föstudagur, maí 12, 2006

Hvernig væri að kíkja....


Bloggið mitt á Mogganum

þriðjudagur, maí 02, 2006

Sögur af landi

Héðan er helst að frétta að til okkar er fluttur Meistari Guðbrandur Erlingur og hefur átt náttstað hérna frá því á föstudag. Hann er einn stærsti köttur sem ég persónulega og prívat hef séð og líkist einna helst smávaxinni gaupu með lítið hjarta. Hann er ósköp góður en er ennþá að venjast okkur og saknar örugglega fyrri eiganda síns. Kisi er ekki mikið fyrir að vera í grennd við Huldu Ólafíu enda er hún óþreytandi að skipta sér af honum þegar þau eru á sömu hæð. Og málbeinið losnar aldeilis á yngri dóttur minni þegar hún kemst í tæri við kisa: "Komdu, komdu, leika, leika. Komdu, sitja, komdu, leika."
Og núna, á meðan ég skrifa þetta sitja heil 7,6 kg. af ketti í kjöltunni á mér, malandi fyrir framan tölvuna. Þetta er í fyrsta sinn sem honum þóknast að sitja hjá mér og ekki hefur hann malað mikið fram að þessu nema bara rétt svona í hómópatískum skömmtum.
Svo leyfði hann sér loksins að sofa huggulega í dag, framkvæmt með því að skríða alveg undir sængina hennar Valgerðar og sofa þar í hlýjunni. Ég hef grun um að hann hafi nefnilega ekki verið að sofa allan þann svefn sem hann gæti hafa sofið af því hann var dálítið hvekktur til að byrja með. Það er náttúrlega ekki allt dottið í dúnalogn með hann en við vonum bara að þetta gangi vel.

Og það hefur verið nóg að gera um helgina. Skruppum í mat á sunnudaginn upp á Víðivelli til að heilsa upp á Borneo farann sem kom heim aðfaranótt sunnudags. Og um kvöldið var skroppið í leikhús til að sjá Fullkomið brúðkaup, frumsýningu hér fyrir sunnan á verki Leikfélags Akureyrar. Það var ágætis skemmtun en fölnaði aðeins í samanburði við Himnaríki eftir Árna Ibsen sem við erum nýbúin að sjá.
1. maí var svo skroppið á Stokkseyri í bíltúr og til að borða humarsúpu
Í Fjöruborðinu. Ég var svo ólánsöm að verða skuggalega illt í maganum um leið og ég borðaði súpuna, eitthvað í henni sem ég hef ekki þolað. Skoðuðum Þorlákshöfn og ég fór út við höfnina að fá mér ferskt loft. Óneitanlega sérstök tilfinning að mæta á stað og velta fyrir sér "Hér er höfnin í Þorlákshöfn! Hvort ætti ég nú að skoða hana eða æla í hana?" En ekkert slíkt gerðist og heimferðin var ekkert viðburðarrík að þessu leyti nema mér var skelfilega illt í maganum og nokkuð óglatt. Þegar heim var komið reddaði Siggi mér lyfjakolum í fljótandi formi (hef átt hylki hingað til) þar sem ég var farin að óttast að þetta væri matareitrun. Ég tók inn eina matskeið af biksvörtu, þykkfljótandi ógeði, það liðu 10 sekúndur og svo var ég komin í kapphlaup við sjálfa mig inn á bað þar sem ég skilaði humarsúpunni og tilheyrandi með miklum þjáningum. Gaman að svona gubbusögum, ekki satt? En, þegar ósköpun voru gengin yfir var mér ekki vitund illt í maganum. Ekkert, og gat borðað það sem mér sýndist (svo lengi sem það var ekki humarsúpa).

Annars eru síðustu fréttir af Huldu þær að í morgun tjáði hún okkur að kisa væri "líka góð og sæt". Ég sé að ég hefði átt að fá kött fyrr því það kjaftar hver tuska á frökeninni þegar kisi er nálægt. Sé hvort ég geti ekki komið upp fleiri myndum af litla tígrisdýrinu sem býr hjá okkur.