mánudagur, janúar 31, 2005

Pestir og þorramatur.

Vikan hér hefur verið undirlögð af pestum og tilheyrandi leiðindum.
Hulda Ólafía vaknaði á mánudagsmorgun með hita og hljómaði eins og hrafnsungi. Hún var geymd heima þann daginn og næstu tvo daga á eftir. Á miðvikudaginn var ég orðin lasin líka og var heima þann daginn. Mætti svo í vinnuna næstu tvo daga bara til þess eins að liggja svo skjálfandi undir sæng á föstudagskvöldið. Ég var búin að missa bæði bragð og lyktarskyn það kvöldið og hugsaði mér nú aldeilis gott til glóðarinnar þegar laugardagskvöldið rynni upp og við færum í þorraveislu á Víðivöllum. Sá það fyrir mér að ég gæti nú aldeilis borðað allt dótið með velbehag og skolað því niður með brennivíni.
En svo þegar stundin rann upp, við sest í stellingarnar við matborðið með pappahjálmana á hausnum, brennivínsstaupin í sveittum lúkunum og með Þursaflokkinn á fóninum, þá var þetta allt komið tilbaka. Og ég borðaði hóflega af hangikjötinu, örlítið af sviðasultunni og lifrarpylsunni, laufabrauð, kartöflur og rófustöppu.
En ég GAT drukkið hálfa staupið af brennivíni sem mér var úthlutað. Þannig að ég er engin sérstök þorrahetja, því miður. Og ég verð að viðurkenna að mér verður oftast illt í maganum af þessum æfingum og það vantaði heldur ekki núna.
En það er nú samt gaman að upplifa þetta einu sinni á ári og já, þetta er tóm lygi með pappahjálmana.
Þeir eru alvöru. . .

föstudagur, janúar 21, 2005

Checkpoint Charlie

Á Seltjarnarnesi eru nú uppi nýstárlegar og spennandi hugmyndir um varnir gegn glæpum. Nefnilega að setja upp myndavélar við bæjarmörkin og fylgjast með öllum þeim sem fara inn og út úr bæjarfélaginu. Klókt, nema hvað þarna er ekki gert ráð fyrir þeim möguleika á að krimmarnir geti búið á Seltjarnarnesi og stundað sína iðju í heimabyggð. Þið skiljið, sjálfbær þróun og allt þetta, svona verslum í heimabyggð með öfugum formerkjum.
Vert er að benda einnig á möguleikann á að byggja hreinlega bara múr með varðstöðvum, vörðum og vegabréfum. Það er áratugareynsla fyrir svoleiðis mannvirki í Berlín og reglulega eru gerðar tilraunir víðsvegar um heimsbyggðina að reisa svona múra til að útiloka hina óæskilegu frá hinum útvöldu.
En í öllu falli er þetta farið að minna óþægilega á stóra bróður og það hljóta að vera til betri og skynsamlegri úrræði til að stemma stigu við þessu vandamáli.
Eiginmaðurinn benti á að ein lausn gæti verið svona vélmenni eins og í Robocop "You have three seconds to confess. . . "

fimmtudagur, janúar 20, 2005

Bíódagur

Loksins, loksins fór ég í bíó í gærkvöldi. Ég fór síðast í bíó með henni Valgerði í fyrra einhvern tímann að sjá Freaky Friday og þar á undan að sjá Metropolis með undirleik sinfóníunnar í nóv. 2002. Þannig að þetta telst til stórviðburða þegar maður loksins drattast af stað. En semsagt, við Erla fórum að sjá 'Un long dimanche de fiançailles' eftir Jean-Pierre Jeunet (sami og gerði Amélie) og þetta var bara aldeilis fín skemmtun. Þetta var á Kvikmyndahátiðinni sem Alliance française og Háskólabíó standa saman að og lýkur 31. jan. svo ég legg til að fólk fjölmenni í bíó. Aðrar myndir lofa góðu eins og til dæmis "Les choristes' sem Fransmenn ætla að senda í Óskarinn og svo hef ég lúmskt gaman að frönskum gamanmyndum og langar dálítið að sjá Tais-toi!, sem er víst þýtt sem 'Grjóthaltu kjafti', með Jean Reno og Gérard Depardieu.
En á meðan ég var í bíó spilaði Hulda á föður sinn og systur eins og ræl á rófuna á sér, át pylsur, glápti á teiknimyndir og var enn vakandi með pylsulykt í hárinu þegar ég kom heim. Þannig að hún var sett í mjög snöggt bað eins og Roy Roggers og svo skellt í rúmið.


sunnudagur, janúar 09, 2005

Afmælisbarn dagsins. . .

. . . er hann Gvendur bróðir minn!
Afmæliskveðjur og hamingjuóskir með fimmtugsafmælið frá okkur öllum og hafðu það sem best á afmælisdaginn. Afmælisgjafir verða sendar af stað í næstu viku.

En annars, hérna var þreytandi dagur sem fólst einkum í því að labba um BYKO og IKEA að skoða flísar, klósett, ljós og margt fleira og (geisp) spennandi. Svo var haldið í hina dónalegu Smáralind og fjárfest í frjálsíþróttaskóm handa Valgerði. Mjög tæknilegir, sérdeilis Breiðabliksgrænir og hægt að skrúfa gadda neðan í þá. Við hin erum afskaplega þreytt í fótunum eftir þetta allt saman, nema Hulda Ólafía sem svaf í kerrunni sinni. Vildi að ég gæti verið svona í verslunarleiðöngrum.

Jæja góða fólk, það sem eftir lifir dags þarf víst að þvo þvott, baða barn og elda svo 'Roasted Chicken Provencale'.

Ég kveð eins og skólastjórinn hennar Valgerðar:
Kveðja góð,
Þórdís

fimmtudagur, janúar 06, 2005

Ruslalúgan mín

Nú streyma inn auglýsingar og ruslpóstur um póstlúguna mína. Í dag var mér boðið að kaupa meðal annars: 90 cm. rúm án fóta, náttföt, gluggatjöld, þvottavélar, útvörp, rakvélar, prentarapappír, lítilsháttar útlitsgallað borðstofuborð, tölvuleiki, ísskápa, tuskudýr, áherslupenna og fleira.
Það er reyndar merkilegt hvað á að versla mikið af ritföngum og skrifstofuvörum um áramótin. Suma hluti þarf reyndar að versla í kringum áramót, dagatöl, möppur og þess háttar. En tæpast úreltust prentarar og faxvélar svona herfilega á tveimur vikum? Urðu allir pennar og blýantar að dufti þegar klukkan sló tólf á nýársnótt?
Tækið sem virkilega vantar og ég sé ekki í þessum bleðlum er pappírstætari. Augljóst væri að nota hann á umræddan ruslpóst en hér erum við umhverfisvæn og endurvinnum. Þó að það væri óneitanlega freistandi að skrúfa einn svoleiðis fastan við bréfalúguna.
En allt hitt pappírsruslið! Allt reikningaflóðið sem er fyrnt og maður þarf að farga. Allra handa bréf sem þarf ekki að geyma en maður helst vill ekki að óviðkomandi lesi. Mér finnst að Rúmfatalagerinn og Elko eigi að bjóða upp á svona á ca. 2.399,- Þá myndi ég gjarnan fara og versla.


þriðjudagur, janúar 04, 2005

Fyrsti krotingur

Sælinú.

Hér geysist ég fram á ritvöllinn, öllum til gleði, ánægju og yndisauka. Eða að öðrum kosti til leiðinda, ama og eymingjaháttar.

Ekki búast við neinum meiriháttar ritverkum enda er ég viss um að þegar þau fæðast munu útgáfufyrirtækin gjörsamlega SLÁST um afurðirnar. En nóg um grobb og sjálfbirgingshátt. . .

Héðan úr Kópavoginum er allt meinhægt að frétta. Við gömlu hjónin erum enn að ná okkur eftir desembersprengjuna, jóla og áramótastússið. Firna gaman reyndar um áramótin hér og ofboðslega góður matur á borðum. Þurfum reyndar að huga að nýju og stækkanlegu borðstofuborði á nýju ári, sem rúmar alla stórfjölskylduna.

En nú er semsagt vinnan byrjuð aftur, skólinn að byrja hjá Valgerði og Hulda komin aftur til dagmömmu. Og innan tíðar fer jólaskrautið aftur ofan í kassa, nokkuð sem maður er alltaf jafn fegin að gera, eins gaman og er að taka það upp í desember.

Og það er ágætt að detta aftur inn í rútínuna, bæði í vinnunni og heima, eftir að hafa verið á hlaupum í nærri tvo mánuði.

Góðar stundir