þriðjudagur, október 25, 2005

Áfram stelpur!


Við mæðgurnar skruppum allar þrjár í göngu í gær á Kvennafrídeginum. Einhverjar súrar kerlingar sem voru á bak við mig í göngunni voru þó eitthvað að muldra að þær væru fegnar að vera ekki með börnin sín, að labba með þau í kerru eða í mannmergðinni, en Huldu Ólafíu fannst fantagaman og stóru systur hennar einnig.





Svo hittum við Helgu systur, Þórhildi og Guðrúnu á kosningaskrifstofunni hjá Hönnu Birnu, hvar þær voru að hlýja sér og spjalla við Pétur sem er að störfum þarna. Við heilsuðum Hönnu Birnu, þáðum kökur og smá yl, kvöddum svo frúnna og óskuðum henni góðs gengis.



Þá fórum við næst á Ingólfstorg og hlustuðum á ræður og söng og hápunkturinn var að sjálfsögðu þegar upprunalegu dömurnar sem sungu á Áfram stelpur plötunni komu fram og sungu ásamt fleirum.

Svo gengum við vestur í bæ heim til stelpnanna þar sem Hulda Ólafía náði úr sér hrollinum, át upp úr þremur smáskyrsdósum, horfði á teiknimyndir og gerði harða atlögu að hringstiganum.

Okkur Valgerði var hins vegar boðið upp á afar hollustusamlegt kjúklingasalat og við þökkum kærlega fyrir okkur. Við nenntum ekki að fara út í kuldann aftur og fengum því húsaskjól þangað til Siggi sótti okkur.

Magnaður dagur, mögnuð upplifun.



laugardagur, október 15, 2005

Munaður

Af hverju fer maður ekki oftar í klippingu?

Fór í morgun í klippingu og strípur.
Engin börn, fólk að dedúa við kollinn á manni, gott kaffi úr einhverri ofurkaffivél, nýjustu blöðin og þegar manni er þvegið um höfuðið eftir strípurnar þá fær maður höfuðnudd með.
Maður ætti að leyfa sér þetta oftar því þetta er ekki slæmt fyrir sálina.
Ég dreif mig og pantaði strax næsta tíma sem þó verður ekki fyrr en í desember, semsagt jólaklippingin.

miðvikudagur, október 05, 2005

Kommentaspam!

Var að setja á svona spamvörn á kommentin.
Þið þurfið að skrifa orðið sem kemur fram á mynd til að sanna að þið séuð mennsk en ekki spamforrit.
Ekki láta það fæla ykkur frá, ég var bara komin með leið á að eyða þessu djönki sem kemur í kommentin í hvert sinn sem maður setur eitthvað nýtt inn.

Áhugavert...

Í 1928 er boðið upp á kantskorna spegla á tilboði....
Ég er enn að velta því fyrir mér hvernig hinir speglarnir eru þá.