fimmtudagur, apríl 21, 2005

Gleðilegt sundsumar!

Við Valgerður og Hulda fórum í morgun og horfðum á fyrirmenn bæjarins opna nýju íþróttamiðstöðina. Hálft í hvoru vorum við að vona að Gunnar Birgisson myndi stinga sér í tilefni dagsins, því eitthvað var hann búinn að segja um svoleiðis athafnir, en í það minnsta gerðist það ekki í opnunarathöfninni. Þrátt fyrir það er þetta hin fínasta laug, bæði úti og innilaug, nuddpottar, venjulegir pottar, vaðlaug, eimbað og vatnsorgel sem mun víst geta ausið úr sér vatni í takt við tónlist.
Við erum búin að bíða óþreyjufull eftir því að laugin opni og erum búin að vera eins og krakkar, klessandi nefjunum á milli girðingastauranna að fylgjast með framkvæmdum. En það fyndna er að við erum ekki eina fólkið sem gerir þetta. Við höfum hitt aðra íbúa við sömu iðju og svo skiptast menn dálítið undirlútir á skoðunum um þróunina á laugarsvæðinu.
En nú er öllum getgátum lokið, sundlaugin opnuð og við getum loksins, loksins, loksins farið að synda aftur án þess að leggjast í langferðalög milli bæjar og borgarhluta.

mánudagur, apríl 18, 2005

Femin konurnar

Hingað á heimilið barst um helgina Femin.is blaðið.
Viðkvæmar sálir ættu að hætta að lesa núna því ég ætla sem snöggvast að ausa úr skálum reiði minnar.

Fyrir utan ógrynnin öll af misgáfulegum auglýsingum þá finnst mér sú heimsmynd og sú sýn á konur sem þetta blað boðar ekki eiga heima í nútímanum.
Megnið af blaðinu snýst um hvað það sé æðislegt að vera sætur og sexí, hvernig á að daðra, kynþokkafyllstu konur Íslands, kynlíf og hjálpartæki ástarlífsins.

Nú ber ekki að skilja það sem svo að ég hafi neitt á móti því að vera sæt og sexí og mér finnst heldur ekki að konur eigi að fara á mis við það. Því síður að kynlíf sé eitthvað tabú, langt í frá.

En femin konurnar virðast ekki hafa nein önnur málefni í lífi sínu. Fjölskylda, vinir, menntun, vinna og tómstundir sem fara fram án víbrandi hjálpartækja eru greinilega hlutir sem eru ekki mikið spennandi í Femin heiminum. Og ef kynlífsáhuginn dalar eitthvað er auglýstur áburður sem heitir Oh! og er örvandi fyrir konur. Já, og svo er grein um bók sem heitir 'He's just not that into you' og er til að greina vandamálið ef maður er ekki að virka á manninn í lífi sínu sem sæt og sexí kynlífsmaskína.

Ef það væri ekki sýnt fremst í blaðinu að það eru konur sem standa að því myndi ég halda að þetta væri stórfenglegt plott hjá laumukallrembum þjóðfélagsins til að tjónka við kvenpeninginn og hvetja þær til að vera nú nógu blonde, sætar og til í það. Alltaf. Til að mynda fjalla fyrirspurnirnar um hvort það sé í lagi að kyngja (já segja þær, en með svona token fororði um kynsjúkdóma), hvort endaþarmsmök séu í lagi (já, en gætu valdið lausheldni á hægðir!!) og fleira í þessum dúr. Fræðsla er alltaf af hinu góða en þetta eru dálítið karlmiðuð málefni, ekki satt? Í almennri umræðu þykir frasinn "Að vera tekinn í kakóið" hvorki góður né æskilegur hlutur en svo er allt í einu orðið sjálfsagt mál að kvenfólk taki við því þegjandi (eða stynjandi!)
Og þetta er dálítið merkilegt í samhengi við umræðuna um klámvæðinguna sem hefur verið í gangi og þá hefur helst tíðkast að blammera karlmennina.
En mér sýnist sumar konur ekki vera neinir eftirbátar í því að hlutgera sjálfar sig.

Svo sést nú stundum á þessum fyrirspurnum og þeim sem hægt er að lesa á vefsíðu Femin, að unglingar eru að spyrja um ýmis viðkvæm málefni. Það er af hinu góða og það vantar sárlega meiri fræðslu fyrir þetta ágæta fólk. En oft vantar inn í svörin ákveðna ábyrgð. Til að mynda koma tæknileg svör um kynlíf og kynlífsheilsu (Stundum. Stundum vantar þó að ráðgjafinn segi "Farðu til læknis"). En oft vantar líka pælinguna um siðferði, ást og gagnkvæma virðingu. Svo maður tali nú ekki um möguleikann á að segja nei ef verið er að fara fram á vafasama hluti.

Ef unglingsstelpur hafa svona bókmenntir að leiðarljósi, er þá einhver hissa á að börnin noti munnmök sem gjaldmiðil inn í partí eins og hefur komið fram í blöðum í vetur.
Stundum er líka eins og það sé þegjandi samkomulag um að krakkar fari að stunda kynlíf um leið og þau geti girt niður um sig af sjálfsdáðum. Fullorðna fólkið brosi bara góðlátlega og segi "Þetta er ungt og leikur sér" og reddi fóstureyðingum og stefnumótum við klamidíulækninn. Að sjálfsögðu geta slysin alltaf gerst og fólk getur verið óheppið. Og þá er málið auðvitað að leysa úr þeim vandamálum á vandvirkan og nærgætinn hátt. En gamla máltækið með að byrgja brunninn áður en barnið dettur í hann eða það eða á bakið eða hnén, er ennþá í fullu gildi.

Konur hafa aldrei staðið jafnvel í hinum vestræna heimi hvað varðar menntun og atvinnuþátttöku og eru að bæta um betur á öllum vígstöðvum á hverjum degi.
Femin.is er eins og draugur úr fortíðinni og mætti alveg nútímavæðast betur.
Og hana nú!

laugardagur, apríl 16, 2005

Sjaldséð gæði

Stormur og rigning í dag og ekki vænlegt veður fyrir Valgerði og ferðalangana á Suðurlandinu. Við erum semsagt bara þrjú um þessa helgi og gömlu hjónin ætla að gæða sér á nautasteik og rauðvíni í kvöld, fyrsta nautasteikin síðan við borðuðum nautasteik á Charleston í Prag.

Þegar Valgerður hefur farið að heiman til að gista hafa gjarnan fylgt með eftirfarandi fyrirmæli til gömlu hjónanna: "Þið borðið svo bara grænmetispítu og horfið á einhverja leiðinlega mynd."
Og það er að sjálfsögðu til að hún þurfi ekki að borða hinn ólýsanlega óþverra, grænmetispítu, og horfa á eitthvað hundleiðinlegt, með öðrum orðum að við afgreiðum þetta óeðli í okkur á meðan hún er í burtu.
Jæja, við borðuðum nú ekki grænmetispítu í gær en við horfðum á alveg fantagóða mynd. Ég veit vel að ég er aftarlega á merinni og ætti löngu að vera búin að sjá þessa mynd en 'Lost in translation' var alveg brilliant. Frá upphafi til enda.
Svo hef ég verið að lesa bók eftir Peter Straub sem heitir Magic Terror og eru sjö smásögur. Það er orðið verulega langt síðan ég hef ratað á bók sem ég hef haft svona gaman af. Vel skrifað og ágætt að hafa sögurnar í þessu formi þar sem kallinum hættir dálítið til að vera eilítið langdreginn í skáldsögunum sínum, þótt mér finnist yfirleitt gaman að lesa bækurnar hans.

Svo skruppum við í Nexus áðan sem var firnagaman að undanskildu því að það er vonlaust að fara með Huldu vitleysing í búðir. Þannig að ég auglýsi hér með eftir barnapíu fyrir næstu Nexus heimsókn.

miðvikudagur, apríl 06, 2005

Leikskólastelpa

Lítill tími hefur verið til að skrifa en skal bætt úr því hér með.
Hér í Kópavogi hefur ýmislegt verið starfað frá því á páskum.
Fyrst ber þó að skýra frá því að Hulda Ólafía er komin með leikskólapláss og byrjar seinni hluta sumars/haust á leikskólanum.
Við fengum ekki pláss á leikskólanum sem við settum sem fyrsta val en komumst að á hinum leikskólanum í hverfinu.
Um helgina voru gerð mikil innkaup, farið í IKEA og keypt ýmislegt smálegt svo sem nýtt sturtuhengi og baðmotta, og svo lampaskermar í staðinn fyrir þessa gömlu gulleitu sem voru orðnir brotnir og bramlaðir. Svo voru skelfilegu appelsínugulu gluggatjöldin fjarlægð úr svefnherberginu og hvít sett í staðinn. Ég á þó eftir að sauma faldinn endanlega á þeim, reikna ekki með að hafa tíma í það fyrr en um helgina.
Svo fórum við í Kringluna og keyptum fína Fissler pönnu á Kringlukaststilboði og enduðum svo á því að fara í Villeroy og Boch og bæta á leirsafnið.
Smáralindin var svo afgreidd á þriðjudaginn, hvar Valgerður verslaði sér jakka og bol og ég leitaði að samfellum fyrir Huldu. Sú leit bar engan árangur því einhverra hluta vegna voru allar samfellur uppseldar í hennar stærð. Þannig að ég gæti neyðst til að fara aftur í Kringluna, eins gaman og það nú er :(
Webcam æði er nú gripið um sig í fjölskyldunni og nú held ég að við verðum að slást í hópinn svo menn geti virkilega sést á netinu.
Best að hætta í bili, þarf víst að henda einhverjum þvott í þurrkarann, taka eitthvað til og fleira skemmtilegt áður en ég get farið að sofa.