fimmtudagur, desember 29, 2005

Bara fínt held ég

Höfum átt alveg stórfín jól og ég hef verið í svo góðu skapi að flestir sem hafa hitt mig hafa sennilega haldið að ég hafi verið haugfull upp á dag. Það er ekki, bara ánægð með lífið og tilveruna.
Aðfangadagur gekk ljómandi vel og á jóladag fórum við í fantagott afmælisboð hjá mæðgunum í Njarðvík.
Svo á annan í jólum var skroppið til Óla og Sigrúnar þar sem við máttum hafa okkur öll við að hlaupa á eftir Huldu Ólafíu sem gerði ítrekaðar tilraunir til að fara upp stigann.
Í gær skruppum við á Barnadeild Lansans að hitta svefnhjúkrunarfræðinginn og eftir áramót á að kenna Huldu og okkur betri svefnsiði. Það verða örugglega heljarinnar læti til að byrja með, spurning hvort við vörum nýju nágrannana við áður en aðgerðir hefjast.
Svo er smá jólasamkunda hjá Lilju síðdegis í dag og á laugardaginn verður að sjálfsögðu áramótageimið. Endalaust partí eða hvað?
Hulda er búin að horfa á Stubbana yfir jólahátíðina og syngur hástöfum með. Svo er aðalsportið núna að segja "Nei" á öllum mögulegum og ómögulegum tímum. Einstaka "Já" flýtur þó með stöku sinnum.
Hafið það gott.
Jóldís

laugardagur, desember 24, 2005

Gleðileg jól!

Aðfangadagur og loksins eru hlutirnir að róast hér á heimilinu. Þorláksmessa hófst einkar skemmtilega með því að hringt var í okkur og sagt að rafvirkjarnir kæmu eftir tíu mínútur. Þar sem við vorum hrjótandi uppi í rúmi þá getið þið rétt ímyndað ykkur handaganginn í öskjunni sem upphófst þá. Fyrsta lagi að klæða sig, svo maður taki nú ekki of vel á móti rafvirkjunum. Og svo að róta út úr þeim eldhússkápum sem þeir þurftu að komast í og að tína aðeins til í slotinu jólahroðann.
Ég var búin að afskrifa komu þeirra fyrir jól til að tengja nýju uppþvottavélina en sem betur fer hafði ég rangt fyrir mér. Hún er mögnuð þessi vél, þetta er eins og að skipta út gamla blöðruskódanum sínum fyrir Mercedes Benz. Og heyrist varla í gripnum.
Valgerður kom með mér í vinnuna í fyrradag og var drifin með á myndina sem tekin var af staffinu fyrir heimasíðu Fönix.

Svo var jólabrjálæðið í búðunum klárað í gær, þurfum bara að skreppa í sveitabúðirnar okkar hér í hverfinu í augnablik á eftir.
Ég biðst forláts án afláts að hafa ekki sent nein jólakort, því verki var slaufað vegna anna, kannski sendi ég nokkur nýárskort.

Dæmalaust er alltaf gaman að hlusta á jólakveðjurnar í útvarpinu á Þorláksmessu. Svo gaman að ég ætla að búa til eina sjálf:

Elsku ættingjar og vinir úti um allar trissur, við sendum ykkur hugheilar jólakveðjur héðan af heiðum Kópavogs og vonum að þið eigið afslöppuð og hamingjurík jól. Hvað á það annars að þýða að vera að skeinast út í útlöndum þegar þið gætuð verið hjá okkur! Sorry, varð að krydda þetta aðeins!

En svona í alvöru, hafið það firnagott um jólin, borðið vel en þó í hófi, drekkið gott en þó í hófi, elskið friðinn og strjúkið kviðinn.
Gæti það verið betra?

Gleðileg jól!

föstudagur, desember 16, 2005

Þegar myndakökur bakast...

Ég var að komast að því að eiginmaðurinn er mjög liðtækur myndakökubakari. Að vísu fullhrifin af því að búa til kökur sem líta út eins og kalkúnar en þessum baksturshæfileikum hefur hann haldið leyndum í þau rúmlega sautján ár sem sambúð okkar hefur enst.

En við erum þó komin spori lengra í jólaundirbúningnum en í fyrra. Þá var nefnilega bara búið til deigið og svo hafði undirrituð aldrei þrek til að baka skrattans kökurnar. Deiginu var svo hent úr frystinum í febrúar/mars að mig minnir.

Jæja, rétt rúm vika til jóla og jólafólin eru að fara að gera laufabrauð á laugardaginn. Heimur batnandi fer.

laugardagur, desember 10, 2005

Rollercoaster ride!

Jæja, desember er komin af stað eins og rússibaninnn úr helvíti.
Brjálað að gera í vinnunni og ég neyðist til að kaupa mér últra Ecco hlaupainniskó svo fæturnir mínir lifi daginn af.
Af hverju trompast fólk svona gjörsamlega fyrir jólin? Hátíð ljóss og friðar eða hvað? Mér skilst meira að segja að samviskusamar húsmæður séu enn í þeim bransa að gera monster hreingerningar fyrir jólin. "Taka skápana", "taka frystikistuna" (Eins og í "Ertu búin að taka skápana?")

Ákveðnir hlutir verða reyndar gerðir hér á heimilinu fyrir jólin. Ég var búin að mála prufur á tvo veggi og þarf þar af leiðandi að mála viðkomandi veggi svo þeir verði ekki doppóttir. En ég var að spá í hvort ég ætti að þvo gluggatjöldin í stofunni, þið vitið, hreinsa súkkulaðiklístur úr þeim eftir litlar hendur. En svo ákvað ég að ég nennti ekki að strauja fimm vængi úr harðsvíraðri bómull svo dimmerinn verður látinn duga. Svo langar mig ekki að taka sénsinn á að allt heila klabbið skreppi saman í þvotti og ég sitji uppi með gluggatjöld sem eru jafn stutt og buxurnar hans Michael Jackson!

Verkefni helgarinnar er að redda restinni af jólagjöfunum og finna föt á dæturnar svo þær fari nú ekki í jólaköttinn.
Svo þarf ég að æfa mig að gera fléttur í litlar stelpur því Hulda kom svo fín heim úr leikskólanum í gær, með tvær fastar fléttur sem voru settar í hana af henni elsku Rúnu hennar.
Við höfum reynt að halda hlutunum sæmilega rólegum hérna heima en maður finnur samt fyrir spennunni sem heltekur þjóðfélagið.

Ég er orðin vægast sagt hundþreytt og er að taka það út með því að fá kvef númer tvö á tveimur mánuðum, ég sem verð sjaldnast lasin. Og svo má náttúrlega ekki gleyma sjálfsköpuðum vandamálum. Var að flýta mér í vinnunni, greip kaffibollann minn og hellti gamla kaffinu úr honum, setti nýtt. Fattaði allt of seint að ég hafði síðast notað þennan bolla deginum áður, ekki fyrr um morguninn. Niðurstaða? Tveggja daga magakveisa, tvö kíló farin og synd að ég skuli ekki vera fegurðardrottning í leit að laxerandi. Nú er ég farin að skilja af hverju sumir lifa bara á kaffi og sígarettum til að halda línunum. Nota bara nógu ógeðslega bolla og þá getur maður borðað hvað sem er. Rennur beint í gegn.

Huggun harmi gegn að í dagbókinni minni stendur að það sé jólaföndur á Vegamótum á mánudagskvöldið. Ég hlakka svo til, ég hlakka alltaf svo til....

mánudagur, desember 05, 2005

Ég er ekki hætt...

Hér hefur verið mikið að gera og ekki síður, þá hafa ýmis konar pestir herjað á undirritaða.
En, kæru lesendur, þið eruð geymd en ekki gleymd. Ég mun vitna síðar um ólgu undanfarinna daga. Þ.e.a.s., skrifa seinna um stöffið sem er búið að vera í gangi.
Eða þannig...