sunnudagur, febrúar 27, 2005

Ferðastress og fiðurfénaður.

Hér eru menn í ferðahugleiðingum og ég verð að viðurkenna að ég er orðin nokkuð nervös út af fyrirhuguðum reisum. Kannski ekki út af ferðinni sem slíkri en það er skrítið að skilja afkvæmin eftir heima, ekki síst þá litlu sem er búin að vera með manni upp á dag í á þriðja ár. Og allt of mikið sem ég á eftir að gera í vinnunni og heima.
Hanaófétið er fullteiknað og kvikað (animated) svo nú er vonandi hægt að fara að snúa sér að nýjum verkefnum.
En á miðvikudagskvöldið verð ég líklega komin í kuldann í Prag með öndina (hanann) í hálsinum.

þriðjudagur, febrúar 22, 2005

Fjölgun í fjölskyldunni

Nicole og Jón eignuðust sitt fyrsta barn í nótt, Bryndís Elizabeth Guðmundsson og ég sendi mínar allra bestu hamingjuóskir vestur um haf.
Og að sjálfsögðu kveðjur til afa og ömmu með fyrsta barnabarnið.
Hmmm... það gerir mig víst að afasystur.

mánudagur, febrúar 21, 2005

Rafmagnsleysi

Skrítinn dagur.
Bíllinn bilaður, hleður ekki. Við Hulda röltum með kerru til Unnar í gegnum þokuna, nokkuð sem Huldu þótti ágætis sport. Svo fór ég með Strætó í vinnuna og af því það er svo hlýtt í dag og þoka þá var afskaplega rólegt yfir öllu, öll hljóð dempuð og notalegt að ganga úti.
Síminn minn varð svo rafmagnslaus þegar ég kom niður í vinnu. Það þarf orðið að hlaða þessa druslu tvisvar á dag svo hann gagnist eitthvað. Ég bara verð að fá mér nýjan síma áður en ég fer í útlandið. Reyndar er heimilissíminn álíka dapur og þyrfti líka að endurnýja hann. Ekki síst þar sem Hulda ræðst á hann á hverjum degi, blaðrar í hann og skellir honum svo helst í gólfið.
Ef einhver kann góð brögð til að láta börn hætta að príla þá má sá hinn sami gjarnan láta mig vita. Mín manneskja er upp á öllu, stólum, borðum, leikföngum og svo stendur hún þarna og segir ofboðslega glaðlega: "Boppa!" Ég fæ alltaf hroll þegar hún gerir þetta og vona að það takist ekki í bráð hjá henni að hoppa. En hingað til hefur mér tekist að hlaupa nógu hratt og stoppa ungfrúna.

miðvikudagur, febrúar 16, 2005

Blint á öllum vígstöðvum

Hér er góða veðrið.
Þegar ég var að koma heim í dag með strætó var sæmilegt veður niðri í dal en þegar maður horfði upp í Lindir var allt blint. Ekki skánaði það hér uppi í hverfi en ég held að það sé brýn þörf á að setja stikur á göngustíginn sem liggur frá stoppistöðinn og heim til mín.
Bólu-Hulda er örlítið að hressast, veit þó ekki hvort hún er dagmömmufær á morgun. Ég býst við því að það skýrist í kvöld þegar barnið er strípað fyrir baðið (sturtuna).
Tölvan mín er líka með eitthvað óveður, &(%&/(%/ XP leyfir mér ekki að breyta read-only stöðunni sem hún klínir á allar möppur og skjöl. Þetta veldur því að ekki er hægt að vista snilldarverkin sem ég er að teikna í ToonBoom forritinu mínu nýjasta.
Er að athuga hvort kerfisuppfærslur hafi eitthvað að segja með þetta vandamál. Drasl!
Held svei mér þá að ég búi til megrandi (sénsinn!)eplaköku til að gleðja sálirnar í kvöld.
Ég segi bara eins og Bangsímon: Æ, ansans!

mánudagur, febrúar 14, 2005

Og fleiri nýjar bólur. . .

Kaffiboð fóru vel fram um helgina. Afmælisstelpan virtist skemmta sér hið besta og hafa mikið gaman af gjöfunum. Takk fyrir okkur.
Ein gjöfin virkaði þó ekki alls kostar, Fisher-Price kastalinn sem við gáfum henni reisti ekki lúðrana konunginum til heiðurs þannig að honum var skilað í Hagkaup í dag.
Siggi stillti sig víst um að segja að kastalinn væri með risvandamál þegar hann kom með hann í Hagkaup. En þegar hann fór var afgreiðslufólkið að leika sér að kastalanum.
Hulda var svo komin í bólið um níu, algjörlega búin eftir daginn. Vaknaði tvisvar, ægilega óróleg, klæjaði og eymdin uppmáluð. Hún var smurð hátt og lágt með Pro-Derm, kláðaáburð og svo hjálpuðu stílar mikið til. Vonandi að þessu fari að ljúka.
Núna er hún heima, borðar magdalenur og horfir á Tomma og Jenna. Að sjálfsögðu alltaf stúlka með stíl.

laugardagur, febrúar 12, 2005

Samlede Værker

Þetta er nú búið að vera aldeilis merkilegt hérna.
Afmælisbarnið mætti hjá heimilislækninum á afmælisdaginn og var greind með væga eyrnabólgu og barnaexem. Svo maður minnist nú ekki á bullandi kvef en það þurfti ekki að greina það af því það var augljóst. Á föstudaginn var daman með hitaslæðing og hálf ræfilsleg þannig að hún var höfð heima. En í hádeginu, akkúrat þegar Helga var í heimsókn, komu í ljós nokkrar huggulegar bólur á kollinum á minni.
Hulda er semsagt komin með hlaupabólu. Hún virðist þó vera væg hingað til svo við höldum ótrauð áfram og höldum samkvæmi á morgun.
En þvílíkur skammtur af pestum á eina litla manneskju í einu!
Á morgun er svo afmælisdagurinn hennar mömmu, verst að maður á ekki smá kampavín til að skála fyrir frúnni!

miðvikudagur, febrúar 09, 2005

Niðr' í bæ

Var að koma heim eftir kvöld á Galeiðunni. Klukkan samt ekki orðin margt svo þetta var bara lítil galeiða í kvöld.
Ég skrapp semsagt með stúlkunum, Erlu, Lilju og Guðrúnu, að borða á Vegamótum og þetta var aldeilis gaman. Í það minnsta held ég að málningin mín hafi þurft meiriháttar sparslvinnu eftir að hafa hlustað á hundasöguna hennar Erlu. Eða er það "spartl" vinna?
Enívei, takk fyrir kvöldið góðu konur og ég skal hafa auga með bleiku lúsunum . .

Hérna heima ætla ég mér að baka svolítið af muffins sem Hulda getur tekið með sér á morgun og ært blessuð börnin með sykuráti.
Svo er afmælið á morgun og þá er spurningin hvort hinn klassíski afmælismatur verður í boði: "Kjöt. Og sósa. Og ís." Matseðill ákveðinn af ungfrú Valgerði fyrir tveggja ára afmælið sitt.
Hulda Ólafía er hins vegar búin að fá uppáhaldið sitt í kvöld, pylsur.

þriðjudagur, febrúar 08, 2005

Sprengidagur

Sprengidagur. Baunasúpan (grauturinn,ef vel heppnast) er í pottinum, saltketið á leiðinni þangað, þvotturinn í þvottavélinni, Hulduföt í þurrkaranum og ég sit hér við tölvuna að teikna galandi hana. Hann er víst þokkalega krumpaður so far, blessaður kallinn.

Engar hugmyndir komu að einhverju megrandi. Kannski ekki við því að búast frá þessari fjölskyldu, ha?
Svo er víst tveggja ára afmælið hennar Huldu á fimmtudaginn og við ætlum að hafa oggulítið kaffiboð á sunnudaginn.
Það er einmitt hugsað til að fegra og viðhalda mjúku línunum hjá familíunni.

Baunakveðjur (og þetta er ekki endilega bara meint til ykkar sem búið hjá Danskinum)

laugardagur, febrúar 05, 2005

Almennilegt kommentakerfi

Loksins gafst mér tími til að setja upp yndislegra og betra kommentakerfi. Þannig að ég hvet þá sem nenna að lesa þessa síðu að prófa fagnandi.

Nú er kominn laugardagur og vinnuvikan að baki. Valgerður búin í samræmdu prófunum og Hulda verið prýðilega hress þrátt fyrir undangengin veikindi.
Hérna heima vantar smá átak til að moka út ruslinu sem hefur safnast saman í vikunni, svo maður tali nú ekki um öll verkefnin sem bíða. Kannski maður druslist til að gera eitthvað á morgun.
Í það minnsta á ég flösku af Bordeaux rauðvíni fyrir morgundaginn og verð að finna eitthvað spennandi að borða með því.
Svo fyrir mánudaginn á ég glas af vatni og verð að finna eitthvað megrandi með því.

Allar hugmyndir eru vel þegnar.

Góðar stundir.