dálítið þreyttur á stjörfu eplunum með vaxgljáann og algeran skort á bragði, svo maður tali nú ekki um missúrar appelsínur. Svo eru náttúrlega búin að vera fín ber í boði en maður kann ekki almennilega að borða svoleiðis. Þetta var einu sinni svo dýrt að það var keypt ein askja af jarðarberjum, þeim skipt með mikilli viðhöfn og svo borðuð af mikilli virðingu. Maður lét sig ekki dreyma um að búa til einhverja feikna rétti úr þessu af því það var bara svo skratti dýrt. Hvað þá að stýfa þetta úr hnefa.
Maður á víst að borða 5 skammta á dag af ávöxtum og grænmeti svo eitthvað átak þarf að gera til að losna við ávaxtafeimnina.

fimmtudagur, ágúst 11, 2005

Dýr væri Hafliði hálfur. . . ?

Um helgina stóð til að fjárfesta í leikföngum handa Huldu Ólafíu. Það átti semsagt að kaupa viðbót við kastalann sem hún fékk í afmælisgjöf. Umrætt dót er til sölu í Hagkaup fyrir kr. 2.990,-
Við vorum svo upptekin af öðrum hlutum í Smáralind á sunnudaginn að við gleymdum þessu og ætluðum að skjótast í vikunni að græja þetta. Í millitíðinn skoðaði ég síðuna hjá Amazon.com hvar Toys 'R Us selur sitt góss. Þar fæst sama dótið á 11$. Semsagt á ca. 700 kr. Þá er örugglega einhver álagning í verðinu til handa erlendu aðilunum á meðan Íslendingarnir eru að kaupa þetta á heildsöluverði.
Ég varð dálítið súr við að sjá þetta og pantaði þetta í gegnum Amazon og ShopUsa. Bætti reyndar við þessu sem kostaði það sama en fæst ekki hér og er úr sömu seríu. Hingað komið með öllum gjöldum og sköttum er þetta samt miklu ódýrara en hjá snáðunum í Baugi. Ekki að furða að þeir hafi efni á að kaupa Danmörku og England. Mér skilst reyndar að það sé umfjöllun um aðalguttann í einu glanstímaritinu þar sem kemur fram að í æsku hafi hann ekki lánað öðrum börnum leikföngin sín heldur rukkað þau um leigu fyrir afnotin.
Hef nú ekki lesið þetta sjálf en sé það að það er ekki seinna vænna að fara að innræta Huldu rétta siði.
Þá eignast hún kannski Færeyjar þegar hún verður stór.

laugardagur, ágúst 06, 2005

Síðustu vígin falla

Búið að vera mikið að gera í vinnunni og satt best að segja líst mér engan veginn á næstu viku vegna manneklu.
Hef ekki verið neitt ógurlega orkumikil þegar ég kem heim til mín á kvöldin eins og sést best á draslinu og óþvegnu fötunum. Siggi er líka búinn að vera að vinna mjög mikið og er orðinn heldur tuskulegur.
Hulda hefur haft það gott hjá dagmömmunni og er ánægð með að vera komin til baka. Það verður þó stutt gaman því hún byrjar í aðlögun á leikskólanum í næstu viku.
Valgerður fór í útilegu með Þórhildi og Stefaníu svo það er tómlegt í kotinu án unglingsins.

En í morgun eldaði ég hafragraut handa Huldu. Ekki kannski stórar fréttir en lesið áfram. Ég hef alla mína hunds og kattartíð haft megnustu skömm á hafragraut. Kannski afleiðingar af því að þegar ég var lítil og á leikskóla var grautur það sem var í boði á morgnana og þeir sem ekki átu svoleiðis voru taldir eiga við siðferðisbrest og ólæknandi vanþakklæti að stríða. Enda var þetta svona ógeðfelldur grár, slímugur massi sem manni fannst helst líkjast ælu í áferð og volgleika þegar þetta lak niður vélindað. Svipaða sögu var að segja þegar ég fór í sumarbúðir Rauða Krossins og svo í Riftún. Alger viðbjóður.
Svo varð ég eldri og gat neitað þeim mat sem mér sýndist en alltaf sat í mér hafragrautsviðbjóðurinn. Ég til að mynda gaf Valgerði aldrei hafragraut fyrir utan ungbarnagrautinn. Tengdamamma skildi ekkert í þessari vandlætingu og spurði hvort ég vildi ekki smakka hennar hafragraut, hann tæki öðrum grautum fram. Ég hélt nú ekki. Að vísu kenndi Gunni mér uppskrift að graut sem var góð, búin til með óristuðum tröllahöfrum, hveitiklíði og rúsínum. En þennan venjulega hafragraut gat ég ekki enn borðað.

Svo kom Hulda Ólafía í heiminn og hún vildi ekki sjá ungbarnajukkið nema bara rétt fyrstu mánuðina sem hún var að borða, kokaði bara á gumsinu. Einhverjar fregnir hafði ég af því að hún æti graut með góðri lyst hjá dagmömmunni og herti upp hugann og keypti einn pakka af Solgryn. Ég eldaði svo grautinn og barnið át með góðri lyst. Síðan þá hefur Hulda oftast fengið graut hjá mér um helgar en er eitthvað að þreytast á málinu núna. En ég semsagt eldaði graut í morgun. Hulda borðaði smá en vildi endilega mata mig á annarri hverri skeið. Ég gat eiginlega ekki verið að fúlsa við þessu, vildi ekki setja slæmt fordæmi fyrir barnið, og lét mig hafa það. Mér til mikillar furðu var þetta bara ágætt, ég greinilega bý til betri graut en kerlingarnar sem voru að pynta mig hér í denn. Og þegar Hulda var búin að borða nóg borðaði undirrituð restin af grautnum.
Svo eitt matvendnisvígið er hér með fallið. En þetta er samt eiginlega eins og þegar maður var að kynnast kaffi. Fólk var alltaf að segja að það væri betra að setja sykur í glundrið en bæði kaffi og grautur eru betri sykurlaus.
Ég hef þó grun um að það verði langt í að ég fari að borða síld, sushi norðursins, hinn matinn sem mér finnst vondur.

mánudagur, ágúst 01, 2005

Tiltekt á öllum vígstöðvum

Hreinsaði aðeins til á tölvunni í dag og losaði tæplega gígabæt af rusli, tempfælum og fleira dóti.
Svo hóf ég að taka til hér í vinnuherberginu mínu. Hér er mikið slátur að gjöra, svo mikið er víst. Ég hef verið að pikka í draslið svona við og við en ætla að reyna að ljúka þessu núna. Þó er greinilegt að það þarf að gerast í mörgum áföngum.
Svo veit ég ekki almennilega hvað ég á að gera við þau húsgögn sem eru hérna. Vil losna við asnalegu og ljótu kommóðuna en þarf samt stað til að geyma hluti á.
Og svo er vandamálið hvernig maður hnoðar restinni saman svo það virki. Þarf til tæmis borð sem hægt er að vinna við, ekki bara hafa tölvu á. Kannski þarf maður að fá sér eitthvað ponsu tölvuborð í IKEA og nota þetta borð til að teikna við. . .
Spurningar, spurningar!

Síðasti dagurinn í fríinu og hjónin ætla að grilla svínakótelettur. Ætluðum að elda í gær, voða fínt ferskt pasta en vorum svo södd eftir laugardagskvöldið að matarlystin bara kom ekki þann daginn. Svo matnum var sleppt og fólk át ristað brauð með osti.
Valgerður vann það afrek áðan að hræra egg handa sér og systur sinni (á meðan ég kafaði í gegnum pappírshrúgurnar) og þær átu kræsingarnar með bestu lyst. Svo gaf hún systur sinni kókómalt, sem sú litla drakk og þótti þetta allt saman herramanns matur og drykkur.