þriðjudagur, janúar 31, 2006

Verið skapandi!


Prófið Artpad!

Ég bjó þetta til, viðurkenni að þetta er sóðalegt en skemmtilegt. Ég nefnilega var að uppgötva að það er hægt að sletta þarna.



Góða skemmtun

föstudagur, janúar 27, 2006

Í vikulokin

Byrjum á því að senda þvílíkar þrusukveðjur til afmælisbarns dagsins sem er fröken Erla María!
Hennar er sárlega saknað á Vegmótasamkomunum sem hún tók þátt í að koma á.

Í byrjun vikunnar var ferðinni heitið á heilsugæsluna með Huldu Ólafíu í farteskinu. Þar reyndist hinn forni fjandi, eyrnabólga, hafa tekið sig upp aftur eftir fjarveru í heilt ár. Hulda er komin á fúkkalyf og er búin að taka gleði sína aftur og búin að fá matarlystina að nýju.

Það er komið svoddan auglýsingaóþol í mig að get orðið ekki hlustað á bölvað útvarpið þegar ég ferðast á milli staða. Sérstaklega þegar maður er að hlusta á eitthvað af "stærri" stöðvunum sem eru með fleiri auglýsingar. Farin að angra mig þessi átroðsla og ítroðsla um hvað mér sé fyrir bestu.
Finnst reyndar ansi merkilegar auglýsingarnar sem eru núna í gangi fyrir Securitas þar sem er beinlínis alið á mannhatri ("þessir fjandar") gagnvart náunganum. Ég ætla ekki að gera lítið úr því að það sé áfall þegar er brotist inn hjá manni, enda við búin að reyna það svona í húsflugumynd. En mér finnst ekki gott að ala á hræðslu og vænissýki gagnvart öðru fólki, nóg er nú samt um þess háttar pælingar og hegðun hjá hinum almenna borgara.
Annars er Dagsbrún (Baugur) búin að versla Securitas þannig að kannski fara þeir að skoða eitthvað meira en bara tölvupóstinn hjá fólki! ;-)
Mér finnst þeir eigi að kaupa fatahreinsun þá virkilega geta þeir stúderað skítuga þvottinn hjá Jóni og Gunnu (sbr. dirty laundry). Bara oggulítið spaug...
Ég verslaði þó hjá Hagkaup í fyrradag, svolítið eins og að hitta viðhaldið á laun eftir langan aðskilnað, semsagt, doldið spennandi. Keypti hjá þeim slatta af Létt-Lopa og er að vonast til þess að hafa tíma til að prjóna peysu á Huldu. Fyndnast var þó að á nótunni stóð: 'Létt-Lopi sauðalitir" við hverja einustu dokku. Þetta voru litir á við bleikt, grænt, gult, himinblátt, lilla og svo framvegis en ekkert í hefðbundnum sauðalitum.
Nema farið sé að rækta svona Technicolor™ sauðkindur og ég hafi alveg misst af því?

Góða helgi kindurnar mínar.

P.S. Góða fólkið myndi kannski kommenta svo ég sjái hvort einhver nenni að lesa þennan þvætting?

laugardagur, janúar 21, 2006

Alveg úrvinda

Ég held að botnlaus vinna síðustu 2-3 mánuði, jólahald og önnur veisluhöld séu loksins að ná í skottið á mér. Ég er úrvinda svo ekki sé meira sagt. Sofnaði yfir Latabæ í gær og Hulda gat meira eða minna gert það sem henni sýndist á meðan. Henni til hróss þá nýtti hún sér ekki tækifærið. Svo sofnaði ég þegar ég var inni hjá Huldu að svæfa hana í gærkvöldi. Sofnaði á undan henni reyndar og svaf í gegnum nokkrar tilraunir Sigga við að stugga við mér. Ætlaði svo aldrei að geta vaknað í morgun og leið svipað og manni líður oftast á jóladagsmorgun. Hræðilega þreytt.
Það minnkar ekkert álagið í vinnunni og þótt mér finnist gaman að vinna þarna þá er dálítið orðið freistandi að vinna þægilegri vinnu, kannski frá 8 til 4, sem maður fær 100% kaup fyrir og getur jafnvel fengið matartíma, nokkuð sem er af skornum skammti þarna. Ótrúlegt en satt, þá telst ég einungis vera að vinna 95% vinnu þar sem ég er núna. Þó ég vinni til 18:00 á þriðjudögum og sleppi öllum matartímum.
Er bara ekki að meika þetta og þetta bitnar mikið á heimilinu, familíunni minni og síðast en ekki síst, á sjálfri mér.

Í öðrum fréttum þá kaus ég í prófkjörinu áðan, mikill erill á kjörstað og langar raðir hjá fólki sem vildi skrá sig í flokkinn. Ég var búin að því og var komin á kjörskrá og gat gengið beint inn. Afskaplega skrítið að vera flokksbundin einhvers staðar, aldrei prófað það áður. Prófkjörin úti á Nesi voru alltaf opin og einhvern veginn langaði mig aldrei sérstaklega að spyrða mig við flokkinn þegar ég bjó þar.
En þetta er leiðin ef maður vill hafa áhrif á framboðslistann sem maður ætlar að kjósa. Gerði konum hátt undir höfði á mínum kjörseðli, reynum að láta ekki afhroðið sem varð í Garðabæ endurtaka sig hérna.

Í kvöld ætlar stórfjölskyldan að taka því rólega, chilla og horfa á sjónvarp/video.
Þetta er fyrsta helgin í fimm eða sex vikur sem er ekki eitthvað í gangi hér á heimilinu og við þurfum aldeilis á hvíldinni að halda.
Góða helgi og hafið það gott.

föstudagur, janúar 13, 2006

Nýfægður mykjudreifari

Ég veit ekki hvort eigi að fagna sérstaklega ritstjóraskiptum hjá DV. Það eru enn sömu eigendur og stjórar að sneplinum og forvitnilegt að sjá hvort þeir haldi áfram að nota blaðið til að ausa skít yfir andstæðinga sína. Blaðið virðist beinlínis keypt til slíkra verka svo það má mikið gerast til að þeir sleppi klónum af því.
Og sömu "blaðamenn" enn að störfum og hæpið að þeir hafi lært eitthvað nýtt frá í gær.
Kannski dugar þetta til að slá ryki í augun á fólki svo blaðið fari að seljast aftur og hætti að blæða peningum. En ég tek þessu með fyrirvara.

Í öðrum og gleðilegri fréttum þá er kominn heilmikið af hvíta stöffinu hérna, þ.e.a.s snjó og ég var úti í meira en klukkutíma áðan að moka fyrir framan húsið.
Við erum líka að fá gesti annað kvöld og eins gott að þeir komist að kofanum. En snillingurinn ég gleymdi að moka stíg að ruslatunnunni, þrátt fyrir að hafa mokað ca. 100 fm. hérna fyrir framan og núna nenni ég ómögulega út að bæta fyrir gleymskuna.

Skipulagsdagur á leikskólanum hennar Huldu í dag svo ég var bara hálfan dag í vinnunni.
Keyrðum framhjá klessta strætisvagninum og það var heldur ömurleg sjón. Ekki lítið hvað gengur á með bílstjóra strætó síðastliðna mánuði. Dapurlegt, og hlutaðeigandi eiga samúð okkar alla.

Keypti risastóran pott og get eldað meira eða minna Jamie Oliver í heilu lagi í honum. Kannski smá ýkjur, en á morgun fer uppskrift frá manninum ofan í pottinn. Ég efast ekki um að það verði gott, því það klikka ALDREI uppskriftirnar hans.

fimmtudagur, janúar 12, 2006

Að gefnu tilefni...

þriðjudagur, janúar 10, 2006

Afmælisbörn, jólaskraut og Tómas Jónsson (metsölusöngvari)

Fyrst ber að óska afmælisbarninu bróður mínum mikið og vel til hamingju með afmælið í dag sem leið (já, ég fer seint að sofa í dag) og sömuleiðis Helga í Spanjólalandi sem átti afmæli þann fjórða.

Svo er ársafmæli míns prívatbloggþvættings en það verður ekki haldið upp á það á nokkurn hátt.
Var að enda við að taka niður jólaskrautið og það er alltaf jafn áhugavert, allt í einu öðlast stofan arkitektúr aftur þegar jólatréð er tekið niður.
Á þó eftir að herða upp hugann og fjarlægja seríuna af svölunum en veðrið hefur verið heldur ömurlegt síðustu daga.
Annars skreyttum við tiltölulega lítið en samt tók það dágóðan tíma að raða saman öllu dótinu. Og bara örfáir jólasveinar uppi á veggjum sem Hulda Ólafía hafði nú ekki mikið álit á. Hennar álit? "Ojjj!" og svo bætti hún því við að þeir væru skamm.

En ég hef greinilega ekki verið í réttu veislunum um áramótin því ekki var ég í London að hlusta á Tom Jones með burgeisum landsins.
Þarf eitthvað að endurskoða starfsvalið...

sunnudagur, janúar 08, 2006

Kakó kakó!

Við kvensurnar á heimilinu fórum áðan út og prófuðum nýju sleðabrekkuna sem er við hinn enda götunnar. Huldu þótti feikna gaman, bæði að renna niður á sleða og eins að fara í rennibrautina sem er þarna. Svo gaman að hún vildi ekki fara inn og reyndi að lúskra á mér og Valgerði fyrir að standa fyrir slíkri ósvinnu.
En þegar hún frétti að hún fengi kakó inni þá hýrnaði yfir henni og hún sönglaði "kakó, kakó!" á meðan hún gekk upp stigann á efri hæðina.
Núna er Valgerður að búa til téð kakó og þá drekkum við allar kakó kakó!

Sigga fólk kemur að borða hjá okkur í kvöld og við þurfum líklega að fara að reikna út hvað maturinn þarf að vera lengi í ofninum. Ekki seinna vænna.

Eigið góðan sunnudag!

laugardagur, janúar 07, 2006

Pólitík

Fyrsta vinnuvika eftir áramót búin og ekki laust við að ég sé þreytt. Merkilegt, en það er ekkert minna að gera þó jólin séu búin en að vísu minnka hlaup i afgreiðslu og símsvörun talsvert.

Nú byrjar sveitastjórnarprófkjörshasarinn fyrir alvöru og lýðskrumarar landsins láta til sín heyra.
Ég hins vegar ætla í fyrsta sinn á lífsleiðinni að skrá mig í stjórnmálaflokk svo ég geti tekið þátt í prófkjöri núna í janúar og sett til dæmis þessa konu í sætið sem hún óskar eftir.
Ég er reyndar aðeins svag alltaf fyrir Vinstri grænum, það eru líklega kommúnistagenin frá afa að verki og svo sakna ég alvöru Alþýðuflokksins.
Mótsagnakennt, en svona er þetta bara.

Annars finnst mér bæjarstjórnarmálin hér í bænum talsvert frísklegri en bæði úti á Nesi, þar sem feðraveldið og vaninn ræður ferðinni, og svo í Reykjavík, þar sem leifarnar af R listanum reyna að halda dauðahaldi í völdin.
Skemmtilegri fulltrúar minnihlutans hérna en því miður hafa Frammararnir misst mikið þegar þeir misstu Geirdal.
Núna er eins og allir yngri menn Framsóknarflokksins séu steyptir í sama mót, breiðleitir, dökkhærðir, ögn broshýrir og líta út eins og vel aldir og þrýstnir bændasynir (sem er líklega það sem þeir eru komnir af).

Nú er spurning um að nýta tímann sem maður hafði ekki fyrir jól og skrifa áramótakveðjur í stað jólakveðja.
Athugum það.
Og það ER gott að búa í Kópavogi.

mánudagur, janúar 02, 2006

2006!

Gleðilegt ár!
Hér hafa jólin og áramótin verið aldeilis fín og svo er smá frí í dag áður en vinnan byrjar á morgun.

Í kvöld hefst einnig svefnþjálfun Huldu og ég krossa puttana og vona að þetta gangi vel.

Er búin að setja örfáar myndir hingað af jóla og áramótastemningunni hérna.

Hafið það gott.