miðvikudagur, nóvember 23, 2005

Og hversu skrítin er ég?

You Are 40% Weird

Normal enough to know that you're weird...
But too damn weird to do anything about it!
How Weird Are You?

sunnudagur, nóvember 20, 2005

Fjölmiðlaflækjur

Ég er dálítið gáttuð á fjölmiðlastússinu hjá 365 miðlum og prentmiðlum eins og þeir heita.
Þeir halda úti nokkrum allvonlausum blöðum sem eru DV, Sirkus, Hér og Nú og svo blaðinu hennar Völu Matt sem heitir Veggfóður.
Greinilega eru Hér og Nú og Sirkus ekki alls kostar að skila sínu því nú er farið að dreifa þeim til áskrifenda DV án endurgjalds.
Ég ætla ekki að tjá mig sérstaklega um efnistök þessara blaða, ég held að flestir viti hvað er í gangi þarna en ég gluggaði í Hér og Nú um daginn (Valgerður fékk það gefins í Smáralind) og sá að slúðurblað er greinilega ekki það sama og slúðurblað. Ótrúlegt en satt þá er Séð og Heyrt nokkuð vandað slúðurblað við hliðina á hinu dótinu.
Fréttablaðið er svo líklega mest lesið af þessum blöðum enda borið heim til fólks án endurgjalds. Það kemur hingað reglulega yfir vikuna en útburðurinn er gloppóttur eða alls enginn um helgar. Oftast kemur blaðið alls ekki um helgar. Á laugardaginn fyrir viku síðan draugaðist þó Fréttablaðið inn um lúguna um hádegið, haugblautt og ónýtt. Segir sig sjálft að það var ekki lesið í því ástandi og fékk í staðinn fría ferð í endurvinnslugáminn ásamt restinni af haugnum. Svo bar það til í gær, laugardag, að Fréttablaðið var barasta komið um tíuleytið. Og til að heiðra komu þess þá fékk það að fara upp með hinum blöðunum. Svo sest ég niður eftir matinn og ætla að fara á smá blaðasukk með Mogganum, Blaðinu og Fréttablaðinu. Það gekk ágætlega með fyrstu tvö blöðin en svo þegar ég kíkti í Fréttablaðið voru hlutirnir eitthvað einkennilegir. Fréttirnar voru svo svakalega gamlar. Og ég var búin að sjá auglýsinguna aftan á blaðinu fyrir þó nokkru síðan. Þá kíkti ég á dagsetninguna og viti menn! Þeir höfðu borið út til mín vikugamalt blað! Geri aðrir betur.
Svo eru ljósvakamiðlarnir sem einungis sumir sjá svolítið að missa marks finnst mér. Stofna nýja fréttastöð sem einungis er dreift með hinu meingallaða Digital Ísland. Sömuleiðis Sirkus stöðin. Ég hélt að hugmyndin væri að ná til fólksins og sannfæra það um að The Evil Empire væri í raun gott og frábært og alveg óhætt að fara að versla hjá þeim aftur? En kannski skiptir ekki máli þótt stöðvarnar sjáist ekki hjá þorra þjóðarinnar og megnið af blaðaútgáfunni sé rekið með tapi.
Þetta er eins og að blikka einhvern í myrkri, frekar tilgangslítið.

þriðjudagur, nóvember 15, 2005

Hvaða tröll er ég....



Stjórnmálaþurs


Þú ert vanaföst, tilfinningarík félagsvera.

Í margmenni á stjórnmálaþursinn oftar en ekki orðið. Ef einhver hyggst grípa fram í fyrir honum talar hann bara hærra - og það virkar. Hann hefur sterkar skoðanir á flestu, hvort sem um er að ræða fjárlagahalla ríkisins eða það hvort SS eða Goða pylsur eru betri, og gerir hvað hann getur til að þröngva þeim upp á aðra. Stjórnmálaþursinn þarf að passa sig þegar hann er í nærveru þeirra sem eru ósammála honum því blóðþrýstingurinn á það til að rjúka upp.



Stjórnmálaþursinn vantar ekki nýja skó fyrr en það er komið gat á þá gömlu... sem skósmiðurinn segist ekki geta gert við. Stjórnmálaþursinn veit hvar Guðsteinn er með verslun.


Hvaða tröll ert þú?

laugardagur, nóvember 12, 2005

Líkamlegt samband í norðurbænum.

Það er móðins að birta lista um sig og sína hér á netinu svo ég ætla ekki að vera eftirbátur annarra. En þetta verður minn prívatlisti. Fyrir þá sem vita ekki hvað titillinn á pistlinum þýðir, þá var þetta nafn á sjónvarpsleikriti sem sýnt var fyrir allmörgum árum. Það fjallaði um húsmóður sem þurfti alltaf að eiga allar nýjustu og flottustu græjurnar og óskaði meðal annars eftir því að vera jörðuð í bílnum sínum.
Þetta verður ekki svo öfgakennt hérna en ég ætla að bæta við gagnslausan fróðleik um mig og telja upp uppáhaldstækin mín og af hverju þau skipa þennan sess.
Einhverfa hvað!

1. Þvottavélin mín. Hún er vél með sögu og kom ekki til mín alveg ný. Þannig var mál með vexti að kona nokkur út í bæ hafði keypt hana og brúkað en einn góðan veðurdag villtist tíkall í vélina. Tíkallinn háskalegi festist á milli tromlunnar og belgsins og reif gat á belginn þegar vélin var að vinda. Það var gert við vélina í ábyrgð (þótt ábyrgð sé umdeilanleg í þessu tilfelli) og hún var svo gott sem ný. En frúin vildi helst ekki fá hana aftur og af mikilli þjónustulipurð fyrirtækisins sem ég vinn hjá, fékk hún nýja vél. Viðgerða vélin var þá í svona sölulimbói, ekki hægt að selja hana en ekkert að henni. Til sögunnar kem þá ég, nýbúin að eignast lítið barn og þriggja kílóa þvottavélin ekki að gera sig fyrir stórfjölskylduna. Ég fékk maskínuna á góðu verði og hún hefur aðstoðað oss við heimilishaldið í tvö og hálft ár. Hún tekur 6 kíló af þvotti, vindur á 1400 snúninga hraða, þvær framúrskarandi vel og talar sænsku. Þannig að ef maður þarf að þvo ALLAN þvottinn sinn þá er þetta græjan. Svo er hún með snilldarstillingu sem nefnist Handþvottur. Hún getur þvegið allt, ég meina það.

2. Geislaspilarinn í eldhúsinu. Ástæðan fyrir því að ég fór að hlusta á tónlist aftur. Hafði mikið fyrir því að finna tæki sem passaði í gluggakistuna og væri ekki með kassettutæki. Fann fyrirtaks Sony græju sem er með DÚNDUR hljóði, svaka bassa og góðu útvarpi. Er farin að fiska fram geisladiskana mína og hlusta aftur á þá, því að í eldhúsinu er í raun besta næðið fyrir það. Í stofunni er nefnilega oft í gangi MTV, Johnny Depp og/eða Andrés Önd. Kannski ekki mikill munur þar á?
Svo er það kósí og huggulegt að sitja þarna á laugardags og sunnudagsmorgnum, drekka kaffi, gera krossgátuna í blaðinu og hlusta á eitthvað næs. Eða að setjast niður með kallinum að kveldi til og fá sér tebolla, glas af rauðvíni eða hálfan bjór. Og aftur, hlusta á eitthvað gott. Verst er þó að ég er farin að plægja í gegnum krossgátuna í Lesbókinni á 10-15 mínútum og þarf kannski að fara að skoða manndrápskrossgátuna í sunnudagstímariti Moggans. Eða færa mig yfir í Su Doku?

3. Myndavélin mín. Hún þykir kannski ekki merkileg á tæknilegum skala en tekur prýðilegar myndir, ferðast vel og nokkuð lipur í notkun. Nágrannarnir á móti halda örugglega að ég sé að taka myndir af þeim út um gluggann og af svölunum af tómum perraskap, en mér finnst gaman að taka myndir af litbrigðunum á himninum, Rjúpnahæðinni og umhverfinu almennt. Ég klikka því miður gjarnan á því að taka vélina með mér þegar ég fer út að ganga og sé yfirleitt alltaf eftir því. Maður þarf að fá sér einhverja góða tösku sem er auðvelt að ganga með og sem getur innihaldið téða myndavél svo hægt sé að grípa til hennar ef hugurinn girnist. Ég virkilega þarf þó að eiga aukabatterí svo hún geti verið eins og skátarnir, ávallt reiðubúin.

4. Gemsinn minn. Eignaðist nýjan gemsa áður en ég fór til Tékklands í vor og er alltaf að finna fleiri og fleiri not fyrir hann. Komin með dagbókina/skipuleggjarann í fulla notkun og það er mikið sagt fyrir mig af því ég hef aldrei getað vanið mig á að ganga með minnisbækur. Frábær skráning á tengiliðum, myndavél (sem ég er alltaf með) og útvarp. Það er hin ástæðan fyrir því að ég er farin að hlusta meira á tónlist aftur. Nota strætóferðirnar í og úr vinnunni og get hlustað í 2 x 20 mínútur á Xið(NB 91.9 - ekki hitt ruslið) á hverjum degi. Símann minn vantar þó einn hlut og það er gagnakapall sem kostar morð fjár hér á landi en skítti í útlöndum. Þannig að ef einhver vill aðstoða mig við að flytja inn gagnakapal þá má sá hinn sami hafa samband.

5. Síðast en ekki síst þá er það saumavélin. Mig hafði langað í saumavél frá því ég var unglingur en eignaðist þó ekki svoleiðis fyrr en ég varð þrjátíu og fimm ára. Ég hef í gegnum tíðina fengið lánað gömlu Elna vélina sem mamma átti og Helga er með núna en ég og vélin höfum aldrei lært almennilega á hvor aðra. Alltaf tókst mér að klúðra einhverju, vesen með að flækja og þræða, þurfti að ýta við henni svo hún færi af stað og svo framvegis. Ég var reyndar farin að kunna bærilega á hana en það verður að taka tillit til þess að hún er að halla í fimmtugt (margir mannsaldrar fyrir tæki, ekki síst nútímatæki) og kannski eitthvað farin að þreytast.
En einmitt vegna þess hvað sú vél hefur enst vel þá er nýja vélin mín líka frá Elna og ég og hún erum bestu mátar. Hún kann að gera fullt af hlutum sem ég kann ekki svo sem eins og að sauma overlock og hnappagöt, og ég er ekki í neinum vandræðum með að þræða hana. Hún faldar gallabuxur án þess að kveinka sér og saumar fíngerðustu efni án þess að skemma þau. Eiginlega er hún svo fín að ég er hálffeimin við að nota hana og er því sennilega ekki nýta hana til fullnustu. Til dæmis á ég enn eftir að sauma faldana endanlega á gluggatjöldunum í svefnherberginu og ég á enn eftir að sauma einhverjar tuskur fyrir gluggana í þvottahúsinu og geymslunni.
Saumavélina vantar engar græjur nema bara eina skrítna kvensu til að stýra henni.
Ég get bætt úr því vandamáli.

miðvikudagur, nóvember 09, 2005

Hundlasin

Þar kom að því að ég yrði lasin. Gerist ekki oft sem betur fer. Neyddist til þess að vera heima í dag þar sem meinleysislega kvefið sem Hulda smitaði mig af, þróaðist yfir í Horsprengjuna frá Helvíti. Með tilheyrandi hósta, verk í háls og bringu og til að gleðja mig enn frekar, eyrnaverk. Lítið búin að sofa síðustu daga og gafst að lokum upp í morgun og meldaði mig veika í vinnuna. Gat sofið svolítið og er kannski ögn skárri núna. Eða kannski eru þetta bara 1000 mg. af Paracetamol að tala þarna!
Mæt kona var búin að vara mig við því að á eftir andlegu álagi gætu fylgt líkamleg veikindi.
Var ég að hlusta? Bara með öðru og ekki því sem virkaði almennilega.
Sveiattan, það er skrítið bragð af öllu og ekkert gott að borða eða drekka.
Gleðilegir hóstar úr Kópavogi, gott og farsælt komandi snýt!

laugardagur, nóvember 05, 2005

Um "fegurð"

Nivea menn eru ekki af baki dottnir. Fyrr í sumar skrifaði ég um kremið með hrukkustöðvunarkerfinu og núna eru nýjar og allmerkilegar auglýsingar að koma frá þeim.
Þær byrja svona: "Ekki örvænta þó þú sért orðin þrítug!" Hver var að örvænta?
Og eins og Siggi benti á, þá myndi þetta þýða um 50 ár af örvæntingu, að því gefnu að örvæntarinn nái 80 ára aldri. 70 ár ef viðkomandi verður 100 ára!
Mér þykir það ógurlega leitt að Nivea skuli taka þennan pól í hæðina, þeir búa almennt til ágætar vörur og ég nota talsvert af þeim en ég er ekki sátt við hvernig þeir kynna sig og sitt.
Svo eru aðrar auglýsingar sem ég er að sjá núna í blöðunum um collagen til inntöku. Síðustu fréttir sem ég hafði af collageni voru til dæmis þær að Kínverjar vinna það úr húðinni á líflátnum föngum og selja svo til snyrtivöruframleiðslu. Annars er það víst oftast unnið úr svínshúðum. Ég hef svo miklar efasemdir um að dótið virki eitthvað frekar ef það er borðað, það náttúrlega gerir aðra hluti þegar því er sprautað beint í hrukkurnar og varirnar. Nær að fá sér bara svínasteik með pöru. Örugglega ódýrara og betra að borða.
Hvað erum við konur miklir sökkerar(trúgjörn flón á íslensku)?
Á Viktoríutímanum var móðins að hafa hvíta húð. Eina fólkið sem var brúnt voru verkamenn, fátæklingar og vændiskonur. Konur tóku þá inn arsenik í smáskömmtum því það ýtti svo skemmtilega undir fölva og fagurt útlit. Að sjálfsögðu kom það fyrir að hin fögru fljóð gáfu upp öndina, svona þegar rottueitrið var farið að safnast saman í líkamanum. Okkur finnst þetta fáránlegt en nú á dögum tíðkast að sprauta kerlingar með bótox, taugalömunareitri sem er unnið úr bótulinus sem þykir almennt ekki gott að hafa innbyrðis því það er til að mynda bráðdrepandi ef það nær að grassera í góðum mat. Allt fyrir fegurðina. En það skal þó bent á að bótox hefur gagnast sumum mígrenisjúklingum ef það er notað á ákveðinn hátt.
Við látum telja okkur trú um og æsum hverja aðra upp í að það sé kúl að láta sjúga fituvef úr líkamanum, troða plastpokum með gumsi í brjóstin, reyta obbann af líkamshárunum af og helst að hafa vöxt á við 13 ára smástrák (og jafnmikið af líkamshárum og níu ára stúlka).
Var það ekki í Svíþjóð í fyrra eða hitteðfyrra sem sænsk kona fékk brátt andlát úti á götu eftir að hafa farið í fitusog?
Svo var kvensjúkdómalæknir hér á landi að tjá sig um auknar sýkingar í kjölfar óhóflegrar háreyðingar og raksturs á kynfærum kvenna.
Megnið af konum mun aldrei líta út eins og gyðjurnar í auglýsingunum. Hreinlega bara útilokað af því að það eru frekar einsleitar líkamsgerðir og eiginleikar sem eru sýndir þar og ekkert sýnt af fólki sem er öðruvísi í laginu eða með öðruvísi andlit. Samt eru þetta fyrirmyndirnar sem kvenþjóðin miðar sig við og fer svo á bömmer af því þær eiga ekki séns í að líta út eins og ofurmódelin.
Það er til að mynda dagljóst að ég mun aldrei líta út eins og Naomi Campbell!
Þetta er tímasóun, orkusóun og sóun á góðum konum að láta imbana í fegurðarbransanum fara svona með sig. Við eigum að vita betur!

fimmtudagur, nóvember 03, 2005

Þarftu að breyta? Viltu bæta...

Bætti hér inn tengli fyrir hana Erlu okkar og óska henni velfarnaðar í bloggheimum og hlakka til að lesa pistla frá Ammríku.
"If you go will you send back, a letter from America..." (Proclaimers)
Breytti sömuleiðis tenglinum fyrir hana Guðrúnu sem er orðin Seltjarnarnesdama í stað þess að vera Parísarkona. Og Guðrún, það er sko alveg hægt að blogga þó maður sé á Klakanum!

Man annars nokkur eftir Litavers auglýsingunum? Þarftu að breyta? Viltu bæta...
Komdu í Litaver.

þriðjudagur, nóvember 01, 2005

Ef við ættum kampavín...

...væri núna tilefni til að opna það.
"Mig langar sjám Búmbó!"

Og Dúmbó var settur í spilarann!